Spáforsíða

Stuttar skýringar

Trausti Jónsson 17.3.2009

Litlu kortin

Litlu kortin sýna vind-, hita og úrkomuspár í smækkaðri mynd. Mun stærri mynd birtist sé stutt á kortin. Mælt er með því í flestum tilvikum. Tímasleðinn undir litlu kortunum er virkur og með því að hreyfa hann til, annaðhvort með músinni eða örvalyklunum, má fá mjög gróft yfirlit um veðurlag spátímans. Munið að beri textaspá og kortum ekki saman gildir textaspáin.

Nánar má lesa um gerð tölvuspánna í fróðleiksgrein.

Vindakort

Vindakortin sýna ætíð 10-mínútna meðalvindhraða, en ekki vindhviður. Þær eru oftast um 20% sterkari og við fjöll getur munurinn á meðalvindi og hviðu orðið meiri en tvöfaldur.

Litir vindakortanna eru þannig valdir að:

  • Grænir tónar sýna hægan vind að mestu, 10-mínútna meðalvindhraði er 8 m/s eða minni á þeim svæðum. Það er í flestum tilvikum hættulítill vindur eða hættulaus. Munið þó að snöggar, litlar vindhviður geta valdið óhöppum.
  • Bláir litatónar tákna vind á bilinu 8 til 16 m/s. Hér er oft hætta á ferð fyrir litla báta á vötnum og sjó, alda kreppist og snöggar, kraftmeiri vindhviður ganga yfir. Sérstakrar aðgátar er þörf séu hjólhýsi eða aftanívagnar með í för í greiðum akstri á vegum úti. Óþægindi geta orðið við málningarvinnu eða flutninga á lausum hlutum.
  • Fjólubláir tónar tákna vind á bilinu 16 til 24 m/s. Flestar athafnir utanhúss eru erfiðar. Hætta er á ferð sé lausasnjór á jörðu. Sérstakrar aðgæslu er þörf. Skjólklæðnaður er lífsnauðsynlegur sé dvalið í lengri tíma utandyra.
  • Rauðir litatónar tákna að spáð sé vindhraða yfir 24 m/s. Þetta er hættulegur vindhraði, lausir hlutir fjúka og geta valdið tjóni. Nálgist meðalvindhraði 30 m/s fer foktjón ört vaxandi. Við slíkar aðstæður ætti enginn að vera utandyra að nauðsynjalausu.

Hitakort

Litlu hitakortin á forsíðunni sýna aðallega hæð landsins yfir sjó í grófum dráttum. Þó má nota breytingar á litum frá degi til dags til að sjá í fljótu bragði hvort gert sé ráð fyrir hlýnandi eða kólnandi veðri. Mælt er með nánari skoðun stærri korta.

Úrkomukort

Á litlu úrkomukortunum má sjá hreyfingar helstu úrkomusvæða frá degi til dags. Athugið að ákefðin er miðuð við klukkustundarúrkomu fyrstu tvo sólarhringana eða svo, en síðan miðast hún við þrjár klukkustundir.

Á stóru úrkomukortunum má einnig sjá bæði jafnþrýstilínur og vindörvar.

Jafnþrýstilínurnar eru dregnar í gegnum staði á kortinu þar sem þrýstingur við sjávarmál er sá sami. Kemur þá fram þrýstisvið, eins konar landslag loftþrýstingsins. Því þéttari sem línurnar eru þeim mun brattara er þrýstisviðið. Línurnar á kortinu eru dregnar með 2 hPa bili. Þrýstisviðið er oft nokkuð óreglulegt og miklar bylgjur eða jafnvel lokaðir hringir sjást á kortinu. Sé sviðið flatt má jafnvel sjá fjölda lítilla hringja og er þá ekki gott að segja hvort þrýstingur í hringjunum er lægri (lægð) eða hærri (hæð) heldur en umhverfis. Merking með viðeigandi táknum (L eða H) verður þá meira truflandi en upplýsandi, þeim er því langoftast sleppt.

Vindörvarnar sýna bæði vindstefnu (langbönd) og vindhraða (skammbönd) nærri yfirborði jarðar. Hér er um að ræða aðra framsetningu sömu upplýsinga og eru á vindakortunum. Langbandið liggur í stefnu vindsins, en skammböndin frá langbandinu í átt til lægri þrýstings. Í vestlægum áttum vísa skammböndin upp á við, en niður í austlægum áttum. Skammböndin eru bæði heil og hálf, heilt band táknar vindhraðann 5 m/s, hálft skammband táknar 2,5 m/s. Oddafáni táknar 25 m/s. Sé vindhraði í spánni 1 m/s eða minna, birtist lítill hringur í stað örvarinnar. Veðurvindáttir eru skýrðar nánar í sérstökum fróðleikspistli. Hvert heilt skammband er nærri því að tákna 2 vindstig og hálft táknar 1 vindstig. Ör með þremur heilum skammböndum og einu hálfu táknar 17,5 m/s eða 7 vindstig. Um vindmælingar og vindstig má lesa í fróðleikspistlunum Veðurvindáttir og Nöfn vindstiga og greining veðurhæðar.

Staðaspár

Staðaspár eru gerðar fyrir margar veðurathugunarstöðvar, þó ekki nærri allar. Staðaspár á forsíðu flettast með sömu stiku og veðurþáttaspárnar ofan við. Sé stutt á staðaspá birtist kort af viðkomandi spásvæði og staðaspá fyrir næstu fimm daga þar neðan við. Á kortinu eru staðaspár fyrir fleiri stöðvar. Nánari leiðbeiningar með staðaspám má lesa í annarri grein.

Til baka


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica