Fréttir
sólsetur
Sólsetur í Reykjavík 14. júlí 2012.

Tíðarfar í júlí 2012

Stutt yfirlit

1.8.2012

Júlímánuður var mjög hlýr um landið suðvestan- og vestanvert og hiti var yfir meðallagi um land allt. Að tiltölu var kaldast austanlands. Úrkoma var nær allstaðar undir meðallagi en þó var ekki nærri því eins þurrt og í júní. Sólskinsstundir voru óvenjumargar norðanlands og vel yfir meðallagi syðra. Hægviðrasamt var í mánuðinum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 12,5 stig, 1,9 stigi ofan meðallags og er þetta tíundi hlýjasti júlímánuður sem vitað er um i Reykjavík (tillit er tekið til flutninga stöðvarinnar um bæinn). Júlí 2010 var hlýrri heldur en júlí nú. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,8 stig og er það 1,9 stigum yfir meðallagi. Að tiltölu var nokkuð kaldara um landið austanvert. Á Akureyri var meðalhitinn 11,7 stig, eða 1,2 stigum yfir meðallagi, og á Egilsstöðum var hiti í meðallagi. Þetta er hlýjasti júlímánuður síðan mælingar hófust á Stórhöfða í Vestmannaeyjum haustið 1921. Áður var mælt í kaupstaðnum og þar varð ámóta hlýtt í júlí 1880 og nú – en hafa verður í huga að mæliaðstæður eru nokkuð aðrar. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu. Þar má einnig sjá hvar mánuðurinn raðast í meðalhitaröð, frá þeim hlýjasta talið.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 12,5 1,9 10 142
Stykkishólmur 11,8 1,9 7 167
Bolungarvík 11,1 2,1 10 115
Akureyri 11,7 1,2 35 til 36 131
Egilsstaðir 10,3 0,0 31 57
Dalatangi 8,6 0,6 26 til 27 73
Teigarhorn 9,1 0,4 54 til 55 140
Höfn í Hornaf. 10,8
Kirkjubæjarklaustur 12,7 1,5 6 86
Stórhöfði 11,9 2,3 1 til 2 135
Árnes 12,5 1,7 17 til 18 [131]
Hveravellir  8,7 1,7 11 47


Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Skarðsfjöruvita, 13,1 stig, og 12,8 stig í Surtsey. Lægstur var meðalhitinn á Brúarjökli, 3,3 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur í Seley, 7,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Stjórnarsandi á Kirkjubæjarklaustri þann 8., 24,8 stig. Sama dag mældist hæsti hiti á mannaðri stöð í mánuðinum 24,0 stig. Það var einnig á Kirkjubæjarklaustri. Hiti komst í 20 stig nítján daga í mánuðinum.

Lægstur mældist hitinn á Gagnheiði þann 1., -3,5 stig. Í byggð mældist hitinn lægstur -2,4 stig í Fáskrúðsfirði þann 1. Sama dag mældist lágmarkshiti -0,7 stig á Torfum í Eyjafirði. Var það lægsta lágmark á mannaðri stöð í mánuðinum. Hiti fór niður fyrir frostmark á landinu 14 daga mánaðarins og í byggð mældist frost 8 daga í mánuðinum.

Tvö landsdægurmet féllu í mánuðinum. Þann 1. mældist frost -3,5 stig á Gagnheiði – eldra met var -3,0 stig sett á Staðarhóli í Aðaldal 2001. Þ. 10. mældist frostið -2,8 stig á Gagnheiði – eldra met var sett á Vöglum í Fnjóskadal 1963.

Úrkoma

Fremur þurrt var á landinu og úrkoma alls staðar minni en í meðalári. Ekki var þó jafnþurrt og verið hefur mánuðina á undan. Úrkoma mældist 35,0 mm í Reykjavík og er það um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman í júlí 25,4 mm og er það um 77 prósent meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 59,0 mm. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var heildarúrkoma mánaðarins 39,7 mm sem er 42 prósent meðalúrkomu.

Sólskinsstundir

Sólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 219,7 og er það 48 stundum umfram meðallag. Þetta er svipað og í júlí 2010 en nokkru minna heldur en í júlí 2009. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 237,4. Þetta er nærri því jafnmikið og mest hefur mælst þar í júlí áður, en í sama mánuði 1929 skein sól í 238,6 stundir. 

Í Reykjavík eru sólskinsstundirnar síðustu þrjá mánuði nú orðnar 836,6 og hafa aldrei orðið fleiri í þessum sömu mánuðum ársins. Sól hefur skinið í samtals 783 klukkustundir síðustu þrjá mánuði á Akureyri (maí til júlí) og er það nýtt met í þessum mánuðum.

Loftþrýstingur og vindhraði

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,5 hPa og er það 2,4 hPa ofan við meðallag.

Loftþrýstingur mældist mestur 1029,0 hPa á Keflavíkurflugvelli þann 6., en lægstur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 22, 972,8 hPa. Þetta er lægri þrýstingur en áður hefur mælst hér á landi í júlímánuði. Nánar er um metið fjallað í sérstakri frétt.

Hægviðrasamt var í mánuðinum. Meðalvindhraði var um 0,5 m/s undir meðallagi, svipað og varð síðast 2003.

Esja hulin skýjum hinn 23. júlí 2012. kl. 20.59. Ljósmynd: Birta Líf Kristinsdóttir.

Skýjahula á Esju

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Hlýtt hefur verið á landinu það sem af er ári og er tímabilið í hópi þeirra allra hlýjustu sem vitað er um hér á landi. Í Reykjavík, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum hafa aðeins fjögur tímabil verið hlýrri en nú – miðað við sjö fyrstu mánuðina, sex ár hafa verið hlýrri á Akureyri en 14 á Teigarhorni. Tafla sýnir hlýjustu tímabilin á hverjum stað.

röð Rvík Sth Ak Tgh Vm
1 1964 1964 1964 1929 1964
2 1929 1929 2003 1972 1929
3 2003 2003 1929 1974 2003
4 2010 1847 1974 1964 2010
5 2012 2012 1933 2003 2012
6 2004 2010 2004 1926 2004
7 1974 1880 2012 2004 1946

Þrátt fyrir þurrkana í vor og framan af sumri er úrkoma enn yfir meðallagi á landinu miðað við fyrstu sjö mánuði ársins því óvenju úrkomusamt var fyrstu mánuðina.

Sólskinsstundir hafa verið óvenjumargar í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni verið fleiri fyrstu sjö mánuði ársins. Það var 1924. Sólskinsstundir fyrstu sjö mánuða ársins hafa tvisvar að auki verið nánast jafnmargar og nú. Það var 2007 og 1928. Tölurnar frá Akureyri eru enn óvenjulegri því sólskinsstundir þar hafa aldrei verið fleiri fyrstu sjö mánuði ársins – og munar miklu, eða um hundrað stundum, umfram næsthæsta gildið (2000). Sólskinsstundir það sem af er árinu 2012 eru nú orðnar jafnmargar og var á heilu ári að meðaltali á árunum 1961 til 1990.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica