Jökulhlaup úr Mýrdalsjökli í Leirá syðri og Skálm
Óvíst hversu stórt hlaupið verður
Undanfarna daga hafa rafleiðni og vatnshæð hækkað í Leirá Syðri skv. mælingum nýlegs vöktunarmælis framan við Sandfellsjökul. Hækkuð rafleiðni og vatnshæð sjást einnig í mælingum við brúna á þjóðvegi 1 yfir Skálm, en Leirá Syðri rennur í Skálm ofan vegarins.
Að svo stöddu er um lítið hlaup að ræða en á þessum tímapunkti fer vatnshæð og rafleiðni enn þá smátt vaxandi.
Tilkynningar um brennisteinslykt hafa borist Veðurstofunni. Viljum við því biðja fólk um að sýna aðgát við upptök árinnar þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu. Einnig má þess geta að alltaf skal fara varlega nærri árfarvegum.
Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist áfram náið með þróun mælinga á svæðinu. Frekari upplýsingar verða veittar eftir því sem atburðurinn þróast.
Þróun á vatnshæð efst í Leirá syðri frá 7. júlí til kl. 15.00 í dag, 9. júlí.
Stærð jökulhlaupa úr Mýrdalsjökli í Leirá breytileg
Hlaup sem þessi frá jarðhitasvæðum við jökulbotn eru þekkt í ýmsum ám í kringum Mýrdalsjökul, svo sem í Múlakvísl og Fremri-Emstruá.
Í gegnum tíðina hafa komið misstór hlaup í Leirá. Á árunum 1995 til 2000 komu árleg hlaup í ána auk þess sem lítið hlaup kom í ána árið 2012. Ekkert tjón varð af þessum hlaupum utan þess að framburður þeirra hækkaði aurkeilu Leirár sunnan Sandfells sem leiddi til þess að syðri kvísl Leirár leitaði inn á ný svæði og að lokum yfir í Skálm.
Kort sem sýnir staðsetningu flóðavöktunarmæla í kringum Mýrdalsjökul. Mælar í Leirá syðri (V665) og Skálm (V412) er merktir með appelsínugulum hring.
Í lok júlí í fyrrasumar kom einnig lítið hlaup í Leirá Syðri og Skálm. Í kjölfar þess hlaups kom óvænt umtalsvert hlaup sem flæddi yfir þjóðveg 1 og rauf hann á kafla. Hlaupið átti uppruna sinn í tveimur kötlum í Mýrdalsjökli sunnan við Austmannsbungu. Katlarnir eru myndaðir vegna bráðnunar íss af völdum jarðhita við jökulbotn.
Í kjölfar stóra hlaupsins í lok júlí 2024 hafa fjögur minni hlaup orðið í ánni. Ekkert tjón varð að völdum þeirra. Seinasta slíka hlaup varð í desember síðastliðnum .
„Orsakir stóra hlaupsins í fyrra eru ekki að fullu ljósar“, segir Bergur Einarsson, fagstjóri vatnarannsókna á Veðurstofu Íslands.
„Hafi suða í jarðhitakerfunum við jökulbotn í kjölfar þrýstiléttingar af völdum lítils jökulhlaups valdið stóra hlaupinu í fyrra gæti atburður eins og nú er í gangi leitt til stærra hlaups. Einnig þarf að hafa varann á vegna þess að íssjármælingarnar Eyjólfs Magnússonar hjá Jarðvísindastofnun Háskólans frá því í maí síðastliðnum benda til að mögulega sé umtalsverð vatnsuppsöfnun þegar við jökulbotn“, segir Bergur.