Níunda gosinu á Sundhnúksgígaröðinni lokið
Uppfært 5. ágúst
Níunda gosinu á Sundhnúksgígaröðinni lokið
– nýtt hættumatskort gefið út
Eldgosinu sem hófst 16. júlí er lokið í bili
Gosórói og strókavirkni féllu niður um helgina
Engin virkni er í gígunum samkvæmt drónamynd lögreglunni
Gasmengunar og gosmóðu hefur lítið orðið vart undanfarna daga.
Hættur á svæðinu
Lífshættulegt er að ganga á nýstorknuðu hrauni þar sem yfirborð skorpu getur brostið án fyrirvara og glóandi hraun leynst beint undir.
Hætta er við hraunjaðra þar sem þunnfljótandi hrauntungur geta skyndilega runnið fram. Einnig getur hraunjaðarinn hrunið fram.
Gasmengun getur áfram farið yfir hættumörk í nágrenni við eldstöðina.
Í gær, mánudag, féll virkni í gígnum alveg niður samhliða minnkandi gosóróa. Örlítil virkni var sjáanleg í nótt en í dag hefur engin virkni verið í gígnum og gosið talið yfirstaðið.
Landris hefur hafist á ný samkvæmt gervihnattagögnum og GNSS-mælum, um 2–3 sentimetrar. Því er ljóst að kvikustreymi undir Svartsengi er enn til staðar og ef landris heldur áfram getur það leitt til frekari kvikuhlaupa og eldgosa.
Engar stórvægilegar breytingar hafa orðið á útbreiðslu hraunbreiðunnar síðustu daga, en hún er enn óstöðug sem getur leitt til framhlaups við hraunjaðra. Þá getur yfirborð jaðarsins brostið án fyrirvara og glóandi hrauntunga runnið fram. Slík framhlaup eru lífshættuleg og mikilvægt er að halda sig fjarri jaðrinum. Þessi hætta er enn til staðar þó að eldgosinu sé lokið.
Gasmengun frá eldgosinu hefur mælst lítil á svæðinu undanfarna tvo daga og gosmóðu hefur ekki orðið vart. Þótt ekki sé lengur virkni í gígnum er áfram möguleiki á að gosmóðu geti orðið vart, jafnvel í einhverja daga eftir goslok.
Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út og mun gilda næstu viku. Kortið endurspeglar að gosinu sé lokið, en hættur vegna nýmyndaðs hrauns og hugsanlegrar gasmengunar séu enn til staðar.
Uppfært 1. ágúst
Hætta á framhlaupi hrauns og gasmengun - Nýtt hættumatskort
Hættur á svæðinu
Lífshættulegt er að ganga á nýstorknuðu hrauni þar sem yfirborð skorpu getur brostið án fyrirvara og glóandi hraun leynst beint undir.
Hætta er við hraunjaðra þar sem þunnfljótandi hrauntungur geta skyndilega runnið fram. Einnig getur hraunjaðarinn hrunið fram.
Gasmengun getur alltaf farið yfir hættumörk í nágrenni við eldstöðina.
Staðan á eldgosinu
Kvikusöfnun er hafin á ný undir Svartsengi.
Hraunbreiðan heldur áfram að þykkna, hraunið rennur að hluta undir henni.
Nýtt hættumatskort gildir til 5. ágúst nema breytingar á virkni kalli á annað.
Gosið stöðugt en dregið hefur úr strókavirkni – varasamt við hraunjaðra
Eldgosið á Reykjanesskaga sem hófst 16. júlí heldur áfram af fremur stöðugum krafti. Þó hefur dregið úr strókavirkni gossins.
Gervitunglamyndir frá ICEYE, ásamt mælingum frá Verkís og Eflu, sýna að hraunbreiðan heldur áfram að þykkna, þó engar stórvægilegar breytingar hafi orðið á útbreiðslu hennar undanfarna daga. Þykknunin veldur þrýstingsuppsöfnun sem getur leitt til framhlaups við hraunjaðra. Þá getur yfirborð jaðarsins brostið án fyrirvara og glóandi hrauntunga runnið fram. Slík framhlaup eru lífshættuleg og því er brýnt að halda sig fjarri hraunjaðrinum.
Nýjustu greiningar á rennslisstefnu hraunsins, byggðar á halla landslagsins, benda til þess að hraunið gæti leitað í átt að Innri Sandhól þar sem ferðamenn hafa safnast saman.
Mælingar sýna áframhaldandi kvikusöfnun
Nýjustu aflögunarmælingar staðfesta að landris haldi áfram í Svartsengi. Landrisið mælist bæði á GNSS mælum í Svartsengi og InSAR gervitunglamælingum sem mæla breytingar á landslagi yfir tímabilið 21. til 28. júlí.
Veður og gasmengun
Veðurspá gerir ráð fyrir snörpum skilum í kvöld með möguleika á eldingum suðvestantil á landinu. Á sunnudag gæti gasmengun borist norðvestur yfir landið. Hægur vindur í dag og næstu daga gæti dregið úr dreifingu á gosmóðu og því aukið líkur á að SO₂ safnist fyrir í byggð.
Hættumatskort
Hættumatskortið hefur verið uppfært og gildir til 5. ágúst nema virkni breytist með afgerandi hætti. Kortið hefur verið uppfært samkvæmt nýjustu gasdreifingaspá og öðrum hættum. Aðalbreyting er sú að hætta er nú metin lítil í Vogum og í Keflavík vegna gasmengunar. Þá er metin lítil til nokkur hætta í Grindavík.
Uppfært 11:37, 29. júlí
Gasdreifing yfir byggð og merki um hægfara landris við Svartsengi
Hættur á svæðinu
Lífshættulegt er að ganga á nýstorknuðu hrauni þar sem yfirborð skorpu getur brostið án fyrirvara og glóandi hraun leynst beint undir.
Hætta er við hraunjaðra þar sem þunnfljótandi hrauntungur geta skyndilega runnið fram. Einnig getur hraunjaðarinn hrunið fram.
Gasmengun getur alltaf farið yfir hættumörk í nágrenni við eldstöðina.
- Nýtt hættumatskort gildir til 1. ágúst nema breytingar á virkni kalli á annað.
Staðan á eldgosinu
Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram með stöðugu hraunrennsli frá aðalgígnum til austurs og suðausturs.
Vísbendingar eru um að landris sé hafið á ný í Svartsengi
Nýr gígur hefur myndast innan í megingígnum og er virknin staðbundin við hann.
Sýnið aðgát á gosstöðvum
Nýjar mælingar frá Eflu og Verkís sýna að hraunið er enn að þykkna og hreyfast þótt það sé ekki sjáanlegt á yfirborði. Ferðafólk er því eindregið varað við því að ganga út á nýstorknað eða nýlegt hraun. Þótt yfirborð þess virðist hart og stöðugt er skorpan oft aðeins örfáir sentimetrar að þykkt og getur hulið glóandi, fljótandi hraun. Hraun heldur einnig hita lengi og getur því verið brennandi heitt þótt það sé storknað á yfirborðinu. Að ganga á slíku hrauni er því lífshættulegt.
Mjög varasamt er að fara nálægt hraunjöðrum
Yfirborð hraunjaðranna getur brostið án fyrirvara og glóandi hrauntunga runnið fram. Því er mjög varasamt að dvelja við hraunjaðra.
Staðan á gosinu
Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram með stöðugu hraunrennsli frá aðalgígnum til austurs og suðausturs. Þá hefur nýr gígur myndast innan í megingígnum og er virknin staðbundin við þann gíg. Litla gatið sem myndaðist í gær vestur af gígnum hefur lokast og er því engin virkni vestan megin úr gígnum.
Aflögun
Aflögunarmælingar (GNSS og InSAR) gefa vísbendingar um að landris sé hafið á ný við Svartsengi. Landrisið mælist enn mjög lítið, eða minna en 2 cm yfir síðastliðna viku. Mælingar næstu daga munu gefa frekari upplýsingar um landrisið.
Færslur á GNSS-stöðinni SENG á Svartsengissvæðinu yfir síðustu 90 daga í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (28. júlí) er sýnd með grænum punkti.
Mengun á svæðinu
Gasmengun getur alltaf farið yfir hættumörk í nágrenni við eldstöðina en hafa þarf í huga að gasmengun berst einnig frá hraunbreiðunni vegna afgösunar.
Gas frá eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram að berast yfir byggð á Suðvesturlandi. Í dag og á morgun bendir veðurspá til að gasmengun geti borist frá gosstöðvunum yfir höfuðborgarsvæðið, auk þess sem mengun hefur þegar mælst í Reykjanesbæ og nágrenni. Um er að ræða brennisteinsdíoxíð (SO₂), sem getur valdið ertingu í öndunarfærum, sérstaklega hjá fólki með astma eða önnur lungnavandamál.
Almenningur er hvattur til að:
Fylgjast með loftgæðum í rauntíma á vef Umhverfis- og orkustofnunar: loftgaedi.is
Nýtt hættumatskort
Hættumatskort Veðurstofunnar hefur verið uppfært og gildir til föstudagsins 1. ágúst, nema virkni breytist með afgerandi hætti.
Hætta er nú metin lítil (grænt) á svæði sunnanvert á Reykjanesskaga, beggja vegna Grindavíkur. Samkvæmt veðurspá má búast við að gas og gjóska frá gosinu berist með vindi til norðausturs á gildistíma kortsins.
Vegna þess að aðeins einn gígur er virkur hefur hættusvæðið í kringum gosupptökin minnkað.
Mikilvægt er að hagsmunaaðilar kynni sér gasdreifingarspá Veðurstofunnar sem gefin er út daglega til að meta áhrif frá degi til dags (https://www.vedur.is/eldfjoll/eldgos-a-reykjanesi/gasmengun/).
Breyting á hættumati hefur ekki afgerandi áhrif á hættumat innan athugunarsvæða en hætta innan þeirra er enn metin nokkur (gult) en hætta af völdum gjósku og gasmengunar frá gosupptökum er nú metin mjög lítil á svæði A (Grindavík) og B (Svartsengi).
Vert er að skerpa á því að allir þeir hættuþættir sem eru metnir hærri en mjög litlir innan athugunarsvæða eru listaðir/taldir upp hvort sem hætta af þeim er völdum núverandi og/eða eldri gosa. Þær hættur sem eru metnar miklar eða mjög miklar eru feitletraðar í listanum.
Að lokum viljum við undirstrika að Hættumat Veðurstofunnar lýsir staðbundinni hættu vegna eldgosavár út frá mælingum og vísindalegri greiningu, óháð því hvað er á svæðinu. Hættumat er ekki mat á áhættu, sem tekur mið af búsetu, athöfnum eða verðmætum á svæðinu.
Uppfært kl. 14:00, 28. júlí
Nýtt hraun – heitt, óstöðugt og varasamt
Gosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram með stöðugu hraunrennsli til austurs og suðausturs frá megingígnum. Hraunið breiðir úr sér á svæði innan við kílómetra frá gígnum og þykknar en lítil hreyfing er á ystu hraunjöðrum nema hvað mælingar sýna að það hreyfist aðeins til norðurs.
Veður á gosstöðvunum í dag og á morgun
Núna síðdegis ganga skil úr suðvestri yfir gosstöðvarnar með suðaustan 10-18 m/s. Bent skal á að vindstyrkur hækkar með hæð þannig að það er hvassara uppi á hæðunum í kringum gosið heldur en niður við sjávarmál, t.d. í Grindavík. Samfara skilunum er rigning, lágskýjað, þoka og lélegt skyggni. Vindur á Suðurnesjum snýst í mun hægari suðvestanátt upp úr kl. 21, styttir að mestu upp og betra skyggni.
Á morgun, þriðjudag, koma önnur skil upp að landinu úr vestri. Sunnan 8-13, rigning, lágskýjað og lélegt skyggni á gosstöðvum frá hádegi og fram að miðnætti annað kvöld.
Á miðvikudag, suðvestan 8-10 m/s og skúrir.
Ferðafólk er eindregið varað við því að ganga út á nýstorknað eða nýlegt hraun. Þótt yfirborð þess virðist hart og stöðugt er skorpan oft aðeins örfáir sentimetrar að þykkt og getur hulið glóandi, fljótandi hraun. Hraun heldur einnig hita lengi og getur því verið brennandi heitt þó það sé storknað á yfirborðinu.
Dæmi um þetta má finna í Vestmannaeyjum eftir eldgosið þar árið 1973. Þá var varminn úr hrauninu nýttur til húshitunar. Árið 1974 var fyrsta húsið tengt við tilraunaveitu og innan fárra ára voru tugir húsa, þar á meðal sjúkrahús bæjarins, orðin hluti af svokallaðri hraunhitaveitu. Þessi lausn vakti athygli víða, þar sem varmi úr nýlegu hrauni hafði aldrei áður verið nýttur á þennan hátt. Veitan var rekin í allt að fimmtán ár, þar til hitastig hraunsins féll niður fyrir það sem nýtilegt var til húshitunar. Nánar hér.
Einnig er vert að vara við dvöl við hraunjaðra. Yfirborð hraunsins getur brostið án fyrirvara og hrauntunga runnið fram. Dvöl við jaðra nýs hrauns er því sérstaklega varasöm, sérstaklega þegar það er enn að þykkna.
Mengun á svæðinu
Ferðafólk á svæðinu er hvatt til að leggja í merkt stæði, fylgja merktum gönguleiðum og sýna aðgát. Mengunar getur orðið vart bæði á gönguleiðum og við gosstöðvarnar og því er mikilvægt að fylgjast með aðstæðum.
Viðkvæmum hópum, svo sem börnum, eldra fólki og þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, er ráðlagt að draga úr áreynslu utandyra og forðast dvöl á svæðum þar sem mengun er mest.
- Nánari upplýsingar um gasdreifingu má finna á vef Veðurstofunnar: vedur.is/eldfjoll/gasmengun
- Loftgæði í rauntíma má sjá á vef Umhverfis- og orkustofnunar á loftgaedi.is

Uppfært kl. 11:21, 25. júlí
Minni virkni í gosi en hraun heldur áfram að renna og þykkna
- Gosvirkni hefur dregist saman frá því í gærmorgun en verið stöðug síðan þá.
- Hraunið rennur áfram til austurs og suðausturs og breiðir úr sér innan við kílómetra frá gígnum.
- Lítil hreyfing er á ystu hraunjöðrum og hraunið að mestu að þykkna.
- Órói hefur sveiflast undanfarna daga, líklega vegna upphleðslu og hruns í gíg.
- Þunn skel hefur myndast ofan á hrauninu og getur brostið án fyrirvara og valdið snöggri framrás.
- Hætta er talin mest í syðri hluta hraunbreiðunnar, nærri Sandhól.
- Aflögunarmælingar sýna engar breytingar undir Svartsengi – kvikuflæði talið í jafnvægi.
- Nýtt hættumatskort gildir til 29. júlí og næsta reglubundna uppfærsla er sömuleiðis þann dag.
Gosvirkni hefur hægt á sér frá því í gærmorgun en verið nokkuð stöðug síðan þá með áframhaldandi hraunrennsli til austurs og suðausturs frá megingígnum. Hraunið breiðir úr sér á svæði innan við kílómetra frá gígnum og lítil hreyfing er á ystu hraunjöðrum.
Órói hefur sveiflast töluvert undanfarna daga, sem er líklega vegna upphleðslu gígsins og hruns hans til skiptis. Sérfræðingar vara við oftúlkun, þar sem veður og ruðningur í hrauni geta haft áhrif á mælingar.
Þrátt fyrir að virknin í gosinu hafi minnkað undanfarna daga heldur hraunrennsli áfram til austurs frá gígnum. Hraunútbreiðsla mælist á stóru svæði og er hraunið að mestu að þykkna.Ofan á glóandi hrauninu hefur myndast þunn skel sem getur skyndilega brostið og valdið snöggri framrás hraunsins án fyrirvara. Því er brýnt að fara ekki of nærri hrauninu og mikilvægt að dvöl gesta í námunda við hraunið taki mið af þessari hættu.
Slík hætta er sérstaklega til staðar í syðri hluta hraunbreiðunnar, nærri Sandhól.
Aflögunarmælingar sýna óbreytt ástand síðustu daga og gefa til kynna að hvorki landris né sig eigi sér stað undir Svartsengi. Þetta gefur vísbendingar um að innflæði og útflæði kviku í kerfið séu nú í jafnvægi og að gosinu sé viðhaldið af kviku sem streymir upp úr dýpri lögum jarðskorpunnar.
Kortið sýnir hvernig útlínur nýja hraunsins hafa breyst frá 18. júlí og til 23. júlí. Útlínurnar eru byggðar á ICEYE-gervitunglamyndum og mælingum úr drónum. Megnið af hrauninu hefur runnið til suðausturs í átt að Fagradalsfjalli og síðan hægt fyllt lægðir meðfram rótum fjallsins, bæði til norðurs og suðurs.
Veðurspá gerir ráð fyrir suðaustan- og austanátt í dag og berst mengun því til norðvesturs og vesturs. Þá gæti mengunar orðið vart á norðvestan- og vestanverðu Reykjanesi. Þegar líða fer á kvöldið snýst í norðvestlæga átt og þá gæti mengunar orðið vart í Grindavík. Það bætir í vind á Reykjanesi seinnipart morgundags, 26. júlí, og mengun berst því til suðausturs. Lítil sem engin gosmóða mældist í nótt.
Nýtt hættumatskort hefur tekið gildi til 29. júlí sem tekur mið af vindaspá helgarinnar. Næsta fréttauppfærsla verður sömuleiðis 29. júlí nema að breytingar verði á virkninni. Þó munu stuttar uppfærslur verða gefnar út um helgina.
Uppfært kl. 14:30, 24. júlí
Áframhaldandi hraunflæði og minnkandi gasútstreymi
Gosvirkni hefur hægt á sér síðan í gærmorgun. Enn gýs úr einum gíg og rennur hraunið áfram til austurs og suðausturs. Hraunið dreifir sér á breiðunni innan við einn kílómetra frá gígnum en lítil hreyfing er á ystu jöðrum þess.
Samkvæmt nýjustu mælingum frá Eflu sem voru gerðar í gær 23. júlí er heildarrúmmál nýja hraunsins á Sundhnúkssvæðinu nú metið 26,8 milljónir rúmmetra og þekur um 3,3 ferkílómetra. Ný gögn sýna að rúmmál hraunsins jókst um 5,1 milljón rúmmetra á fimm dögum, frá 18. til 23. júlí. Það jafngildir meðalhraða hraunrennslis upp á um 12 rúmmetra á sekúndu.
Kortið sýnir hvernig útlínur nýja hraunsins hafa breyst frá 18. júlí og til 23. júlí. Útlínurnar eru byggðar á ICEYE gervitunglamyndum og mælingum úr drónum. Megnið af hrauninu hefur runnið til suðausturs í átt að Fagradalsfjalli og síðan hægt fyllt lægðir meðfram rótum fjallsins, bæði til norðurs og suðurs.
Gosórói fór niður á við á milli klukkan 6 og 7 í morgun, í takt við virkni gígsins, og hefur haldist nokkuð lágur síðan þá. Enn mælist engin aflögun við Svartsengi.
Myndin vinstra megin var tekin kl. 3:40 í nótt og sú hægra megin kl. 12:20 um hádegi. Á báðum myndum sést virkni í megingígnum á Sundhnúkasvæðinu. Smellið á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð.
Gasdreifing og loftgæði
Mælingar á brennisteinsdíoxíði (SO₂) í morgun sýna útstreymi á bilinu 25 - 44 kílógrömm á sekúndu, sem er veruleg lækkun frá deginum áður.
Í dag hefur verið suðaustan átt og borið gasmengun (SO₂) til norðvesturs yfir Njarðvík og Keflavík en snýst svo í sunnanátt með deginum og mengun gæti þá borist yfir Voga, höfuðborgarsvæðið, Akranes og Borgarnes.
Gosmóða (SO₄) mældist víða í morgun, meðal annars á Ísafirði og Ströndum. Með vaxandi suðaustanátt ætti að draga úr gosmóðu víða yfir daginn, en hægviðri er spáð á föstudag og gæti hún þá gert vart við sig á ný.
Myndina hér að neðan fengum við senda frá Jóni Guðbirni Guðjónssyni, veðurathugunarmanni og póstinum í Árneshreppi. Á myndinni sést gosmóða yfir norðanverðri Strandasýslu eins og hún blasti við frá veðurstöðinni á Litlu-Ávík að morgni 24. júlí en á Vestfjörðum hefur gosmóða verið þrálát frá upphafi gossins.
Ljósmynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Árneshreppi.
Gagnlegar upplýsingar:
Uppfært kl. 13:30, 22. júlí
Mengun dreifist yfir landið – einn gígur virkur í gosinu
Mengun frá gosinu berst til austurs í dag, yfir stóran hluta Suðurlands og Austurlands í kvöld. Á morgun má gera ráð fyrir að mengun dreifist víða yfir landið.
Einn gígur enn virkur, nyrðri gígur hætti að gjósa um kl. 22 í gær.
Aflögunargögn sýna ekki merki um aflögun undir Svartsengi
Fólk hvatt til að fylgjast vel með gasdreifingarspá, loftgæðamælingum og eigin líðan.
Hættumatskort óbreytt, gildir til 25. júlí, nema aðstæður kalli á annað
Staða eldgossins
Nú gýs aðeins úr einum gíg af þeim tveimur sem voru virkir í gær en virknin úr nyrðri gígnum féll niður um klukkan 22 í gærkvöldi. Hraun heldur áfram að þykkna og renna til austurs í Fagradal en hraunið gengur mjög hægt fram. Gosórói hefur farið hægt lækkandi með stöku sveiflum sem tengjast því að gígbarmar eru að byggjast upp. Jarðskjálftavirkni mælist áfram lítil yfir kvikuganginum.
Nýjustu GPS og InSAR mælingar sýna að þessa stundina mælist hvorki landris né sig undir Svartsengi sem bendir til þess að kvikan sem er nú að koma upp á yfirborð sé að koma dýpra að en úr kvikusöfnunarsvæðinu sem er undir Svarstengi.
Kortið sýnir hvernig útlínur nýja hraunsins hafa breyst frá 16. júlí og til hádegis 20. júlí. Útlínurnar eru byggðar á ICEYE gervitunglamyndum. Megnið af hrauninu hefur runnið til suðausturs í átt að Fagradalsfjalli og síðan hægt fyllt lægðir meðfram rótum fjallsins, bæði til norðurs og suðurs. Á kortinu sjást einnig gossprungurnar sem opnuðust í gosinu.
Veðurhorfur á landinu með tilliti til dreifingar gosefna
Breytilegar vindáttir eru á landinu og því erfitt að spá nákvæmlega en gasdreifingarspá Veðurstofunnar sýnir að SO₂-mengun berst til austurs í dag og gæti náð yfir stóran hluta Suðurlands og Austurlands með kvöldinu. Á morgun er svo útlit fyrir að gosmóðan muni dreifast um stóran hluta landsins og ná yfir Suðurland, Austurland og Vesturland.
Myndin að ofan sýnir gosdreifingarspá Veðurstofunnar miðvikudaginn 23. júlí kl. 6 að morgni.
Einnig má gera ráð fyrir að mengun frá gosinu geti borist yfir til Bretlandseyja næstu daga. Myndin hér að neðan sýnir nýja spá um dreifingu brennisteinsdíoxíðs (SO₂) frá eldgosinu á Reykjanesskaga. Kortið til vinstri sýnir stöðuna kl. 06:01 22. júlí og kortið til hægri sýnir spáð ástand kl. 00:00 23. júlí 2025. Spáin nær yfir stærra svæði en áður og sýnir að mengunin gæti borist til Bretlandseyja.


Spáin er gerð með FALL3D líkanskeyrslu sem nýtir veðurspár og áætlaðan útblástur (100 kg/sek) í samstarfi Veðurstofunnar við CSIC og Leonardo Mingari. (Smelltu á myndirnar til að skoða þær í fullri stærð)
Lægðardrag er nú yfir landinu og því breytilegar vindáttir, þó vestlæg átt sé ríkjandi suðvestanlands. Þokuloft og súld eru víða við ströndina. Úrkoman í dag gæti hjálpað til við að draga úr mengun sem hefur myndast vegna eldgossins.
Fólk er hvatt að fylgjast vel með gasdreifingarspá Veðurstofunnar, loftgæðamælingum Umhverfis- og orkustofnunar á loftgaedi.is og ekki síst eigin líðan.
Hættumatskort
Hættumatskort er óbreytt og gildir til 25.júlí að öllu óbreyttu.
Ferðamenn og ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að fylgjast vel með loftgæðum á ferðalögum nærri gosstöðvunum, sérstaklega á svæðum þar sem gasmengun og gosmóða geta breyst hratt eftir veðri.
Gagnlegar upplýsingar:
Uppfært kl. 10:30, 21. júlí
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni hefur valdið verulegri loftmengun undanfarna daga, bæði vegna gasmengunar (SO₂) og gosmóðu (SO₄). Gosmóðu hefur orðið vart víða, en hún er mengun sem hefur umbreyst eftir að brennisteinsdíoxíð (SO₂) hefur hvarfast við raka og súrefni í andrúmslofti og myndað fínar súlfatagnir sem geta borist langt og legið yfir byggð í lengri tíma.
Mælingar og skýringar
Mælanet Umhverfis- og orkustofnunar sýnir styrk SO₂ og svifryks (í flokkunum PM1 og PM2,5), en í gær voru mælanir víðast hvar grænir í gær þar sem lítið var um SO₂ í andrúmslofti þrátt fyrir að gosmóða væri til staðar. Þetta er vegna þess að gosmóðan mælist ekki lengur sem SO₂ heldur sem fínt svifryk eftir umbreytingu. Í dag hefur hins vegar verið raunveruleg gasmengun (SO₂).
Gasdreifingarspá Veðurstofunnar nær aðeins til SO₂ og spáir ekki fyrir um dreifingu gosmóðu. Við hvetjum því fólk til að skoða bæði gasdreifingarspá Veðurstofunnar og mælingar Umhverfis- og orkustofnunar á loftgaedi.is — og ekki síst að fylgjast með eigin líðan.
Viðkvæmir hópar og leiðbeiningar
Viðkvæmir einstaklingar, svo sem börn, barnshafandi konur, fólk með astma, langvinna lungnateppu, hjarta- og æðasjúkdóma og þeir sem eru sextíu ára og eldri, eru sérstaklega hvattir til að forðast langa dvöl utandyra ef óþægindi koma fram. Á vefsíðu Embættis landlæknis má finna leiðbeiningar um hvernig verja má sig og sína nánustu gegn loftmengun frá eldgosi.
Almenningur er hvattur til að kynna sér fræðsluefni landlæknis um heilsufarsleg áhrif gasmengunar og gosmóðu, þar sem útskýrt er hvernig best er að bregðast við loftmengun frá eldgosum.
Gagnlegar upplýsingar:
- Upplýsingar um loftmengun og heilsufarsáhættu – Embætti landlæknis
- Fræðslurit um áhrif loftmengunar (PDF) – Embætti landlæknis
- Mælingar á loftgæðum í byggð – Umhverfis- og orkustofnun
- Gasdreifingarspá vegna eldgossins – Veðurstofa Íslands
- Gervihnattamælingar á SO₂ – Copernicus Sentinel-5P
Uppfært kl. 11, 20. júlí
Mikilvægt að fylgjast með gasdreifingarspá og eigin líðan
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni hefur valdið verulegri loftmengun undanfarna daga, bæði vegna gasmengunar (SO₂) og gosmóðu (SO₄). Gosmóðu hefur orðið vart víða, en hún er mengun sem hefur umbreyst eftir að brennisteinsdíoxíð (SO₂) hefur hvarfast við raka og súrefni í andrúmslofti og myndað fínar súlfatagnir sem geta borist langt og legið yfir byggðum í lengri tíma.
Mælanet Umhverfis- og orkustofnunar nær þó ekki alltaf að sýna dreifingu og styrk gosmóðu með skýrum hætti, þar sem hún mælist ekki lengur sem SO₂ heldur sem fínt svifryk, einkum í flokkunum PM1 og PM2,5, eftir umbreytingu.
Gasdreifingarspá Veðurstofunnar nær aðeins til SO₂ og spáir ekki fyrir um dreifingu gosmóðu. Við hvetjum því fólk til að skoða bæði gasdreifingarspá Veðurstofunnar og mælingar Umhverfis- og orkustofnunar á loftgaedi.is -- og ekki síst að fylgjast með eigin líðan.
Eldgosið hefur verið stöðugt í nótt með virkni í tveimur gígum á miðhluta sprungunnar. Hraun heldur áfram að renna til austurs í Fagradal, en lélegt skyggni gerir mat á framvindu erfitt.
Spá Veðurstofunnar gerir ráð fyrir gasmengun (SO₂) á Suðurlandi og Vesturlandi í dag 20. júlí. Hæg og breytileg vindátt fram til síðdegis á mánudag gæti orðið til þess að gosmóða verði þrálát yfir suðvesturhluta landsins.
Viðkvæmir hópar, svo sem börn, aldraðir og þeir sem eru með hjarta eða lungnasjúkdóma, eru sérstaklega hvattir til að forðast langa dvöl utandyra ef óþægindi koma fram. Á vefsíðu Embættis landlæknis má finna leiðbeiningar um hvernig verja má sig og sína nánustu gegn loftmengun frá eldgosi.
Helstu ráð til að draga úr SO₂ mengun innandyra:
Loka gluggum og halda útidyrum lokuðum eins og kostur er.
Slökkva á loftræstingu þar sem það á við.
Lofta út þegar loftgæði utandyra hafa batnað.
Spá Veðurstofu Íslands um dreifingu brennisteinsdíoxíðs (SO₂) næsta sólarhrings, frá klukkan 10 þann 20. júlí til klukkan 10 þann 21. júlí. Bleik svæði sýna hvar mest mengun gæti orðið við yfirborð. Útlit er fyrir þráláta gosmóðu fram til síðdegis á mánudag.
Loftmengun frá eldgosum birtist helst á tvo vegu:
Gasmengun (SO₂): Þetta er brennisteinsdíoxíð í loftinu sem á upptök sín við eldstöðvarnar sjálfar. Mengunin er beint frá gosinu og mælist skýrt á gasmælum
Gosmóða (einnig kölluð blámóða): Þetta er mengun sem hefur farið í gegnum efnahvörf eftir að hún barst út í andrúmsloftið. SO₂ blandast þar raka og súrefni og breytist í fínar súlfatagnir (SO₄), sem mynda móðukenndan bláma. Gosmóðan getur borist langar leiðir frá eldstöðinni og legið yfir byggðum í lengri tíma. Hún mælist ekki lengur sem brennisteinsdíoxíð heldur sem „fínt svifryk“ (PM1 og PM2,5) á mælum Umhverfis- og orkustofnunar.
Jarðskjálfti fannst víða
Aðfaranótt sunnudags klukkan 2:55 mældist 3,5 gikkskjálfti í Móhálsadal vestan Kleifarvatns. Þegar kvika þrýstir sér inn í jarðlög myndast spenna beggja megin við kvikuganginn. Sú spenna losnar í svokölluðum gikkskjálftum sem eru merki um spennulosun en þýða ekki að kvika sé á hreyfingu þar sem þeir mælast. Skjálftinn sem nú mældist fannst víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.
Viðbótarupplýsingar:
Veðurstofan þiggur tilkynningar frá íbúum í byggð sem verða vart við gasmengun (ekki frá gestum við gosstöðvarnar). Skráningarform vegna gasmengunar.
Ráðleggingar frá Umhverfisstofnun og hlekkur á loftgaedi.is með mæld loftgæði í byggð.
Aðgengilegur bæklingur sem útskýrir áhrif loftmengunar á heilsu og ráð um hvernig hægt er að verja sig og sína nánustu.
Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum. Leiðbeiningar fyrir almenning – Embætti landlæknis (PDF)
Uppfært 11:18, 19. júli
Gosvirkni stöðug og gosmóða víða yfir landinu
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og gosmóða hefur borist víða um landið undanfarna daga. Mengunin er ekki aðeins nærri gosinu heldur getur einnig borist langt og legið yfir byggðum í lengri tíma. Almenningur er hvattur til að fylgjast vel með loftgæðum.
Staða gossins
Eldgosið hefur verið stöðugt í nótt og frá því í gærmorgun. Enn gýs úr 2–3 gígum á miðbiki sprungunnar sem myndaðist 16. júlí og gosórói mælist stöðugur.
Loftmengun og gosmóða
Gosmóða hefur myndast við kjöraðstæður: hægan vind, raka og sólskin. Hennar hefur gætt víða á Vesturlandi, Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu.
Loftmengun frá eldgosum birtist helst á tvo vegu:
Gasmengun af brennisteinsdíoxíði (SO₂) nærri eldstöðvunum.
Gosmóða (blámóða) sem myndast þegar SO₂ hvarfast við raka og súrefni í andrúmslofti og breytist í fínar súlfatagnir (SO₄). Þessar agnir geta borist langar leiðir og legið yfir byggðum í lengri tíma.
Undanfarna daga hefur mikið SO₂ borist norður yfir Grænland, en það sem nú mælist yfir Íslandi er að mestu leyti blámóða.
Myndin sýnir dreifingu brennisteinsdíoxíðs (SO₂) frá eldgosinu á Reykjanesskaga 17. júlí 2025. Kortið byggir á mælingum Sentinel-5P gervitunglsins.
Veðurhorfur og dreifing næstu klukkutíma
Spáð er hægri vestlægri eða breytilegri átt næstu klukkustundir og fram á morgun. Því getur gasmengun og gosmóða borist víða um Suðvesturland, Suðurland og jafnvel inn á hálendið.
Víða er lágskýjað og gosmóðu gætir, sem dregur úr skyggni og gæti haft áhrif á flugumferð.
Almenningur er hvattur til að fylgjast með loftgæðum á:
loftgaedi.is – mælingar og leiðbeiningar.
vedur.is – spár og kort.
Fólk sem er viðkvæmt fyrir loftmengun, svo sem börn, eldra fólk og þeir sem eru með lungnavandamál, ættu að huga að álagi utandyra þegar gosmóða mælist mikil.
Spá um styrk brennisteinsdíoxíðs (SO₂) við sunnudaginn 20. júlí sýnir að mengun gæti borist víða um Suðurland og inn á hálendið með vestlægri eða breytilegri átt. Sjá nánar á vedur.is.
Frekari upplýsingar
Loftgæði á Íslandi – Umhverfis- og orkustofnun. Gögn uppfærast á 10 mínútna fresti.
Gasmengunarspá – Veðurstofa Íslands. Kort sýnir svæði á landinu þar sem von er á brennisteinsmengun næstu 48 tíma
Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum. Leiðbeiningar fyrir almenning – Embætti landlæknis (PDF)
Skráningarblað fyrir gasmengun í byggð – Veðurstofa Íslands
Vefsjá Sentinel-5P – Kort sem sýnir hvernig brennisteinsmengun dreifist yfir Evrópu og Atlantshafið dag frá degi, út frá mælingum úr gervihnetti.
Fylgst er náið með þróun mengunar og uppfærð gögn eru birt reglulega á vef Veðurstofu Íslands.
Uppfært kl. 11:30, 18. júlí
Staða eldgossins og gosmóða yfir landinu
Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram, en virkni þess hefur dregist saman síðasta sólarhring. Meginvirkni er nú á miðbiki sprungunnar og lítil sem engin skjálftavirkni hefur mælst á kvikuganginum. Einnig hefur dregið úr óróa í kringum gosstöðvarnar.
Ekki hefur komið upp aska í þessu gosi og því hefur gosið ekki haft áhrif á flugumferð til eða frá landinu.
Gosmengun og blámóða yfir landinu – staða og viðvaranir
Loftmengun frá eldgosum kemur einkum fram á tvo ólíka vegu:
- Gasmengun vegna brennisteinsdíoxíðs (SO₂) sem berst upp með kvikunni hefur mest áhrif nærri eldstöðvunum.
- Gosmóða (einnig kölluð blámóða) myndast þegar SO₂ gas hvarfast við raka og súrefni í andrúmslofti fyrir áhrif sólarljóss og breytist í fínar súlfatagnir (SO₄). Áhrif blámóðu geta orðið talsverð eða mikil langt frá eldstöðvum og einnig verið viðvarandi.
Gasmengun frá eldgosinu hefur nú borist víða um land og sést einnig greinilega yfir hafinu norðan og vestan lands. Gosmóða (blámóða) hefur myndast í talsverðu magni við kjöraðstæður sem nú ríkja – hægur vindur, raki og sólskin – og hefur hennar orðið vart víða um land. Einkum hefur blámóða verið áberandi á Norður- og Vesturlandi, þar sem bæði mælingar og sjónræn merki styðja viðveru hennar.
Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, börn og eldra fólk, ættu að forðast útivist í lengri tíma og minnka áreynslu utandyra á meðan mengun varir. Heilsuhraust fólk getur einnig orðið vart við óþægindi. Mælt er með að loka gluggum og draga úr loftræstingu innandyra þar sem við á, og lofta út þegar mengun minnkar.
Gosmóða liggur víða yfir landinu, sérstaklega á norðan- og vestanverðu landinu. Veðurspá gerir ráð fyrir hægum vindi næstu daga, með breytilegri átt og skúrum víða um land. Slík veðurskilyrði eru til þess fallin að gosmóða verði áfram staðbundin á ákveðnum svæðum.
Frekari upplýsingar
Loftgæði á Íslandi – Umhverfis- og orkustofnun. Gögn uppfærast á 10 mínútna fresti.
Gasmengunarspá – Veðurstofa Íslands. Kort sýnir svæði á landinu þar sem von er á brennisteinsmengun næstu 48 tíma
Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum. Leiðbeiningar fyrir almenning – Embætti landlæknis (PDF)
Skráningarblað fyrir gasmengun í byggð – Veðurstofa Íslands
Vefsjá Sentinel-5P – Kort sem sýnir hvernig brennisteinsmengun dreifist yfir Evrópu og Atlantshafið dag frá degi, út frá mælingum úr gervihnetti.
Fylgst er náið með þróun mengunar og uppfærð gögn eru birt reglulega á vef Veðurstofu Íslands.
Dreifing brennisteinsdíoxíðs (SO₂) frá eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina þann 17. júlí 2025, samkvæmt gögnum Copernicus Sentinel-5P Mapping Portal.Uppfært kl. 15:50, 17. júlí
Uppfærsla frá stöðunni í gær: nýtt hættumatskort í gildi
Gosið heldur áfram en virkni hefur minnkað og bundist við um 10 gíga
Hraunflæði aðallega í átt að Fagradalsfjalli innan fyrirsjáanlegra svæða
Lítil skjálftavirkni og minnkandi órói
SO₂-mengun hefur náð hættumörkum tímabundið á afmörkuðum svæðum
Gasdreifing í dag til Reykjanesbæjar, möguleg mengun í Grindavík á morgun
Uppfært hættumatskort í gildi til 22. júlí, án breytinga á litakóðun
Staða gossins
Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram en virknin hefur minnkað og er nú að mestu bundin við um tíu gíga. Hraun rennur áfram, einkum til austurs í átt að Fagradalsfjalli, en rennslið er að mestu innan fyrirsjáanlegra svæða.
Skjálftavirkni er lítil og óróinn fer minnkandi. Gögn úr aflögunarmælingum sýna engar markverðar breytingar frá því í gær. Þoka og lélegt skyggni hamla nú útsýni yfir gosstöðvarnar.
Gasdreifing
Gasdreifing hefur verið víðtæk en SO₂-styrkur hefur aðeins náð hættumörkum tímabundið á afmörkuðum svæðum, meðal annars á Akureyri. Í dag, 17. júlí, er gert ráð fyrir suðaustanátt og því getur gas borið til Reykjanesbæjar og nágrennis. Á morgun er spáð hægri norðanátt með mögulegri mengun í Grindavík.
Hættumatskort og gildistími
Uppfært hættumatskort hefur verið birt til að endurspegla stærð hraunbreiðunnar. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á litakóðun kortsins á meðan gosið stendur yfir. Veðurstofan fylgist áfram náið með framvindu eldgossins og mun uppfæra upplýsingar eftir þörfum. Upplýsingar um gasdreifingumá finna hér.
Hættumatskort Veðurstofunnar hefur verið uppfært og er í gildi til 22. júlí nk nema afgerandi breytingar verði á virkni.
Helstu breytingar og ástæður
Helsta breyting sem hefur verið gerð er að hraunbreiðan hefur verið uppfærð til samræmis við kortlagningu hennar af loftmyndum og eins er tekið tillit til breytilegra vindátta út gildistíma kortsins (næstu 5 daga). Breytilegar vindáttir valda því að gasmengun, gjóska og mengun frá gróðureldum getur flust frá gosupptökum í allar áttir og því er hætta af völdum loftborinnar mengunar metin nokkur (sýnd gul á korti). Því er mikilvægt að hagsmunaaðilar kynni sér gasdreifingarspá Veðurstofunnar sem gefin er út daglega til að meta dagleg áhrif frá degi til dags.
Athugunarsvæði og hættuþættir
Engar breytingar hafa orðið á metnum athugunarsvæðum. Vert er að skerpa á því að allir þeir hættuþættir sem eru metnir hærri en mjög litlir innan athugunarsvæða eru listaðir/taldir upp hvort sem hætta af þeim er völdum núverandi og/eða eldri gosa. Ástæða þess að hraun er tiltekið á Svæði A (Grindavík og nágrenni) er að þar stafar enn hætta af hrauni frá gosum í janúar 2024 og apríl 2025. Þær hættur sem eru metnar miklar eða mjög miklar eru feitletraðar í listanum.
Skýring á hugtökum
Að lokum viljum við undirstrika að Hættumat Veðurstofunnar lýsir staðbundinni hættu vegna eldgosavár út frá mælingum og vísindalegri greiningu, óháð því hvað er á svæðinu. Hættumat er ekki mat á áhættu, sem tekur mið af búsetu, athöfnum eða verðmætum á svæðinu.
Mengun á landinu
Mengun í tengslum við eldgosið hefur verið áberandi síðustu daga. Staða mengunar er eftirfarandi:
-
Mengun frá gróðureldum er nú metin sem mesta hættan í byggð en slík mengun mælist ekki á SO₂-mælum og birtist því ekki í hefðbundnum mengunarspám.
-
Brennisteinsdíoxíð (SO₂) hefur mælst víða um land, mest á Vesturlandi og einnig á Norðurlandi og Austurlandi.
-
Dreifing mengunar fer eftir ríkjandi vindáttum og því getur staðbundin mengun breyst ört frá degi til dags.
Þessa mynd fengum við senda í gær frá Jóni Guðbirni Guðjónssyni, veðurathugunarmanni og póstinum í Árneshreppi. Á myndinni sést gosmóða yfir norðanverðri Strandasýslu eins og hún blasti við frá veðurstöðinni á Litlu-Ávík síðdegis 16. júlí.

Ljósmynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Árneshreppi.
Uppfært kl. 17:30 16. júní
Uppfært hættumatskort vegna eldgoss við Sundhnúka
Veðurstofa Íslands hefur gefið út uppfært hættumatskort sem gildir til 18. júlí kl. 15 nema breyting verði á virkni. Viðvörunarstig eldstöðvakerfisins er áfram á hæsta stigi, 3.
Hættumatið byggir á nýjustu mælingum og sýnir meðal annars:
Gossprungan hefur lengst og nær lengra til norðurs en fyrri gossprungur síðan desember 2023.
Hraunflæði heldur áfram en hefur dregist saman.
Mesta hraunið safnast austan megin og líklegt er að það fylli lægðir á svæðinu.
Jarðskjálftavirkni hefur minnkað verulega og mælast nú aðeins fáeinir smáskjálftar á klukkustund.
Mengun frá gasútstreymi og gróðureldum er viðvarandi
Gosórói og virkni gossins
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram en samkvæmt mælingum á gosóróa hefur dregið úr krafti þess síðan í morgun. Myndin hér að neðan sýnir þróun óróamælinga á jarðskjálftastöðinni Fad, norðan Fagradalsfjalls. Línurnar sýna styrk titrings á mismunandi tíðnisviðum.

Sterkur órói mældist snemma morguns þegar gosið hófst en hefur minnkað jafnt og þétt eftir það.
Útbreiðsla hraunsins
Kortið hér að neðan er byggt á ICEYE gervitunglamælingum frá því skömmu fyrir hádegi í dag og sýnir útbreiðslu hraunsins sem hefur myndast í þessu gosi. Þá var flatarmál hraunsins um 3,2 km².
Kortið sýnir einnig áætlaða staðsetningu gossprungunnar við Sundhnúksgíga um kl. 12:00. Hraunið hefur runnið norður og norðaustur frá upptökum sínum og náð yfir stórt svæði á Kálffellsheiði og í átt að Svartsengi.
Ljósfjólublár litur sýnir nýlega hraunbreiðu, rauð strik sýna sprungur og brúnt línunet afmarkar athugunarsvæði og byggðir.
Brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti
Gróðureldarnir eru nú metnir mesta hættan í byggð en mengun frá þeim mælist ekki á SO₂-mælum og endurspeglast ekki í núverandi mengunarspá.
Myndin hér að neðan sýnir magn brennisteinsdíoxíðs (SO₂) í andrúmslofti yfir Íslandi
kl. 13:33 þann 16. júlí 2025 samkvæmt mælingum Sentinel-5P
gervitunglsins. Litirnir sýna styrkleika mengunar: ljósblár merkir lítið
magn, rauðbrúnt mikið magn. Mikil mengun mælist yfir Reykjanesskaga og teygir sig vestur og suðvestur af landinu með vindum.
Dreifing SO₂ í andrúmslofti samkvæmt mælingum gervitungls.
Hættumat vegna eldgossins
Hér að neðan má sjá hættumatskort Veðurstofu Íslands sem sýnir mat á hættu vegna eldgossins við Sundhnúksgíga og hvernig hættusvæði eru skilgreind miðað við stöðu mála núna. Kortið lýsir bæði hættum sem eru til staðar og þeim sem gætu skapast við áframhaldandi virkni.
Öll skilgreind athugunarsvæði á kortinu eru á gulu (nokkur hætta), en kortið sýnir einnig rauða fleti þar sem vá getur orðið mest vegna hrauns, gjósku og gasmengunar.
Hættumatskortið verður uppfært næst 18. júlí nema breytingar á virkni eða veðri kalli á aðgerðir fyrr.
Hættumatskortið lýsir hættum sem eru nú þegar til staðar á svæðinu, sem og þeim sem gætu skapast við áframhaldandi virkni í Svartsengiskerfinu.
Uppfært kl. 12:00
Nýjustu athuganir sýna að gosið er ekki lengur bundið við eina sprungu.
Stærri sprungan við Sundhnúkagígaröðina er metin um 2,4 km löng. Þá
hefur einnig opnast minni sprunga vestar við Fagradalsfjall og var hún
metin um 500 metra löng í könnunarflugi Veðurstofunnar með
Landhelgisgæslunni.
Uppfært kl. 08:45
Skjálftavirkni hefur dregist saman í morgunsárið, en hraunrennsli heldur áfram og berst bæði til austurs og vesturs, þó meira til austurs. Lélegt skyggni takmarkar yfirsýn, einkum vestan megin.
Tilkynnt hefur verið um svokölluð nornahár sem berast nú með vindinum. Þetta eru örfínir glerþræðir sem myndast þegar hraunslettur kólna hratt og teygjast. Þeir eru léttir og geta borist langt. Nornahár geta valdið óþægindum á húð og í augum og fólk er því hvatt til varúðar utandyra í nágrenni gosstöðvanna.
Mikil gasmengun mælist í Reykjanesbæ en fer minnkandi. Íbúum er ráðlagt að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Best er að anda um nef.
Fréttin verður uppfærð þegar ný gögn liggja fyrir. Unnið er að uppfærðu hættumatskorti sem verður birt síðar í dag.
Uppfært kl. 5:10
Hér fyrir neðan er kort sem sýnir áætlaða legu á gossprungunni sem opnaðist kl. 3:54.
Gossprungan lengdist örlítið til norðurs í byrjun en hefur haldist stöðug síðustu klukkustundina.
Áætluð lengd gossprunnar er 700 m.
Uppfært kl. 5:00
Í dag er útlit fyrir suðaustlæga átt, því getur gasmengun frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni borist norðvestur yfir Reykjanesbæ, Voga, Sandgerði og Garð. Þessi mynd sýnir gasdreifingu kl. 12 í dag. Sjá gasdreifingarspá hér.
Mynd sem sýnir dreifingu gasmengunar frá gosstöðvunum kl. 12 í dag.
Uppfært kl. 4:40
Gossprungan er á bilinu 700-1000 m löng og virðist ekki vera að lengjast.
Hraunflæði virðist vera mest til suðausturs og ógnar ekki neinum innviðum að svo stöddu.
Hér fyrir neðan er skjáskot úr vefmyndavél sem staðsett er rétt norðan við Fagradalsfjall og horfir til suðvesturs.
Uppfært kl. 4:20
Miðað við GPS mælingar og aflögunarmerki er líklegt að um frekar lítið eldgos sé að ræða. Í þessu samhengi má einnig nefna að áður en eldgos hófst var magn kviku sem hafði safnast undir Svartsengi um 2/3 af magninu sem hljóp þaðan í síðasta gosi.
Gasmengun berst frá gosstöðvunum til norðvesturs í átt að Vogum og Reykjanesbraut.
Miðað við staðsetningu gossprungunnar og stærð gossins er hraunflæði frá gossprungunni ekki að fara að skapa hættu í Grindavík. Náið er fylgst með því hvort hraun geti mögulega farið að renna í átt að Grindavíkurvegi norðan Stóra-Skógfells.
Uppfært kl. 3:55
Eldgos er hafið. Upptökin eru suðaustan við Litla-Skógfell. Það er á svipuðum slóðum og gígurinn sem var lengst virkur í eldgosinu í ágúst.
Uppfært kl. 3:45
Á þessum tímapunkti hefur skjálftavirknin verið mest á svæðinu frá Litla-Skógfelli í norðri að Sundhnúk í suðri.
Miðað við skjálftavirknina er kvikugangurinn sem hefur myndast því 6.5 km að lengd. Til samanburðar var kvikugangurinn sem myndaðist í síðasta atburði um 20 km að lengd.
Síðustu 15 mínúturnar hefur skjálftavirknin aukist lítilega og hluti skjálftanna er að færast nær yfirborði. Þetta gætu verið vísbendingar um að kvika sé að reyna að brjótast til yfirborðs.
Uppfært kl. 3:10
Uppfært kl. 2:50
Síðustu 30 mínúturnar hefur mesta skjálftavirknin verið norður af því svæði þar sem skjálftahrinan hófst.
Uppfært kl. 2:25
Jarðskjálftarnir í hrinunni mælast flestir á um 4-6 km dýpi. Það bendir til þess að kvika er ekki að nálgast yfirborð á þessu stigi.
Á þessum tímapunkti hafa um 300 skjálftar mælst í hrinunni frá miðnætti.
Uppfært kl. 2:11
Samkvæmt skjálftavirkni og GPS mælingum sem sýna aflögun á Sundhnúksgígaröðinni stækkar kvikugangurinn sem er að myndast meira til suðurs en til norðurs.
Uppfært kl. 01:55
Samkvæmt GPS mælingum er aflögun lítil á svæðinu sem bendir til þess að kvikuhlaupið er ekki stórt enn sem komið er.
Aflögunin er vaxandi og mælist bæði suður og norður af svæðinu þar sem skjálftavirknin hófst.
Uppfært kl. 01:20
Áköf jarðskjálftahrina stendur yfir í Sundhnúksgígaröðinni og benda gögn til þess að kvikuhlaup sé hafið og líklegt er að elgos geti hafist í kjölfarið.
Jarðskjálftahrinan er staðsett á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, á svipuðum slóðum og sést hefur í upphafi kvikuhlaupa í fyrri atburðum.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem gögn berast