Fréttir
Frá undirritun samningsins þann 11. maí í Urriðaholtsskóla.

Einstök veðurstöð rís í Urriðaholti

15.5.2018

Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Garðabær og Urriðaholt ehf. undirrituðu samstarfssamning um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna þann 11. maí. Miðstöðin verður vettvangur langtímavöktunar á veðurfari sem innifelur meðal annars þætti sem skipta sköpum í fráveituhönnun t.d. regn, hita, sólarorku og snjóalög.

Jafnframt var undirritaður þjónustusamningur milli Garðabæjar og Veðurstofu Íslands um rekstur á hátækniveðurstöð sem sett verður upp í Urriðaholti. Stöðin og búnaður henni tengdur mun verða einstök veðurstöð til tilrauna á landsvísu. Þar eru m.a. sérhæfð tæki til mælinga vegna sjálfbærra regnvatnslausna, svo og á úrkomu á einnar mínútu fresti, í fyrsta sinn á Íslandi. 

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, segir það mikilvægt fyrir Veðurstofuna að efla samvinnu við sveitarfélögin í landinu. „Með tilkomu veðurstöðvarinnar í Urriðaholti getum við bætt veðurþjónustu okkar fyrir höfuðborgarsvæðið. Samningurinn um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar er mjög framsækið verkefni og skapar þekkingu sem er mikilvæg á heimsvísu, því vatnsbúskapur og hvernig við högum honum er ein mesta áskorun framtíðarinnar.“

Þörfin fyrir blágrænar regnvatnslausnir eykst hratt

Blágrænum regnvatnslausnunum er beitt til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap. Markmiðið er margþætt og felur m.a. í sér auðveldara og ódýrara viðhald fráveitukerfa, lengri líftíma þeirra og síðast en ekki síst ávinninginn sem felst í að hleypa vatni og gæðum þess aftur inn í hið byggða umhverfi á öruggan og markvissan hátt.

Þörfin fyrir blágrænar regnvatnslausnir, hérlendis jafnt sem erlendis, eykst hratt m.a. vegna áhrifa hnattrænnar hlýnunar. Þær auka seiglu bæja til að takast á við loftslagsbreytingar, hreinsa vötn, ár og læki, grænka borgir og auka líffræðilegan fjölbreytileika þeirra. Síðast en ekki síst þá sýnir reynslan að þær eru hagkvæmari en þær hefðbundnu.

Hvers vegna í Urriðaholti?

Urriðaholt er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða hverfið á Íslandi og fyrsta hverfið þar sem blágrænar regnvatnslausnir voru innleiddar sem aðallausn á ofanvatni til verndar Urriðavatni. Það er einnig fyrsta hverfið á heimsvísu þar sem blágrænar regnvatnslausnir hafa verið innleiddar á jafn norðlægri breiddargráðu og í jafn miklum landhalla. Hverfið þykir eftirbreytnivert, alþjóðlegt dæmi um farsæla innleiðingu þeirra og hefur þegar vakið athygli vegna þessa. Því þótti kjörið að nýta Urriðaholtið sem rannsóknarvettvang fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum og miðla niðurstöðum úr þeirri vinnu jafnt innan- sem utanlands.

Hér má lesa nánar um blágrænar regnvatnslausnir í annari frétt á vefnum okkar.

Undirritun-i-Urridaholti-blagraenar-rannsoknir-1119(Frá vinstri) Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Ólafur Helgi Ólafsson, stjórnarformaður Urriðaholts ehf.

Undirritun-i-Urridaholti-blagraenar-rannsoknir-1125

Jafnframt var undirritaður þjónustusamningur milli Garðabæjar og Veðurstofu Íslands um rekstur á hátækniveðurstöð sem sett verður upp í Urriðaholti. (Frá vinstri) Óðinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri Athugana- og tæknisviðs Veðurstofu Íslands, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica