Greinar

Jarðhræringar við Bárðarbungu

Nýjustu upplýsingar vegna jarðhræringanna sem hófust 16. ágúst 2014

18.8.2014

Í þessari grein eru birtar upplýsingar sem tengjast jarðhræringunum við Bárðarbungu, svo og afleiðingar nýafstaðins eldgoss í Holuhrauni, en einungis niðurstöður marsmánaðar 2015. Nýjustu upplýsingarnar eru efst. Með öðrum áþekkum greinum veitir þetta heildaryfirlit um framvindu mála: ágúst, september, október, nóvember, desember, janúar, febrúar og yfirstandandi grein. Einnig má sjá nokkrar ljósmyndir úr vinnuferðum allt frá upphafi umbrotanna.

Dagatal

Í dagatali er flýtileið á málsgreinar í mars. Ekki er lengur sett inn nýtt efni alla daga.

Mars:1-2-3-4-5-6-7-8-9-10-11-12-13-14-15-16

-17-18-19-20-21-22-23-24-25-26-27-28-29-30-31

Víðáttamynd, tekin með gleiðlinsu í átt að eldstöðvunum 3.9.2014. Ljósmynd: Richard Yeo.

Nýjustu upplýsingar

16. mars 2015 - breyting á lokunarsvæðinu við Holuhraun

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, lögreglustjórinn á Austurlandi, lögreglustjórinn á Suðurlandi og Ríkislögreglustjóri hafa ákveðið að gera breytingar á lokunarsvæðinu umhverfis Holuhraun með vísan í 23. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir, sjá fréttatilkynningu frá Samhæfingarstöðinni (pdf 0,6 Mb).

Ákvörðunin er tekin út frá hættumati Veðurstofu Íslands þar sem fjallað er um hættur á svæðinu. Þar leggur Veðurstofa Íslands einnig til að farið verði í mótvægisaðgerðir til að auka öryggi almenningis í nágrenni hins nýja lokunarsvæðis.

Lögreglan í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð mun vera með viðveru á svæðinu til þess að gæta öryggis og vinna náið með vakt Veðurstofunnar. Þá er stefnt að því að koma upp frekari mælibúnaði sem tengdur er vöktunarkerfi Veðurstofunnar og auka þannig vöktun á svæðinu svo gefa megi út viðvaranir verði talin ástæða til.

Vatnajökulsþjóðgarður mun hnitsetja og merkja áhugaverða útsýnisstaði fyrir ferðamenn, þar sem aðgengi er auðvelt og fljótlegt að rýma svæðið ef ástæða verður til.

Nýja lokunarsvæðið nær 20 m út frá norðurjaðri nýja hraunsins, að Dyngjujökli í suðri, að farvegi Jökulsár á Fjöllum í austri og að vestustu kvíslum Jökulsár á Fjöllum í vestri (stækkanlegt kort). Ríkislögreglustjórinn, almannavarnadeild.

12. mars 2015 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,3 Mb) þriðjudaginn 10. mars voru að berast. Fleiri fundir eru ekki skipulagðir; vísindamannaráðið mun hittast þegar þörf krefur. Helstu niðurstöður:

  • Fjallað var um þær hættur sem enn getur stafað af atburðunum í Bárðarbungu og við Holuhraun.
  • Fjölga þarf mælitækjum sem geta numið merki um hættur, og efla vöktun á Veðurstofu Íslands, verði almenningi veittur aðgangur að svæðinu.
  • Farið verður í mótvægisaðgerðir til þess að minnka áhættuna á svæðinu og ákvörðun tekin um frekari opnun í framhaldi af því.
  • Litakóði fyrir flug er gulur fyrir Bárðarbungu, sjá skýringar, en var appelsínugulur fram að goslokum.

9. mars 2015 - lokunum aflétt við Dettifoss

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur tilkynnt að lokunum hafi verið aflétt við Jökulsárgljúfur, norðan þjóðvegar 1. Fólk skuli þó fara með gát og ekki dvelja lengi í gljúfrunum sjálfum, sjá frétt frá 4. mars á vef Almannavarnadeildar RLS.

5. mars 2015 - skýrsla JHÍ af vettvangi í gær

Kulnað
""
Úr Holuhrauni 4. mars 2015. Myndin er tekin fyrir miðju Baugs. Séð er norður eftir gígnum. Hrauntjörnin hefur fallið saman og myndar svartan grófan botn í gígunum. Aðeins ber á blámóðu-augum í botni gígsins. Hægri gígbarmur opnast út í hraunið, rásin er um 50 m breið og 40 metra djúp. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.        Sjá vettvangsskýrslu 4. mars 2015 frá rannsóknarhópi eldfjallafræði og náttúruvár hjá Jarðvísindastofnun.

4. mars 2015 - ljósmyndir af vettvangi eftir goslok

Tveggja daga vettvangsferð var farin 3. mars og 4. mars 2015, einkum með það í huga að mæla gas og gera áætlun um gasmælingar á næstunni, sjá skýrslur (sumt á íslensku, pdf 0,7 Mb) með ljósmyndum.

3. mars 2015 - flugskýrsla frá goslokadegi

Á fimmtudagskvöldið í síðustu viku var farið í eftirlitsflug með TF-LÍF til að staðfesta þær fregnir að enga glóð væri lengur að sjá í Holuhrauni. Flugskýrsla frá 27. febrúar 2015 fylgir (pdf 68 Kb) en ekki reyndist unnt að taka myndir.

Samkvæmt hitamælingum (FLIR JHÍ) var hitinn í börmum gígsins enn talsverður en kaldara á botni gígsins. Gasmælir sýndi mest 0,5 ppm SO2 á flugi en á jörðu niðri, við suðvesturjaðar hraunbreiðunnar, mest 0,4 ppm.

Á norðaustanverðri hraunbreiðunni var enn glóð í gömlum útbrotum; mesti hitinn sem mældist var 560°C. Eftir samanburð við önnur gögn á Veðurstofunni er dregin sú ályktun að gosinu hafi líklega lokið snemma dags, 27. febrúar.

3. mars 2015 12:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Vísindamenn vinna nú að úrvinnslu gagna og athugunum á umbrotasvæðinu til að endurmeta gildandi hættumat. Ákveðið var á fundinum að taka næstu viku í það verkefni og mun Vísindamannaráð almannavarna funda næst þriðjudaginn 10. mars og í framhaldi af því verða ákvarðanir um breytingar á hættumati og lokunarsvæði teknar. Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS pdf 0,4 Mb.

2. mars 2015 - gervitunglamynd

Vatnajökull og hraunið
""
LANDSAT 8 mynd af norðvestanverðum Vatnajökli frá 1. mars 2015. Bárðarbunga neðarlega til vinstri við miðju og Holuhraun ofarlega til hægri. Katlar og dældir á jöklinum sjást afar vel og enn má sjá væga glóð víða í hrauninu þó dauft sé yfir gígunum. Stækkanleg. Jarðvísindastofnun, NASA & USGS. Athugið, að óþjálfuðu auga gæti virst sem svo að hæðir séu dældir og öfugt.

1. mars 2015 - ný staða á umbrotasvæðinu

Eins og fyrr segir, er eldgosið í Holuhrauni nú afstaðið. Enn er fylgst náið með jarðhræringum við Bárðarbungu, svo og þeirri afgösun sem enn á sér stað úr firnastórum hraunflákanum.

28. febrúar 2015 - febrúarmánuður

Upplýsingar frá því í febrúar 2015, um jarðhræringarnar í Bárðarbungu og eldgosið í Holuhrauni, eru í annarri grein, m.a. yfirlýsing um goslok og þá auknu gasmengun sem gæti fylgt í kjölfarið.

Aftur uppAðrir tengdir vefir