Greinar

Jarðhræringar við Bárðarbungu

Nýjustu upplýsingar um jarðhræringarnar sem hófust 16. ágúst 2014

Í þessari grein eru birtar upplýsingar um jarðhræringarnar og eldsumbrotin við Bárðarbungu en einungis niðurstöður janúarmánaðar 2015. Nýjustu upplýsingarnar eru efst. Með öðrum áþekkum greinum veitir þetta heildaryfirlit um framvindu mála: ágúst, september, október, nóvember, desember og yfirstandandi grein. Einnig má sjá nokkrar ljósmyndir úr vinnuferðum allt frá upphafi umbrotanna. Í tengli efst til hægri eru niðurstöður um þykkt og rúmmál hraunsins. Þar er einnig afstöðukort með örnefnum.

Dagatal

Í dagatali er flýtileið á hvern dag janúarmánaðar. Flýtileiðirnar verða virkar eftir því sem líður á.

Jan: 1-2-3-4-5-6-7-8-9-10-11-12-13-14-15-16-17-18-19-20-21-22-23-24-25-26

-27-28-29-30-31 Sjá gervitunglamynd af Íslandi sem sýnir nýja hraunið og Þingvallavatn.

Víðáttamynd, tekin með gleiðlinsu í átt að eldstöðvunum 3.9.2014. Ljósmynd: Richard Yeo.

Nýjustu upplýsingar um eldgosið og jarðhræringarnar

26. janúar 2015 09:45 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Engar stórar breytingar hafa orðið síðasta sólarhringinn. Vel sást til gossins á vefmyndavélum nú í morgun. Stærsti skjálftinn síðan í gærmorgun varð um kvöldmatarleytið í gær, 4,6 að stærð. Bárðarbunguaskjan: Tæplega þrjátíu skjálftar hafa orðið við öskjuna síðan í gærmorgun, þar af tveir á stærðarbilinu fjórir til fimm (4,3 og 4,6) og fjórir á stærðarbilinu þrír til fjórir. Kvikugangurinn: Um tíu skjálftar upp undir 1,5 að stærð hafa mælst þar síðasta sólarhringinn.

25. janúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Síðan í gærmorgun hefur ekki orðið vart við breytingar á virkni í Bárðarbungu og gosstöðvunum í Holuhrauni. Skjálftavirkni er enn viðvarandi og öflug, en hefur þó minnkað síðustu vikur og mánuði. Bárðarbunga: Stærsti jarðskjálftinn í Bárðarbungu var af stærð 4,3 í morgun kl. 10:17 í norðurbrún öskjunnar. Þrír aðrir skjálftar voru af stærð 4 eða stærri, og ellefu voru milli 3 og 4. Alls hafa mælst um 50 skjálftar í og við Bárðarbunguöskjuna. Kvikuæðin: Einungis um 10 skjálftar hafa mælst við kvikuæðina, enginn stærri en 1,5. Önnur svæði: Um 10 skjálftar, allt að 2,5 að stærð, hafa mælst í Tungnafellsjökli. Nær engin virkni er við Öskju eða Herðubreið.

24. janúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Skjálftavirkni og gosvirkni á Bárðarbungusvæðinu og í Holuhrauni er svipuð og undanfarna daga, ekki hefur orðið vart við neitt óvenjulegt síðasta sólarhringinn. Bárðarbunga: Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu var af stærð 4,9 kl. 07:25 í morgun í norðurbrún öskjunnar. Einn annar skjálfti var yfir stærð 4 og 16 milli 3 og 4. Alls hafa mælst um 60 skjálftar við öskjuna síðasta sólarhringinn. Kvikuæðin: Um 15 skjálftar hafa mælst við kvikuæðina, enginn stærri en 1,3. Önnur svæði: Tvær skjálftaþyrpingar mældust í nótt í Tungnafellsjökli (um 15 skjálftar, allir undir stærð 2,5) og suðaustur af Herðubreið (um 10 skjálftar, allir undir stærð 2). Svipuð virkni hefur oft sést undanfarna mánuði.

23. janúar 2015 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,5 Mb).

23. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Ekki hafa sést markverðar breytingar á skjálftavirkni eða gosvirkni síðastliðinn sólarhring. Bárðarbunga: Stærsti jarðskjálftinn, M4,7, varð í nótt kl. 03:07, í norðurbrún öskjunnar. Þetta var eini skjálftinn stærri en 4 síðastliðinn sólarhring. Að auki voru 19 skjálftar mældir yfir stærð 3, en alls hafa mælst um 60 skjálftar. Kvikuæðin: Um 25 skjálftar hafa mælst við kvikuæðina, sá stærsti var 2,1 í nótt kl. 00:31 nálægt gosstöðvunum í Holuhrauni. Flestir skjálftarnir við kvikuæðina eru milli Dyngjujökuls og gosstöðvanna, en nokkrir litlir skjálftar hafa þó mælst nær Bárðarbungu.

22. janúar 2015 09:45 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Almenn umfjöllun: Þó engar markverðar breytingar sjáist frá degi til dags, hvorki í eldvirkninni né skjálftavirkninni, er ljóst að í heildina hefur virknin haldið áfram að dvína hægt undanfarnar vikur. Síðasti jarðskjálftinn sem fór yfir 5 í stærð varð fyrir tveimur vikum. Daglegur fjöldi skjálfta yfir 3, svo og heildarfjöldi skjálfta sem mælist kringum Bárðarbunguöskjuna, er nú lægri en hann hefur verið undanfarna mánuði. Þó ber að taka fram að skjálftavirkni í kvikuganginum helst stöðug með um 15-25 skjálftum á dag, sem reyndar eru allir undir 2 að stærð.

Tilkynning dagsins: Stærstu skjálftarnir í öskjunni frá því í gærmorgun voru u.þ.b. af stærðinni 4,5 og alls urðu fjórir skjálftar yfir M4 og ellefu á bilinu M3-4. Alls mældust þarna um 40 jarðskjálftar. Í kvikuganginum mældust um 20 skjálftar, enginn þeirra yfir 1,2 að stærð.

Eldstöðin í Holuhrauni
""
Syðri endi eldhryggjarins; úr eftirlitsflugi með TF-FMS á vegum Landhelgisgæslunnar 21. janúar 2015. Niðurstöður margvíslegra mælinga úr því í flugi verða birtar næstu daga. Ljósmynd: Morten S. Riishuus.

Að auki hefur Jarðvísindastofnun birt EO-1 gervitunglamynd frá NASA sem er sérstaklega unnin til að kalla fram landslag í hrauninu og sýna virk svæði. Flatarmálið er nú 84,3 km² + 0,4 km² eða samtals 84,7 km². Eina sjáanlega viðbótin frá 18. janúar er við NA jaðarinn en mun víðar má sjá virkni á myndinni.

Handmælar vísindafólks við gosstöðvarnar 21. janúar sýndu SO2 styrkinn 29 ppm og 14 ppm. Það er í samræmi við gasslæðurnar sem sáust úr fluginu og svipar til aðstæðna þann 28. okt. s.l. á SA-landi. Sé miðað við að 1 ppm sé u.þ.b. 3000 µg/m3 þá er um að ræða styrkinn 87.000 µg/m3 og 42.000 µg/m3. Til samanburðar má skoða gildi í töflu Umhverfisstofnunar og Landlæknisembættisins.

21. janúar 2015 09:30 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Allt hefur haldið áfram með svipuðum hætti frá síðastu tilkynningu. Engar markverðar breytingar urðu á jarðskjálftavirkni kringum Bárðarbungu eða kvikuganginn né heldur á eldvirkni í Holuhrauni. Stærsti jarðskjálftinn í Bárðarbunguöskjunni var 4,7 í gærmorgun kl. 10:32 á syðri brún. Fjórir aðrir skjálftar náðu yfir 4 í stærð og átta voru á bilinu 3 – 4. Alls mældust um 40 skjálftar í öskjunni. Um tuttugu skjálftar urðu í kvikuganginum, allir undir 1,5. Lítil virkni kringum Tungnafellsjökull, Öskju og Herðubreið.

20. janúar 2015 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,5 Mb).

20. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um það bil 50 skjálftar hafa mælst á gosstöðvunum undanfarnar 24 klukkustundir. Sá stærsti var 4,3 að stærð í barmi Bárðarbunguöskju klukkan 22:12 í gær; sex voru yfir 4 og níu voru 3–4 að stærð. Fáeinir skjálftar mældust við Tungnafellsjökul, Ösku og Herðubreið.

19. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Litlar breytingar hafa orðið á gosstöðvunum undanfarnar 24 klukkustundir. Um það bil 40 jarðskjálftar hafa mælst við barm Bárðarbunguöskunnar; sá stærsti var 4,4 í gær klukkan 22:27 og fimm aðrir mældust yfir 3 af stærð. Um 15 litlir skjálftar mældust í ganginum, en vegna áhrifa óveðursins á mælitækin verður minnstu skjálftanna síður vart.

Snævi þakið
""
Ísland snævi þakið 18. janúar 2015. Fátt sker sig úr nema nýja hraunið, Þingvallavatn og Lögurinn. MODIS gervitunglamynd frá NASA (stækkanleg). Samkvæmt Jarðvísindastofnun er flatarmálið nú 84,6 km² (84,2 km² + 0,4 km²) sem er meira en flatarmál Þingvallavatns (83,7 km²).

18. janúar 2015 11:30 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá því um hádegi í gær hafa mælst tæplega 60 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn mældist 4,7 að stærð kl. 07:35 í morgun og átti hann upptök við norðurjaðar öskjunnar. Alls mældust 3 jarðskjálftar á stærðarbilinu 4 til 4,7 í Bárðarbungu síðan um hádegi í gær. Um 15 skjálftar hafa verið í kvikuganginum, allir minni en 2 að stærð.

17. janúar 2015 11:30 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá því í gærmorgun hafa mælst um 40 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn þar mældist 4,5 að stærð kl. 17:38 í gær og átti hann upptök við norðurjaðar öskjunnar. Alls mældust 5 jarðskjálftar á stærðarbilinu 4 til 4,5 í Bárðarbungu. Um 15 skjálftar voru í kvikuganginum, allir minni en 2 að stærð. Lítil skjálftavirkni var við Tungnafellsjökul og Herðubreið.

Í morgun (17. jan.) hefur verið í gangi skjálftahrina á Torfajökulssvæðinu, um 2-3 km vestur af
Landmannalaugum. Stærsti skjálftinn sem hefur mælst var 2,5 að stærð kl. 10:28. Tæplega 15 jarðskjálftar hafa mælst í hrinunni. Skjálftarnir eru á litlu dýpi og tengjast líklega jarðhitavirkni á svæðinu.

Áferð og yfirborð
""
EO-1 ALI gervitunglamynd frá NASA 16. janúar 2015 11:08 af nýja hrauninu, unnin á Jarðvísindastofnun. Daufar útlínur hraunjaðarsins á myndinni eru frá 15.1.2015 og sýna hvar ský skyggja á. Stækkanleg.

16. janúar 2015 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,8 Mb).

16. janúar 2015 09:30 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Í dag eru fimm mánuðir frá því jarðhræringarnar hófust í Bárðarbungu. Eldvirkni brast á tveimur vikum síðar.

Frá því í gærmorgun hafa mælst rúmlega 40 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn þar mældist 4,3 að stærð kl. 12:52 í gær (15. jan.) og átti hann upptök við norðurjaðar öskjunnar. Í Bárðarbungu mældust alls 6 jarðskjálftar á stærðarbilinu 4 til 4,3. Um tíu skjálftar urðu í kvikuganginum, allir minni en 2 að stærð. Lítil skjálftavirkni var við Tungnafellsjökul og Herðubreið.

Hraun, hiti og skýjabólstrar
""
EO-1 gervitunglamynd frá NASA að morgni 15. janúar 2015 nær hrauninu vel. Stækkanleg. Sjá einnig enn betri slíka mynd að kvöldi sama dags með uppfærðum útlínum hraunsins. Flatarmálið er nú 84,3 km² (83,9 km² + 0,4 km²). Jarðvísindastofnun.

15. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá því í gærmorgun hafa mælst um 50 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn þar mældist 4,6 að stærð kl. 07:11 í morgun við suðurjaðar öskjunnar. Alls mældust níu jarðskjálftar á stærðarbilinu 4 til 4,6. Um tíu skjálftar voru í kvikuganginum, allir undir 2 að stærð. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust um tíu skjálftar, sá stærsti 2,3 stig um kl. 10 í gærmorgun.


Afstöðukort með örnefnum við gosstöðvarnar norðan Vatnajökuls (stækkanlegt).

14. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá því í gærmorgun hafa mælst tæplega 50 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn þar mældist 4,6 að stærð kl. 17:51 í gær og var hann við norðurjaðar öskjunnar. Annar skjálfti einnig tæplega 4,6 að stærð var við suðurjaðar öskjunnar kl. 15:00 í gær. Í allt mældust 7 skjálftar á stærðarbilinu 4,0 til 4,6. Tæplega 15 skjálftar voru í kvikuganginum, allir undir 2 að stærð. Við Tungnafellsjökul mældust einnig um 15 skjálftar, sá stærsti 3,1 að stærð kl. 13:17 í gær.

13. janúar 2015 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb).

13. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá því í gærmorgun hafa mælst um 50 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn þar mældist 4,5 að stærð kl. 18:30 í gær og var hann við norðurjaðar öskjunnar. Fimm skjálftar voru á stærðarbilinu 4 til 4,5. Tæplega 10 skjálftar voru í kvikuganginum, allir undir 2 að stærð. Fáeinir skjálftar voru við norðanverðan Tungnafellsjökul í nótt, sá stærsti 2,2 að stærð.

12. janúar 2015 09:30 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Vel sást til jarðeldanna í Holuhrauni á vefmyndavélum í morgun. Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá hádegi í gær mældist  4,4 að stærð kl. 00:22 í nótt og átti hann upptök við suðurjaðar öskjunnar. Fimm aðrir skjálftar voru yfir 4 að stærð.  Alls mældist á þriðja tug skjálfta í Bárðarbungu.
Fáeinir skjálftar voru í kvikuganginum og allir minni en 2 stig.

11. janúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 30 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu frá hádegi í gær. Stærsti skjálftinn varð við norðaustanverða Bárðarbunguöskjuna klukkan 18:23 í gær, M4,7 að stærð. Nokkrir aðrir náðu yfir fjórum að stærð. Hátt í tug skjálfta urðu í kvikuganginum allir um og innan við einn að stærð.

Viðbætur á nýju ári
""
Yfirlitskort gert 10. janúar 2015 sem sýnir breytingar á nýju ári. Hraunið er orðið 84,1 km² (83,7 km² + 0,4 km²). Það hefur nú runnið yfir Dyngjufjallaleið og er komið upp á Þorvaldshraun. Stækkanlegt. Jarðvísindastofnun.

10. janúar 2015 - mælitæki bjargað undan hraunstraumnum

Í vettvangsferð var tæki sem mælir brennistein bjargað undan hraunstraumnum.

10. janúar 2015 11:40 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 50 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu á síðasta sólarhring. Stærsti skjáftinn varð í morgun (10. jan.)  kl. 07:10  M4,0 að stærð og er það eini skjálftinn yfir fjórum stigum frá því í gærmorgun. Tæplega tugur skjálfta mældist í kvikuganginum, allir um og innan við eitt stig. Ágætlega sést til gossins á vefmyndavélum og virðist svipaður gangur í því og verið hefur undanfarna daga.

9. janúar 2015 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb).

9. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu á síðasta sólarhring. Um fimm skjálftar eru milli M4 og M5. Stærsti skjálftinn varð klukkan 18:47 í gær (8. janúar) M5,1 að stærð við norðausturbrún Bárðarbunguöskjunnar. Á annan tug skjálfta hafa mælst í ganginum, flestir um og innan við eitt stig. Ágætlega sést til gossins á vefmyndavélum og virðist svipaður gangur í því og verið hefur undanfarið.

8. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Fjórir skjálftar voru yfir M4. Tveir voru M4,2, báðir í nótt. Sá fyrri kl. 02:32 og sá síðari kl. 04:51. Hinir voru M4,0 og M4,1. Fáeinir skjálftar voru í ganginum, allir um og innan við einn að stærð. Ágætlega hefur sést til gossin á vefmyndavélum í morgun og virðist svipaður gangur í því og undanfarið.

Hitamynd sýnir virknina
""
Hitamynd frá aðfaranótt 8. janúar 2015 sýnir allvel hvar helsta virknin er (útlínur frá 5. janúar). Ratsjármynd frá 7. janúar sýnir aukningu á norðurjaðri en einnig nokkra við norðausturenda. Jarðvísindastofnun. Flatarmálið er nú 83,8 km² (83,4 km² + 0,4 km²).

7. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 40 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu frá því í gærmorgun. Nokkrir voru milli M4 og M5 að stærð. Stærsti varð við norðaustanverða öskjuna kl. 13:36 í gær og var hann M4,4. Nokkrir skjálftar hafa mælst í ganginum, allir innan við tvö stig. Það sást til gossins á vefmyndavélum um tíma í nótt og virðist svipaður gangur í því og verið hefur.

6. janúar 2015 - aukning einn dag

Samsett yfirlitsmynd 5. janúar 2015. Ratsjármynd og útlínur hraunsins eru frá því snemma dags en hitamyndin er frá því um kvöldið. Glögglega sést hvað bættist við hraunið þennan dag. Flatarmálið var 83,4 km² (83,0 km² + 0,4 km²) að morgni; viðbótin til kvölds er einkum við vesturjaðarinn og hefur enn ekki verið reiknuð út. Nokkur virkni er við norðausturjaðarinn. Jarðvísindastofnun.

6. janúar 2015 - 11:40 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb).

6. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 30 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu á síðasta sólarhring. Þrír voru milli 4 - 5 að stærð. Stærsti skjálftinn varð við norðaustanverða Bárðarbungu í gærkveldi kl. 21:53, M4,9 að stærð.
Fáeinir skjálftar hafa mælst í kvikuganginum og við Tungnafellsjökul. Allir innan við tvö stig.
Ágætlega sést til gossins á vefmyndavélum og virðist svipaður gangur í því og verið hefur að undanförnu.

5. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Á þriðja tug skjálfta hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhring. Stærsti skjálftinn var kl. 23:29 í gærkveldi og var M4,3 að stærð. Nokkrir smærri skjálftar hafa einnig mælst í kvikuganginum og við Tungnafellsjökul.

Flatarmálið nú yfir 83 km²
""
Yfirlitskort frá 3. janúar, stækkanlegt. Flatarmálið mælist nú 83,1 km² (82,7 km² + 0,4 km²). Þetta byggist á LANDSAT 8 hitamynd sem sýnir allmikla virkni í hrauninu. Virknin hefur færst ögn vestar á norðurjaðrinum og eflist greinilega í eystri hlutanum. Jarðvísindastofnun.

4. janúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Virkni í og við Bárðarbungu er svipuð og verið hefur. Um 45 skjálftar hafa verið sjálfvirkt staðsettir þar síðasta sólarhringinn. Tveir stærri skjálftar mældust á þessu tímabili, kl. 12:01 og kl. 07:49 í morgun, báðir um 4,5 að stærð. Sáralítil virkni hefur verið í Bárðarbungu eftir stóra skjálftann í morgun. Þar í grennd er einnig áframhaldandi smáskjálftavirkni, bæði í Tungnafellsjökli, Herðubreiðartöglum og í norðurhluta kvikugangsins undir Dyngjujökli.

3. janúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Virkni í og við Bárðarbungu er svipuð og verið hefur. Um 50 skjálftar hafa verið sjálfvirkt staðsettir þar síðasta sólarhringinn. Stærsti skjálftinn varð í nótt klukkan 00:32, 4,6 að stærð. Þar í grennd er einnig áframhaldandi smáskjálftavirkni, bæði í Tungnafellsjökli, Herðubreiðartöglum og í norðurhluta kvikugangsins.

2. janúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Virkni í og við Bárðarbungu er svipuð og verið hefur. Rúmlega 40 skjálftar hafa verið sjálfvirkt staðsettir þar síðasta sólarhringinn. Stærsti skjálftinn varð klukkan 14:43 í gær, 4,6 að stærð. Þar í grennd er einnig áframhaldandi smáskjálftavirkni, bæði í Tungnafellsjökli, Herðubreiðartöglum og í norðurhluta kvikugangsins undir Dyngjujökli.

Nákvæm mynd
""
Kort af hrauninu byggt á RADARSAT 2 mynd sem fékkst að morgni 1. janúar 2015. Ekki hafa orðið miklar breytingar á norðausturjaðri síðan 29. desember en nokkrar á norðurjaðri. Flatarmál mælist nú 82,9 km² (82,5 km² + 0,4 km²). Stækkanlegt. Jarðvísindastofnun.

1. janúar 2015 - niðurstöður ratsjármælinga

Á næstsíðasta degi ársins 2014, hinn 30. desember, var flogið með TF-FMS yfir umbrotasvæðið. Jarðvísindastofnun gerði ratsjárhæðarmælingar og hefur sent frá sér bráðabirgðaniðurstöður. Töluverð óvissa er í niðurstöðunum og full úrvinnsla er tímafrek en stóra myndin er þessi:

  • Hraunið hefur þykknað verulega frá í byrjun desember og þá aðallega í austurhlutanum þar sem nýtt hraun rann yfir eldri tungur.
  • Lítil hrauntota mjakast fram með norðanverðri tungunni sem lengst fór fram í september. Hún er komin um 200 m fram fyrir eldri tunguna en fer mjög hægt.
  • Hraunið er að meðaltali 10 m þykkt austast en um miðbikið ~12 m að meðaltali. Mesta rúmmálið er í vestari helmingi hraunsins, þar sem meðalþykktin virðist vera um eða yfir 14 m.
  • Mesta þykkt utan við gígana þar sem mælt var er um 40 metrar, við austurjaðar hrauntjarnarinnar. Bráðabirgðamat á rúmmáli hraunsins nú er 1,1 km³.

Einnig voru mæld tvö snið yfir Bárðarbungu. Sigið heldur áfram með líkum hætti og undanfarið; dýpkun hefur verið nærri 25 cm/dag undanfarinn mánuð. Mesta sigið er nú 59 metrar (frá miðjum ágúst).

Þykktin mæld úr lofti
""
Gosstöðvarnar og hraunelfurin. Ljósmynd: Magnús Tumi Guðmundsson.

1. janúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Jarðskjálftavaktin býður góðan dag og gleðilegt nýtt ár.

Virkni í og við Bárðarbungu er svipuð og verið hefur. Rúmlega 40 skjálftar hafa orðið þar síðasta sólarhringinn. Stærsti skjálftinn varð klukkan 14:40 í gær, 4,4 að stærð. Þar í grennd er einnig áframhaldandi smáskjálftavirkni, bæði í Tungnafellsjökli og við Herðubreiðartögl, og eins nokkrir
í norðurhluta kvikugangsins.

1. janúar 2015

Á nýársdag óskar Veðurstofan landsmönnum öllum gleðilegs árs og þakkar gott samstarf á liðnu ári.

31. desember 2014 - desembermánuður

Upplýsingar frá því í desember 2014, um jarðhræringarnar og eldsumbrotin í Bárðarbungu, eru í annarri grein, m.a. samanburður á flatarmáli nýja hraunsins við Skaftárelda úr Laka árið 1783-84.

Aftur uppAðrir tengdir vefir