Fréttir
snæviþakinn runni
Í Heiðmörk að kvöldlagi 19. desember 2011.

Tíðarfar í desember 2011

Stutt yfirlit

2.1.2012

Óvenjukalt var framan af mánuðinum en síðari hlutinn var nærri meðallagi hvað hita áhrærir. Snjór var þaulsetinn á jörðu um mestallt land og mánuðurinn í hópi allra snjóþyngstu desembermánaða um landið suðvestanvert. Slæma hálku gerði í blotum síðari hluta mánaðarins og víða var freði á jörð í lok hans.

Hiti

Kalt var í mánuðinum. Meðalhiti í Reykjavík var -2,0 stig og er það 1,7 stigi undir meðallagi. Ekki hefur verið jafnkalt í desember í Reykjavík síðan 1981. Á Akureyri var meðalhitinn -4,1 stig og er það 2,2 stigum neðan meðallags. Þetta er kaldasti desember á Akureyri síðan 1985.

Kaldast að tiltölu var inn til landsins en vægara við sjávarsíðuna. Yfirlit um meðalhita og vik á fleiri stöðvum er í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík -2,0 -1,8 123 141
Stykkishólmur -2,0 -1,2 133 167
Bolungarvík -2,3 -1,3 100 114
Akureyri -4,1 -2,2 117 131
Egilsstaðir -3,9 -1,7 50 57
Dalatangi -0,4 -0,9 63 74
Teigarhorn -1,3 -1,2 118 139
Höfn í Hornafirði
Kirkjubæjarklaustur -2,5 -2,1 84 86
Árnes -4,4 0,0
Stórhöfði 0,1 -1,3 116 135
Hveravellir  -8,5 -2,2 43 47

Hæstur varð meðalhiti í mánuðinum í Surtsey, 1,3 stig, en lægstur í Sandbúðum -10,4 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var í Möðrudal og í Svartárkoti, -7,8 stig á báðum stöðvum. Hæsti hiti í mánuðinum mældist 13,2 stig á Dalatanga þann 22. Þann sama dag og stað mældist hæsti hiti mánaðarins á mannaðri stöð, 12,0 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist við Upptyppinga þann 8., -27,8 stig. Lægsti hiti í byggð mældist við Mývatn þann 6., - 27,3 stig. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafjarðarsveit þann 6., -24,1 stig.

Fjögur ný dægurmet lágmarks voru sett fyrir landið allt í kuldanum snemma í mánuðinum. Þann fjórða fór frost í -24,4 stig á Brúarjökli og daginn eftir í -25,8 stig á sama stað; eldri met voru frá 1936 og 1999. Þann 6. mældist frostið við Mývatn -27,3 stig og þann 7. var nýtt dægurmet einnig slegið við Upptyppinga þegar frostið fór í -27,0 stig. Eldri met þessara beggja daga voru nýleg.

Úrkoma

Sums staðar um landið norðvestanvert var mjög þurrt framan af mánuðinum en víðast hvar virðist úrkoma hafa verið í kringum meðallag mánuðinn í heild. Úrkoma í Reykjavík mældist 78,4 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 50 mm og er það í rétt tæpu meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var úrkoma í meðallagi, en um 18% umfram það í Stykkishólmi.

Snjóalög

Óvenjusnjóþungt var í mánuðinum, sérstaklega var snjólagið óvenjulegt um landið sunnanvert. Í Reykjavík voru 29 dagar alhvítir og tveir töldust flekkóttir en enginn alauður, snjólagið varð því 97%. Að meðaltali eru 11 alhvítir dagar í desember í Reykjavík. Frá því að samfelldar athuganir á snjóhulu hófust í Reykjavík 1921 hafa mest orðið 25 alhvítir dagar í desember. Vitað er að í desember 1893 voru 27 alhvítir dagar í höfðuborginnni.

Að morgni þess 29 mældist snjódýpt í Reykjavík 33 cm og hefur þar aldrei mælst meiri í desember.

Á Akureyri var alhvítt allan mánuðinn, það gerðist síðast í desember á Akureyri 1999. Að meðaltali eru alhvítir dagar 22 í desember á Akureyri.

Vindhraði

Vindhraði var 0,9 m/s undir meðallagi. Mánuðurinn var illviðravægur miðað við árstíma.

Sólskinsstundir

Í Reykjavík mældist 13,1 sólskinsstund í desember og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist sólskin í 40 mínútur og er það í meðallagi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 989,9 hPa og er það 11,2 hPa undir meðallagi. Þetta er í lægra lagi, en meðalloftþrýstingur í desember hefur þó oft verið svipaður eða lægri, síðast 2006.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist í Bolungarvík þann 12. eða 1018,8 hPa. Lægstur mældist þrýstingurinn á Eyrarbakka á aðfangadag, 948,4 hPa.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica