Jarðskjálftayfirlit - júlí 2025
Samantekt
Sjálfvirka jarðskjálftamælakerfi VÍ mældi um 3860 jarðskjálfta í júní og þar af hafa um 2280 jarðskjálftar verið yfirfarnir. Stærsti jarðskjálfti mánaðarins mældist M5,2 að stærð í Bárðarbungu rétt fyrir miðnætti þann 27. júlí, barst veðurstofunni tilkynning um að skjálftinn hafi fundist í byggð. Áköf jarðskjálftahrina hófst á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells laust eftir miðnætti þann 16. júlí, í framhaldinu hófst eldgos sem stóð yfir út mánuðinn en lauk þann 5. ágúst. Nánari upplýsingar um eldgosið má finna í frétt á vef VÍ:
Níunda gosinu á Sundhnúksgígaröðinni lokið Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálftalísu
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga mældust rúmlega 1900 skjálftar í mánuðinum, þar af voru hátt í 600 skjálftar mældir í og við kvikuganginn sem myndaðist í kvikuhlaupi aðfaranótt 16. júlí. Í þeirri hrinu voru allflestir skjálftarnir undir 2 að stærð en stærstu skjálftarnir tveir voru M2,6 að stærð. Eftir að eldgosið hófst féll virknin í kvikuganginum nánast alveg niður og var lítil sem engin út mánuðinn.
Mesta virknin í júlí var í Krýsuvíkurkerfinu en þar mældust um 900 skjálftar. Aðfaranótt 20. júlí mældist stærsti skjálftinn M3,5 að stærð í Móhálsdal og fylgdi honum eftirskjálftavirkni. Fannst skjálftinn víða í byggð, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
Nokkuð hefðbundin virkni við Brennisteinsfjöll og Bláfjöll.
Reykjaneshryggur
Um 180 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg í mánuðinum. Voru skjálftarnir staðsettir að mestu í tveimur þyrpingum, annars vegar við Eldey og hins vegar um 30 km suður af Eldey. Margir skjálftanna mældust í hrinu þann 7. júlí eða um 70 skjálftar, tveir stærstu mældust M3,2 að stærð.
Bárðarbunga
í Bárðarbunguöskjunni mældust um 90 skjálftar í júlí, stærsti jarðskjálftinn var M5,2 að stærð og mældist þann 27. júlí í sunnanverðri öskjunni. Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu hefur verið þó nokkur undanfarin misseri og reglulega mælst skjálftar um og rétt yfir M5.0 að stærð eða um 7 síðastliðið ár. Skjálftavirknin er talin vera afleiðing áframhaldandi kvikusöfnunar undir Bárðarbungu.
Um 5 skjálftar mældust á djúpa svæðinu SA af Bárðarbungu.
Grjótárvatn
Við Grjótárvatn mældust um 350 skjálftar í mánuðinum og þar af hafa um 265 verið yfirfarnir. Þetta er svipað og og í maí en nokkuð minna en í júní þegar yfir 450 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn á svæðinu þennan mánuð var M3,3 að stærð. Hrina varð aðfaranótt 26. júlí og mældust um 40 skjálftar í henni.
Í byrjun maí setti Veðurstofan upp nýjan jarðskjálftamæli um 10 km sunnan við miðju jarðskjálftavirkninnar. Með fjölgun jarðskjálftamæla á svæðinu eykst fjöldi smáskjálfta sem mælist en endurspeglar ekki endilega breytingu í virkni á svæðinu. Einnig var bætt við GPS mæli við bæinn Hraunholt NV við virknina til að vakta aflögun á svæðinu en hingað til hefur þó ekki mælst markverðar breytingar í aflögun. Líklegasta skýringin á þessarri langvarandi jarðskjálftavirkni er talin vera kvikusöfnun á miklu dýpi, ca 16-18 km, og er fjölgun mælitækja liður í aukinni vöktun og rannsóknum á svæðinu.
Vesturgosbeltið
Hengill
Um 100 jarðskjálftar mældust á Hengilsvæðinu í mánuðinum, allflestir um og undir 1 að stærð. Nokkuð meiri virkni en í júní en þá mældust aðeins 25 smáskjálftar. Virknin var þó, líkt og í júní, á víð og dreif um svæðið.
Langjökull
Um 25 smáskjálftar mældust í og við Langjökul í mánuðinum og voru flestir þeirra staðsettir í Geitlandsjökli.
Austurgosbeltið
Katla
Um 220 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í júlí. Mesta virknin var í fyrri hluta mánaðarins í kringum jökulhlaupið sem rann í Leirá Syðri og Skálm og stóð yfir 9-11. júlí og svo yfir tvö tímabil í seinni hluta mánaðarins á meðan tveir jarðhitalekar stóðu yfir. Nánari upplýsingar um jökulhlaup í Skálm má finna í frétt á forsíðu:
Jökulhlaup úr Mýrdalsjökli í Leirá syðri og Skálm Torfajökull
Tæplega 40 skjálftar mældust innan Torfajökulsöskjunnar í mánuðinum sem er svipað og í júní og maí. Stærsti skjálftinn mældist M2,2 að stærð þann 22. júlí og var mesta virknin í kringum þann skjálfta.
Hekla
Um 10 smáskjálftar mældust í og við Heklu í mánuðinum sem svipar til síðustu mánaða.
Norðurgosbeltið
Askja/Herðubreið
Í Öskju mældust tæplega 70 skjálftar í mánuðinum, þeir stærstu um M2,0 að stærð austur af Öskjuvatni. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust tæplega 80 skjálftar, allir undir 2 að stærð.
Suðurlandsbrotabeltið
Um 265 skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í mánuðinum. Flestir skjálftanna mældust annars vegar í tveimur litlum hrinum austan við Þrengslin (kringum 6. júlí og svo 27. júlí) og hins vegar í hrinu suðaustur af Árnesi í Þjórsárdal þann 7. júlí. Stærsti skjálftinn mældist í hrinunni austast á Suðurlandsbrotabeltinu á þekktu sprungusvæði M3,3 að stærð.
Tjörnesbrotabeltið
Á Tjörnesbrotabeltinu mældust um 205 skjálftar í mánuðinum. Flestir skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, en stærstu skjálftarnir voru staðsettir innan Grímseyjarbeltisins. Stærsti skjálftinn mældist M3,9 að stærð SA af Grímsey þann 14. júlí.