Fréttir
Mynd úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni. Hraunbreiðan sem hefur myndast er um einn ferkílómetri. Stóra-Skógfell sést til vinstri við enda gossprungunnar. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Halldór Björnsson)

Eldgos hafið á Sundhnúksgígaröðinni

16.7.2025

Uppfært kl. 12:00

Nýjustu athuganir sýna að gosið er ekki lengur bundið við eina sprungu. Stærri sprungan við Sundhnúkagígaröðina er metin um 2,4 km löng. Þá hefur einnig opnast minni sprunga vestar við Fagradalsfjall og var hún metin um 500 metra löng í könnunarflugi Veðurstofunnar með Landhelgisgæslunni. 

Uppfært kl. 08:45

Skjálftavirkni hefur dregist saman í morgunsárið, en hraunrennsli heldur áfram og berst bæði til austurs og vesturs, þó meira til austurs. Lélegt skyggni takmarkar yfirsýn, einkum vestan megin.

Tilkynnt hefur verið um svokölluð nornahár sem berast nú með vindinum. Þetta eru örfínir glerþræðir sem myndast þegar hraunslettur kólna hratt og teygjast. Þeir eru léttir og geta borist langt. Nornahár geta valdið óþægindum á húð og í augum og fólk er því hvatt til varúðar utandyra í nágrenni gosstöðvanna.

Mikil gasmengun mælist í Reykjanesbæ en fer minnkandi. Íbúum er ráðlagt að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Best er að anda um nef.

Fréttin verður uppfærð þegar ný gögn liggja fyrir. Unnið er að uppfærðu hættumatskorti sem verður birt síðar í dag.

Uppfært kl. 5:10

Hér fyrir neðan er kort sem sýnir áætlaða legu á gossprungunni sem opnaðist kl. 3:54.

Gossprungan lengdist örlítið til norðurs í byrjun en hefur haldist stöðug síðustu klukkustundina.

Áætluð lengd gossprunnar er 700 m.

Kort_Gossprunga_16072025_0500


Uppfært kl. 5:00

Í dag er útlit fyrir suðaustlæga átt, því getur gasmengun frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni borist norðvestur yfir Reykjanesbæ, Voga, Sandgerði og Garð. Þessi mynd sýnir gasdreifingu kl. 12 í dag. Sjá gasdreifingarspá hér.

Gasdreifingarspa_16072025_12klst

Mynd sem sýnir dreifingu gasmengunar frá gosstöðvunum kl. 12 í dag.


Uppfært kl. 4:40

Gossprungan er á bilinu 700-1000 m löng og virðist ekki vera að lengjast.

Hraunflæði virðist vera mest til suðausturs og ógnar ekki neinum innviðum að svo stöddu.

Hér fyrir neðan er skjáskot úr vefmyndavél sem staðsett er rétt norðan við Fagradalsfjall og horfir til suðvesturs.

Eldgos_Vefmyndavel_16072025_0445



Uppfært kl. 4:20

Miðað við GPS mælingar og aflögunarmerki er líklegt að um frekar lítið eldgos sé að ræða. Í þessu samhengi má einnig nefna að áður en eldgos hófst var magn kviku sem hafði safnast undir Svartsengi um 2/3 af magninu sem hljóp þaðan í síðasta gosi.

Gasmengun berst frá gosstöðvunum til norðvesturs í átt að Vogum og Reykjanesbraut.

Miðað við staðsetningu gossprungunnar og stærð gossins er hraunflæði frá gossprungunni ekki að fara að skapa hættu í Grindavík. Náið er fylgst með því hvort hraun geti mögulega farið að renna í átt að Grindavíkurvegi norðan Stóra-Skógfells.


Uppfært kl. 3:55

Eldgos er hafið. Upptökin eru suðaustan við Litla-Skógfell. Það er á svipuðum slóðum og gígurinn sem var lengst virkur í eldgosinu í ágúst.

Uppfært kl. 3:45

Á þessum tímapunkti hefur skjálftavirknin verið mest á svæðinu frá Litla-Skógfelli í norðri að Sundhnúk í suðri. 

Miðað við skjálftavirknina er kvikugangurinn sem hefur myndast því 6.5 km að lengd.  Til samanburðar var kvikugangurinn sem myndaðist í síðasta atburði um 20 km að lengd.

Síðustu 15 mínúturnar hefur skjálftavirknin aukist lítilega og hluti skjálftanna er að færast nær yfirborði. Þetta gætu verið vísbendingar um að kvika sé að reyna að brjótast til yfirborðs.


Uppfært kl. 3:10

Hættumat hefur verið uppfært.

Uppfært kl. 2:50

Síðustu 30 mínúturnar hefur mesta skjálftavirknin verið norður af því svæði þar sem skjálftahrinan hófst.


Uppfært kl. 2:25

Jarðskjálftarnir í hrinunni mælast flestir á um 4-6 km dýpi. Það bendir til þess að kvika er ekki að nálgast yfirborð á þessu stigi.

Á þessum tímapunkti hafa um 300 skjálftar mælst í hrinunni frá miðnætti.


Uppfært kl. 2:11

Samkvæmt skjálftavirkni og GPS mælingum sem sýna aflögun á Sundhnúksgígaröðinni stækkar kvikugangurinn sem er að myndast meira til suðurs en til norðurs.

Uppfært kl. 01:55

Samkvæmt GPS mælingum er aflögun lítil á svæðinu sem bendir til þess að kvikuhlaupið er ekki stórt enn sem komið er. 

Aflögunin er vaxandi og mælist bæði suður og norður af svæðinu þar sem skjálftavirknin hófst.

Uppfært kl. 01:20

Áköf jarðskjálftahrina stendur yfir í Sundhnúksgígaröðinni og benda gögn til þess að kvikuhlaup sé hafið og líklegt er að elgos geti hafist í kjölfarið.

Jarðskjálftahrinan er staðsett á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, á svipuðum slóðum og sést hefur í upphafi kvikuhlaupa í fyrri atburðum.

Fréttin verður uppfærð eftir því sem gögn berast





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica