Íslensk eldfjöll

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi

Magni rúmum tveimur árum síðar - skráð 28.08.2012

Gígarnir tveir sem mynduðust í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi vorið 2010 hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þessi ljósmynd er tekin tveimur og hálfu ári eftir goslok.

Ferðamenn á Magna
aðalgígurinn er rauðleitur
Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi 20. mars 2010 og lauk 12. apríl sama ár. Aðalgígurinn er Magni og ferðamenn klífa hann gjarnan. Myndin er tekin 26. ágúst 2012. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Magni og Móði í ágúst - skráð 7.10.2010

Eins og alkunna er flutti eldvirknin sig frá Fimmvörðuhálsi yfir í toppgíg Eyjafjallajökuls um miðjan apríl. Hér er hins vegar ljósmynd síðan í ágúst af gígunum tveimur sem mynduðust við eldgosið á Fimmvörðuhálsi.

Hraunmyndanir við gíga
hraunmyndanir við gíga
Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi 20. mars 2010 og lauk 12. apríl. Hér er aðalgígurinn, Magni, fremst en aftar er minni gígurinn, Móði. Sér í Útigönguhöfða aftar og til hægri. Myndin er tekin að morgni 10. ágúst 2010. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson í Forsæti.

Önnur eldsumbrot vestar - skráð 14.04.2010 kl. 09:15

Jarðskjálfti, 2,5 á stærð og á 6-7 km dýpi, mældist rétt fyrir kl. 23 í gærkvöldi í Eyjafjallajökli. Í framhaldinu fjölgaði skjálftum mjög mikið og urðu þeir mun grynnri, á innan við 2 km dýpi.

Smáskjálftar komu fram á mínútufresti fram til kl. 01 eftir miðnætti. Upptökin voru í suðvesturhluta Eyjafjallajökuls, við Fellshaus.

Rétt fyrir kl. 7 í morgun fór vatn við Gígjökul að vaxa mjög hratt og hefur það runnið í Markarfljót. Það bendir til að eldgos sé undir toppgíg Eyjafjallajökuls. Ekkert vatn hefur runnið suður af jöklinum.

Nánar verður fjallað um þessa virkni í annarri grein næstu daga.

Eldgosi lokið? - skráð 12.04.2010 kl. 08:05

Klukkan 7:34 í morgun varð jarðskjálfti, 3,2 að stærð, undir norðaustanverðum Eyjafjallajökli.

Órói hefur farið stöðugt minnkandi undanfarna sólarhringa og er nú svipaður og hann var klukkutíma áður en gosið hófst.

Á föstudag og laugardag komu fram breytingar á GPS-stöðvum Jarðvísindastofnunar Háskólans sem talið er að bendi til minnkandi spennu.

Eldgosið aðfaranótt 8. apríl
Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi aðfaranótt 8. apríl, séð frá Útigönguhöfða. Ljósmynd: Helgi Borg Jóhannsson.

Vægir skjálftar - skráð 09.04.2010 kl. 15:15

Í nótt urðu tveir jarðskjálftar við Goðabungu og einn undir austanverðum Eyjafjallajökli, allir rúmlega 2 að stærð. Við Goðabungu verða oft jarðskjálftar sem eru mjög ólíkir flestum öðrum jarðskjálftum sem mælast á Íslandi. Upptök þessara skjálfta eru mjög grunn, hreyfingin í þeim er mjög hæg og byrjunin ógreinileg. Því er erfitt að staðsetja þá nákvæmlega. Svipaðir jarðskjálftar eru þekktir erlendis, þar sem þeir tengjast oftast eldfjöllum eða jarðhita. Þessi virkni við Goðabungu er mjög árstíðabundin og langmest á haustin.

Í fyrradag, 7. apríl, gerði Jarðvísindastofnun Háskólans mælingar við gosstöðvarnar sem sýna vel flatarmál og rúmmál gosefna, svo og hæð gosstöðvanna. Nánara yfirlit um þetta eftir Freystein Sigmundsson, Magnús Tuma Guðmundsson og Eyjólf Magnússon er að finna á vefsíðu stofnunarinnar ásamt skýringarmyndum (pdf 1,1 Mb) en samantekt hljóðar svo:

Flatarmál hrauna er nú um 1,3 ferkílómetri, meðalþykkt um 10-20 metrar og áætlað rúmmál gosefna um 22-24 milljón rúmmetrar. Hraunrennsli síðan gos hófst hefur samkvæmt því verið að meðaltali um 15 rúmmetrar á sekúndu sem svarar til þrefalds meðalrennslis í Elliðaánum. Fjallið sem byggst hefur upp er 82 metrum yfir upphaflegri hæð lands á gosstaðnum og hæsti hnjúkur þess stendur í 1067 metrum yfir sjávarmáli.

Einnig má sjá uppfært kort og myndaröð af útbreiðslu hraunsins á vef Jarðvísindastofnunar (pdf 1,4 og 2,5 Mb).

Skoða má gervihnattamynd (IKONOS) af eldstöðvunum síðan 31. mars. Greinihæfnin er 1 metri þannig að slóðir og hjólför eru vel sýnileg en þó háttar svo til að eldgosið sést ekki vel.

Vægar breytingar - skráð 08.04.2010 kl. 10:15

Í gær hætti strókavirkni í gígnum sem gosið hefur í frá upphafi. Gos heldur áfram í vestari gígunum, sem mynduðust að kvöldi 31. mars.

Um níuleytið í gærkvöldi sáust gufustrókar vestan gosstöðvanna á vefmyndavélum. Klukkan 22:20 jókst vatnshæð skyndilega í Hvanná og hitastig hækkaði. Vatnsborðið lækkaði strax aftur.

Rennsli í Hvanná
línurit
Línuritið sýnir breytingar á vatnshæð og vatnshita í Hvanná við Mýrdalsjökul undanfarnar tvær vikur. Vægur toppur varð í gærkvöldi.

Veðurspá fyrir svæðið hljóðar svo: Suðlæg átt, 5-10 m/s, skýjað og stöku él. Vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa í nótt, 18-23 m/s og slydda eða rigning á morgun. Hiti nálægt frostmarki, en 0 til 5 stig á morgun.

Jarðskjálfti í gær - skráð 07.04.2010 kl. 08:40

Klukkan 15:32 í gær varð grunnur jarðskjálfti, 3,7 að stærð, undir austanverðum Eyjafjallajökli. Þetta er á þeim stað þar sem flestir jarðskjálftar hafa orðið undanfarna mánuði.

Samkvæmt upptakagreiningu varð skjálftinn í aðfærsluæð eldgossins á Fimmvörðuhálsi þar sem hún beygir í austur að gosstöðvunum (sjá grein og skýringarmynd frá 29. mars um leið kvikunnar upp á yfirborð neðar í þessu skjali). Skjálftinn fannst m.a. undir Eyjafjöllum, í Fljótshlíð, á Hvolsvelli og í Gunnarsholti. Þetta er stærsti skjálftinn í þeirri hrinu sem hefur fylgt eldgosinu og hófst fyrir réttu ári með skjálftum sem urðu á um 23-5 km dýpi, nærri mótum möttuls og skorpu.

Ljósmyndir frá eldstöðvunum má meðal annars finna í fróðleiksgreinum undir Eldvirkni, sjá Eftirlitsflug LHG og Flogið yfir Eyjafjallajökul.

Litlar breytingar - skráð 05.04.2010 kl. 11:30

Í gærkvöldi jókst vatnshæð aftur í Hvanná, tímabundið, eins og meðfylgjandi línurit sýnir. Seinni toppurinn kom milli kl. sjö og átta en eftir það varð vatnsmagn í ánni lítið.

Vatnsrennsli í Hvanná
línurit - toppar til hægri
Vatnshæð í Hvanná jókst tvisvar í gær en lækkaði síðan mikið.

Fjórir eða fimm litlir jarðskjálftar urðu upp úr miðnætti undir austurhluta Eyjafjallajökuls, mest ríflega 2 að stærð. Órói er óbreyttur ásamt stöku hviðum vegna gufusprenginga.

Slæmt veður hefur verið á svæðinu nú í morgun; hvasst, lítið skyggni og ekkert ferðaveður. Veðurspá, gerð á hádegi fyrir Fimmvörðuháls, hljóðar svo: Norðaustan og síðar norðan 15-23 m/s og snjókoma með köflum og skafrenningur. Heldur hægari norðvestanátt á morgun og él. Frost 1 til 6 stig.

Eftirfarandi myndir voru hins vegar teknar í góðu veðri fyrir nokkrum dögum..

Efst í Hvannárgili 1. apríl 2010
hraunbrún, gufustrókar uppi á sléttunni
Þessi mynd er tekin á gossvæðinu Fimmvörðuhálsi á skírdag, 1. apríl 2010. Þarna sést brún hraunsléttunnar og efsti hluti Hvannárgils. Miklar fannir sýna að af nógu var að taka til senda bræðsluvatn niður hlíðarnar, meðal annars í Hvanná þremur dögum síðar. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.
Gufubólstrar 1. apríl 2010
tveir stórir gufubólstrar
Mynd tekin úr vestri í átt að hraunstraumnum á Fimmvörðuhálsi þann 1. apríl 2010. Tveir stórir gufubólstrar og fannir í forgrunni. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.


Enn óbreytt ástand - skráð 04.04.2010 páskadag kl. 12:00

Órói á jarðskjálftamælum er af svipuðum styrk og síðustu daga og ennþá koma fram hviður vegna gufusprenginga. Um tugur jarðskjálfta mældist undir Eyjafjallajökli í gær og allir minni en 2 að stærð. Frá því að nýja gossprungan myndaðist hefur að jafnaði verið um tugur jarðskjálfta á dag en áður var fjöldi þeirra á annan og þriðja tug.

Í morgun kom vatnsgusa í Hvanná, næsta víst vegna snjóbráðar þegar hraunstraumur fann nýja fönn, líklega í vestari drögum Hvannárgils. Á meðfylgjandi línuriti sjást breytingar á vatnshæð og tímasetning toppsins.

Vatnsrennsli í Hvanná
línurit - toppur til hægri
Vatnshæð í Hvanná jókst skamma hríð í morgun vegna snjóbráðar.

Óbreytt ástand frá því í gær - skráð 03.04.2010 kl. 10:40

Órói hefur verið óbreyttur en inn á milli hafa komið hviður. Líklega stafa þær af því að hraunið kemst enn í tæri við snjó og við það verða gufusprengingar.

Fáeinir jarðskjálftar hafa orðið undir austurhluta Eyjafjallajökuls en allir innan við 2 að stærð.

GPS-mælar á svæðinu sýna litlar breytingar.

Skjálftavirkni síðasta sólarhring - skráð 02.04.2010 kl. 11:25

Órói á skjálftamælum hefur verið nokkuð stöðugur síðasta sólarhring. Þó hafa komið hviður sem líklega má rekja til gufusprenginga. Litlar breytingar hafa mælst á GPS-mælistöðvunum.

Kl. 10:19 í morgun mældist skjálfti innst í Þórsmörk, við jaðar Krossárjökuls. Skjálftinn var 2,8 að stærð og grunnur. Líklega má rekja þennan skjálfta til breytinga á spennu á svæðinu vegna gossins. Í nótt mældust fáeinir skjálftar undir Eyjafjallajökli.

Upp úr kl. 3 í gær mældist skjálfti, 2,9 að stærð, undir austuröxl Eyjafjallajökuls og í kjölfarið fylgdu 5 skjálftar á sömu slóðum, allir undir 1,7 að stærð.

Fólki sem ætlar sér í skoðunarferð á hálsinn eða á Morinsheiði er bent á að fylgjast vel með veðurspám fyrir Fimmvörðuháls.

Hraunfoss í Hrunagili
Hraunfoss í Hrunagili
Vatns- og hraunfoss í Hrunagili. Myndin er tekin 1. apríl austan við gilið. Ljósmynd: Steinunn S. Jakobsdóttir.

Ný gossprunga - skráð 01.04.2010 kl. 10:00

Ný gossprunga myndaðist í gærkvöldi um klukkan 19. Hún er, samkvæmt sjónarvottum, um 300 metra löng og liggur norðvestur frá eldri gosstöðinni. Hraun rennur frá henni út í Hvannárgilið.

Engar breytingar komu fram í óróa á skjálftamælum og ekki mældust neinir jarðskjálftar við
þennan atburð. Í gærkvöldi hafði enginn jarðskjálfti mælst undir eða við Eyjafjallajökul síðan klukkan 11:44 í gærmorgun en frá miðnætti í fyrrakvöld og fram að þeim tíma mældust 10 jarðskjálftar undir jöklinum sem allir voru minni en 2 að stærð. Seint í gærkvöldi mældist einn skjálfti á svæðinu og tveir upp úr klukkan 6 í morgun, þeir voru einnig minni en 2.

Óróinn á skjálftamælum hefur verið svipaður og síðustu daga, einnig sýna GPS-mælar óbreytt ástand.

Ný mynd frá gosstöðvunum - skráð 31.03.2010 kl. 16:00

Loftmynd 31. mars 2010 kl. 11:45
Hraun á Fimmvörðuhálsi
Hér má sjá hraunið renna niður í Hrunagil (til vinstri) og eru miklir gufubólstrar frá því. Fjær sést hraunstraumur í Hvannárgil. Neðarlega til hægri sést í Morinsheiði og Heljarkambur er á milli giljanna. Göngufólk er varað við eiturgufum úr hrauninu. Hætta er á vindkælingu og varasamt getur verið að taka af sér vettlinga, jafnvel stutta stund. Ljósmynd: Matthew J. Roberts (flug með Landhelgisgæslunni).

Litlar breytingar - skráð 31.03.2010 kl. 13:00

Litlar breytingar hafa verið á óróanum frá gærdeginum.

Um tugur jarðskjálfta mældist í gær á grunnu dýpi undir austurhluta Eyjafjallajökuls og fáeinir síðan á miðnætti. Þeir voru allir minni en 2 að stærð. Einn jarðskjálfti mældist í gær á meira en 20 kílómetra dýpi. Samfelldar GPS mælingar sýna lítlar breytingar síðustu daga.

Sigurður Reynir Gíslason og fleiri hjá Jarðvísindastofnun hafa tekið saman yfirlit um reikul efni í Eyjafjallajökli (pdf 1,5 Mb). Eyjólfur Magnússon hjá sömu stofnun hefur gert myndaskjal sem lýsir útbreiðslu hraunsins í nokkrum stökkum (pdf 2,0 Mb). Landmælingar Íslands hafa gert stutt myndskeið sem fylgir göngustígnum yfir Fimmvörðuháls úr suðri í einföldum flughermi (sýnir gossprunguna en ekki hraunstraumana).

Eldstöðvarnar 26. mars
fjalllendi, örnefni
Tekið úr Landhelgisgæsluflugi að morgni 26. mars 2010. Ljósmynd: Hjörleifur Sveinbjörnsson. Myndin sýnir gufumökkinn frá bræddum snjó þar sem hraunið er að brjóta sér farveg niður í Hvannárgil. Það rennur nú (31. mars) bæði í Hrunagil og Hvannárgil. Útsýni yfir hraunfossana á að vera gott frá Morinsheiði sem er í um 800 m hæð yfir sjó, flöt og því ekkert skjól fyrir vindi. Fólki sem ætlar sér í skoðunarferð á hálsinn eða á Morinsheiði er bent á að fylgjast vel með veðurspám fyrir Fimmvörðuháls. Sérstök athygli er vakin á vindkælingu og bent á að varasamt getur verið að taka af sér vettlinga til að matast eða taka myndir. (Sjá einnig loftmynd með örnefnum frá 22. mars neðarlega hér á síðunni.)

Innrauðar myndir - skráð 31.03.2010 kl. 12:00

Vísindamenn frá ÍSOR, Íslenskum orkurannsóknum, fóru að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi föstudaginn 26. mars síðastliðinn, m.a. til mæla hita í gosstrókunum með hitainnrauðum myndavélum. Ásamt öðrum niðurstöðum veitir þetta innsýn í þá ferla sem stýra jarðhita á Íslandi.

Af Morinsheiði á Goðalandi var tekin mynd af hraunfossinum sem fellur ofan í Hrunagil. Einnig var tekin mynd í sprungustefnu gossins sem sýnir hraunstrauminn í átt að Hvannárgili. Út frá myndunum er hægt að greina kólnun hraunsins, sjá bruna gastegunda í gosstrók og fylgjast með virkni gígsins. Af myndunum að dæma fer hitinn í hraunstraumnum yfir 800°C og hitinn í stróknum yfir 640°C.

Rennsli í Krossá - skráð 30.03.2010 kl. 15:15

Línuritið sýnir tveggja vikna mælingar í Krossá: vatnshæð, leiðni og vatnshita. Áhrif frá eldgosinu í Eyjafjallajökli eru augljós u.þ.b. 18 klst. eftir upphaf þess (síðla kvölds 20. mars). Tíu dögum síðar er leiðnin enn há, og vatnshitinn að jafnaði hærri en var, en vatnshæð virðist hafa náð jafnvægi.

Áhrif gossins á Krossá
þrefalt línurit í tvær vikur
Tveggja vikna línurit úr Vöktunarkerfi flóða sýnir breytingar á Krossá við Mýrdalsjökul.

Jarðskjálftar undir Eyjafjallajökli - skráð 30.03.2010 kl. 09:45

Óróinn minnkaði verulega í fyrrinótt (aðfaranótt 29. mars) en jókst svo aftur fram á kvöld í gær, 29. mars. Síðan hefur óróinn farið hægt minnkandi. Fáeinir jarðskjálftar urðu upp úr klukkan 18 í gær. Þeir stærstu voru um 2,6-2,7 að stærð. Upptök þeirra voru í kvikurásinni undir austurhluta Eyjafjallajökuls (sjá kort og umfjöllun um leið kvikunnar upp á yfirborð hér fyrir neðan).

Þrír skjálftar mældust í nótt, allir minni en 2. Samkvæmt GPS mælingum í gær var staða þeirra nokkuð stöðug miðað við dagana á undan.

Á vef Jarðvísindastofnunar H.Í. er kort af útbreiðslu hraunsins (pdf 1,4 Mb).

Leið kvikunnar upp á yfirborð - skráð 29.03.2010 kl. 16:00

Nákvæmari, afstæðar staðsetningar smáskjáfta hafa nú leitt í ljós rás kvikunnar upp á yfirborð.

Jarðskjálftar sem urðu í Eyjafjallajökli fram til 24. mars, hafa nú verið endurstaðsettir með aðferð sem kölluð hefur verið upptakagreining. Með upptakagreiningu má fá mun meiri nákvæmni á afstæðri staðsetningu milli skjálftanna sem eru bornir saman og þar með fá mun skýrari mynd af dreifingu þeirra heldur en hægt er með venjubundinni, daglegri úrvinnslu.

Þessi aðferð hefur m.a. verið notuð til þess að kortleggja stóra og smærri sprungufleti með meiri nákvæmni en áður (sjá fróðleiksgrein), svo og kvikuhreyfingar í eldfjöllum, m.a. í Eyjafjallajökli (pdf 3,1 Mb).

Á meðfylgjandi mynd má sjá þá skjálfta sem urðu 13.-24. mars og búið var að fara yfir handvirkt 24. mars, en þeir eru reyndar aðeins brot af þeim skjálftum sem urðu á þessu tímabili. Skjálftarnir eru litaðir eftir því hvenær þeir urðu (sjá litaskala efst til hægri). Fyrir neðan kortið má sjá þversnið þar sem horft er frá suðri (dýpi á lóðrétta ásnum) en hægra megin við kortið má sjá þversnið þar sem horft er frá austri (dýpi á lárétta ásnum).

Endurstaðsettir smáskjálftar í Eyjafjallajökli
Jarðaskjálftavirkni í Eyjafjallajökli
Endurstaðsettir smáskjálftar sýna leið kvikunnar upp á yfirborðið.

Frá 13.-16. mars gefur smáskjálftadreifin til kynna að kvikan gekk áfram út í innskotið til austurs, á um 7-9 km dýpi, líkt og verið hafði frá 4.-5. mars þegar skjálftavirknin tók verulega kipp. En um 17. mars byrjar kvikan líklega að brjóta sér leið lóðrétt upp úr innskotinu í átt til yfirborðs, undir jökulhettunni. Á um 2 km dýpi tekur rásin snögga beygju og kvikan hleypur um 4,5 km lárétt út undan jökulhettunni að gossprungunni (merkt með stuttri svartri línu og stjörnu á kortinu).

Þessar nýju skjálftastaðsetningar sýna jafnframt skjálfta undir gossvæðinu að morgni 20. mars, en þá var tilkynnt til Almannavarna um verulega grynnri skjáfltavirkni. Síðan gosið hófst hafa flestir skjálftar (svartir hringir) orðið á 2-3 km dýpi í rásinni þar sem hún beygir til austurs.

Á dýptarþversniðinu, þar sem horft er frá suðri, má sjá þau hraðalíkön sem notuð hafa verið til að staðsetja skjálftana í sjálfvirkri og daglegri úrvinnslu (svart, svokallað SIL-líkan) og svo endurbætt hraðalíkan sem notað var við endurstaðsetninguna (grænt, svokallað Suðurlandslíkan, P23). Þynnri línur sýna hraða S-bylgna en breiðari línur hraða P-bylgna.

Tæknivinna vegna gossins - skráð 29.03.2010 kl. 15:10

Undir lok síðustu viku fóru tæknimenn Veðurstofunnar inn í Bása og settu upp jarðskjálftastöð sem mun verða hluti af SIL-kerfi Veðurstofunnar og er ætluð til þess að auka á nákvæmni mælinga á dýpi skjálfta á svæðinu. Vonast er til að hún sjáist í kerfinu innan skamms. Einnig var farið að jarðskjálftastöðinni á Goðabungu (god) í Mýrdalsjökli þar sem bætt var við rafgeymi og skipt um vindrellu og sitthvað fleira (sjá mynd).

Á Goðabungu
Á Guðabungu
Skipt um vindrafstöð við skjálftamæli og GPS-stöð vestan í Goðabungu 25. mars. Jósef Hólmjárn, tæknimaður á Veðurstofunni, uppi í stiganum. Gísli Jónsson hjá Arctic Trucks aðstoðar. Gosstöðvarnar í baksýn, Brattafönn þar fyrir framan, dökk af ösku, en Morinsheiði, slétt og enn hvít, er til hægri á miðri mynd sem tekin er kl. 15:15. © Jósef Hólmjárn.

GPS-stöðin á Þorvaldseyri hætti að senda gögn og kom í ljós að símalínan var slitin og var gert við hana í leiðinni. Auk þess var símsamband við GPS-mæla Jarðvísindastofnunar Háskólans á Skógaheiði og í Básum lagfært. Tæknimenn Veðurstofunnar hafa aðstoðað Jarðvísindastofnun við að koma símsambandi á GPS-stöðvar sem eru á vegum Háskólans og tengja þær samsvarandi kerfi Veðurstofunnar þannig að stofnunin hafi aðgang að þessum gögnum.

Um miðja síðustu viku komu tæknimenn Veðurstofunnar fyrir tveimur nýjum vatnshæðarmælum í Þórsmörk. Mælarnir eru í Hvanná og Steinsholtsá. Smáhlaup virðist hafa komið í Hvanná aðfaranótt föstudagsins 26. mars en þá hækkaði vatnsborðið, leiðnin lækkaði og vatnshitinn féll niður í 0°C.

Minnkandi órói - skráð 29.03.2010 kl. 08:45

Gosórói hefur minnkað hratt síðustu klukkustundir eins og sést á óróamælingum sem uppfærast ört. Staðsetningu jarðskjálftamæla má sjá á korti af Suðurlandi eða á Íslandskorti. Gosstrókar sjást ennþá eins og sjá má í vefmyndavél Mílu á Fimmvörðuhálsi (sjá tengil hægra megin efst á síðu).

Kraumar enn
Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Eldstöðvarnar 27. mars kl. 20:25. Ljósmynd: Einar Kjartansson.

Framvinda jöfn en varasöm - skráð 28.03.2010 kl. 14:30

Á miðnætti var enn sama staða. Framvinda gossins á Fimmvörðuhálsi hefur verið jöfn í dag. Gosórói er heldur minnkandi í bili en hraunstraumurinn getur haldist jafn þrátt fyrir það. Veðurstofan tekur undir aðvörun Almannavarna frá í gær og ítrekar að veður eru válynd. Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls, sem er í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli, er þessi:

Norðaustan og norðan 8-13 m/s og yfirleitt léttskýjað, en búast má við stífum vindhviðum á svæðinu (allt að 13-18 m/s). Frost 6 til 14 stig. Bætir í vind seint í dag (sunnudag), 10-15 m/s í kvöld og hviður um og yfir 20 m/s. Vindkæling getur orðið mikil.

Á vef Landsbjargar er fjallað um eitraðar gastegundir sem fylgja eldgosum.

Sprunga í snjóinn eftir bræðsluvatn
svart flatlendi, svört hæð, glittir í snjó í sprungu
Á Fimmvörðuhálsi. Líklegt er að sprungan hafi myndast í upphafi goss í tengslum við straum bræðsluvatns, sem bræddi sér leið undir eða gegnum snjóinn til vesturs frá gossprungunni. Víða sáust greinileg ummerki um slíka farvegi bræðsluvatns á þessu svæði. Ljósmynd: Árni Sigurðsson, 24. mars 2010.

Litlar breytingar - skráð 27.03.2010 kl. 15:30

Framvinda gossins á Fimmvörðuhálsi hefur verið jöfn síðan í gær og litlar breytingar orðið. Kraftur gossins hefur staðið nokkurn veginn í stað.

Fylgjast má með framvindunni af óróamælingum á jarðskjálftamælistöðvunum Goðabungu (god), Eystri-Skógum (esk), Miðmörk (mid), Lágu-Hvolum (hvo) og Haukadal (hau). Línuritin uppfærast á tíu mínútna fresti og sýna jarðhræringar á þremur tíðnibilum. Staðsetningu jarðskjálftamæla má sjá á korti af Suðurlandi eða á Íslandskorti.

Einnig má fylgjast með staðsetningu jarðskjálfta á stóru svæði kringum Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökull meðtalinn, á korti sem uppfærist ört. Það nær tvo sólarhringa aftur í tímann og línurit neðan við kortið sýnir stærð hvers skjálfta.

Hraunflæðilíkan - skráð 26.03.2010 kl. 16:00

Unnið hefur verið kort um líklegt hraunrennsli úr gosstöðvunum og er það byggt á líkani um rennsli hrauns og gjóskufall. Kortið sýnir líkur á hraunflæði miðað við landslag ásamt gjóskufalli miðað við veður í upphafi gossins. Kortið sýnir hvorki rúmmál hraunsins né þann tíma sem hraunið þarf til að ná ýtrustu útbreiðslu. Samkvæmt útreikningum hraunflæðilíkansins voru meiri líkur í upphafi gossins að hraunið rynni í Hvanngil en Hrunagil. Um nóttina, þegar gosið hófst, var mjög stíf austanátt sem átti þátt í því að hlaða upp gosefnum vestan við sprunguna. Það virðist hafa dugað til þess að hraunið rann í upphafi aðeins niður í Hrunagil. Nú rennur það einnig niður í Hvannárgil.

Eldstöðvarnar - skráð 26.03.2010 kl. 13:15

Svæðið kringum eldstöðvarnar kl. 10:03 26. marsEldstöðvarnar

Fremst til vinstri á myndinni er Útigönguhöfði og til hægri við hann er Hvannárgil og er hraunið byrjað að streyma niður í það eins og gufustrókurinn sýnir. Ofar til vinstri er Heljarkambur og má sjá lítinn strók þar sem hraunið rennur niður í Hrunagil. Hraunið streymir því báðum megin við Heljarkamb og hefur lokað hefðbundnu gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Vatnrennsli í Hvanná eykst tímabundið. Ljósmynd: Hjörleifur Sveinbjörnsson. Fleiri myndir.

Eldgosið - skráð 26.03.2010 kl. 08:40

Litlar breytingar virðast hafa orðið á hegðun gossins í nótt. Um kl. 04:30 urðu tveir jarðskjálftar, 2,3 og 2,2 á Richter. Skjálftarnir mældust á um 5 km dýpi og eru ekki taldir vísbending um neinar breytingar.

Eldgosið um kl. 19 að kvöldi 25. mars
Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson, Forsæti.
Hola eftir logandi hraungrjót 24. mars
Bombugat
Margt er að varast í nánd við eldstöðvar. Far eftir bombu, hraun eða grjóthnullung sem þeyst geta talsverðan spöl í eldgosum. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.
Vatnsrás við eldstöðvarnar 24. mars
Vatnsrás
Vatnsrás eftir leysingarvatn sem myndast þegar hraunið bræðir snjó. Vatnið getur myndað tjarnir, sem geta ræst skyndilega fram. Líklega hefur toppur sem kom í rennsli Krossár (sjá línurit neðst á síðunni) skömmu eftir klukkan 9:00 á mánudagsmorgun (22/3), orðið til á þennan hátt. Myndin er tekin um kl. 16:00 hinn 24. mars. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Loftmyndir frá í gær - skráð 25.03.2010 kl. 12:30

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, tók myndir í flugi Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar í gær. Þá mátti greina litlar breytingar á gosinu. Hraunstraumurinn rann áfram niður í Hrunagilið. Gufubólstrar koma upp þegar hraunið kemst í snertingu við ísinn. Að minnsta kosti fjórar eldtungur risu upp frá gosstöðvunum.

Ofan við eldstólpana mátti sjá talsverða bláleita gufu stíga upp og barst hún til vesturs. Líklega er þetta brennisteinsvetni (H2S) og fleiri gastegundir. Brennisteinsvetnið getur síðar myndað brennisteinssýru. Í einu Kröflugosanna 1980 lá slík blá slikja yfir landinu í smátíma áður en vindurinn feykti henni burt. Þekkt er blámóðan yfir landinu og víðar í Lakagosinu 1783 sem móðuharðindin eru kennd við.

Ofan við blámóðuna til vesturs má líklega sjá eldbólstra, pyrocumulus, en þau myndast vegna hitans sem stígur upp frá eldgígnum. Slík ský myndast oft yfir eldgosum og einnig yfir skógareldum.

Gosstöðvarnar um kl. 14:30 24. mars
Gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi
Bláleita gufan, sem lýst er í textanum ofan við myndina, er hér ofarlega á miðri mynd. Morinsheiði til hægri og Útigönguhöfði ofar. Fleiri myndir. Ljósmynd: Gunnar B. Guðmundsson.

Flug nú í morgun - skráð 25.03.2010 kl. 10:15

Gosstöðvarnar kl. 07:30 25. mars
Gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi
Ólafur Sigurjónsson í Forsæti flaug yfir gosstöðvarnar og tók þessa mynd kl. 07:30 í morgun, 25. mars. Að sögn Ólafs er hraunið einnig byrjað að renna til hægri við nýja fellið. Sjá fleiri myndir.

Breyting á gufustrókum - skráð 25.03.2010 kl. 08:00

Í nótt dró úr gufustrókum sem stigið hafa upp frá efsta hluta Hrunagils við Heljarkamb síðan á mánudag. Jafnframt hefur heldur dregið úr óróa á jarðskjálftamælum.

Þetta stafar væntanlega af því að hraunið sé að mestu búið að bræða ísinni í gilinu. Í morgun jókst gufan aftur, en þá norðar í gilinu, sem bendir til að hraunstraumurinn sé að færast niður eftir gilinu.

Ekki eru merki um neina breytingu á gosinu sjálfu.

Úr Hrunagili
Hrunagil
Þessi ljósmynd var tekin 15. júlí 2007, rétt sunnan við Heljarkamb (sjá loftmynd neðar á síðunni), og sýnir vel efsta hluta Hrunagils. Hraunfossinn, sem sést á mynd sem sett var hér á síðuna 23. mars, er fyrir miðri þessari mynd. Í botni gilsins er ís sem að mestu er þakinn grjóti og aur. Ljósmynd: Einar Kjartansson.

GPS-mælingar - skráð 24.03.2010 kl. 14:25

Samfelldar GPS landmælingar á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hafa sýnt landbreytingar frá lokum síðasta árs. Í lok árs 2009 byrjaði stöðin að færast til suðurs og fyrir miðjan febrúar hóf hún einnig að færast til vesturs. Í byrjun síðustu viku jókst suðurfærslan verulega. Í fyrradag varð viðsnúningur á suðurfærslunni og í dag sést votta fyrir því að í gær hafi farið að hægja á vesturfærslunni.

Veðurstofan rekur, auk mælisins á Þorvaldseyri, þrjá GPS mæla við Suðurjöklana og auk þess hefur hún aðgang að samfelldum GPS mælingum Jarðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Talið er að umræddar landbreytingar stafi af kvikuhreyfingum undir Eyjafjallajökli. Þannig er álitið að frá því í desember hafi kvika verið að þrýstast upp undir Eyjafjallajökli, sem eins og kunnugt er endaði með eldgosi sem hófst að kveldi 20. mars. Lítið lát var á landbreytingunum fyrst eftir að gosið hófst, enda byrjaði það mjög rólega, en sótti heldur í sig veðrið fyrstu tvo dagana. Þessi aukning sást á óróplotti Veðurstofunnar og jarðvísindamenn á Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands telja að hraunstreymi hafi á sama tíma verið að aukast.

Mælingar frá því í gær benda til að gosið geti verið að ná ákveðnu jafnvægi þannig að innstreymi kviku að neðan samsvari í stórum dráttum til þess hraunmagns, sem upp vellur. Nokkur jarðskjálftavirkni er þó undir austanverðum Eyjafjallajökli og því er ekki enn hægt að útiloka að sprunga geti opnast undir austanverðum jöklinum.

GPS-mælingar frá Þorvaldseyri
GPS-mælingar Efsta línuritið sýnir færslu stöðvarinnar í austur (mínusgildi tákna að stöðin færist í raun til vesturs), í millimetrum. Í miðju er línurit sem sýnir færslu til norðurs (mínusgildi tákna raunfærslu til suðurs) og neðsta myndin sýnir lóðrétta hreyfingu (landið hækkar).

Flúor í gjóskunni - skráð 24.03.2010 kl. 11:40

Ástæða er til að vekja athygli á flúor í gjóskunni frá gosinu á Fimmvörðuhálsi. Full ástæða er til varúðar og að halda búpeningi frá öskumengaðri beit og einkum bræðsluvatni, svo sem pollum á túnum. Níels Óskarson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur mælt vatnsleysanlegan flúor í þremur sýnum af gjalli og ösku frá Eyjafjallajökli. Sjá meiri upplýsingar hjá Jarðvísindastofnun.

Gosórói - skráð 24.03.2010 kl. 08:20

Virknin í Eyjafjallajökli fór heldur hægt vaxandi í nótt. Líkt og verið hefur dró út óróanum og jókst á víxl en þrír megintoppar greindust rétt fyrir miðnættið, um eitt-leytið og svo um fjögur-leytið. Í hviðunni um kl. 4 mátti líka greina heldur stærri topp í lágtíðnióróanum á Goðabungu (god) en mælst hefur síðustu daga. Hugsanlega má rekja hann til aukinna gufusprenginga þar sem hraunið rennur yfir jökulinn en það er þó alls óvíst.

Rennsli í Krossá 23.-24. mars
Rennsli í Krossá
Hér má sjá rennsli í Krossá 23. mars og til kl. 8 í morgun, 24 mars. Bæði rennsli og vatnshiti sveiflast og er sennileg skýring að hraunið stífli vatnsfarveginn annað slagið en svo nái vatnið að brjótast fram. Meira jafnvægi virðist vera eftir miðnættið, líklega vegna þess að hraunið hefur brætt mestu fönnina á svæðinu.

Gosórói - skráð 23.03.2010 kl. 17:30

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hefur verið jafnt og stöðugt frameftir degi. Krafturinn hefur ekki aukist, eins hann gerði hægt og bítandi í gær, heldur staðið að meðaltali í stað. Sveiflur eru þó í gosinu.

Fylgjast má með framvindu gossins af óróamælingum á jarðskjálftamælistöðvunum Goðabungu (god), Eystri-Skógum (esk), Miðmörk (mid), Lágu-Hvolum (hvo) og Haukadal (hau). Línuritin uppfærast á tíu mínútna fresti og sýna jarðhræringar á þremur tíðnibilum.

Einnig má fylgjast með staðsetningu jarðskjálfta á stóru svæði kringum Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökull meðtalinn, á korti sem uppfærist ört. Það nær tvo sólarhringa aftur í tímann og línurit neðan við kortið sýnir stærð hvers skjálfta.

Flatarmál hraunflákans - skráð 23.03.2010 kl. 12:15

Þetta kort er sett saman eftir SAR myndum úr vél Landhelgisgæslunnar og ljósmyndum Jarðvísindastofnunar frá mánudeginum 22. mars 2010. Þarna er hraunið nærri því að vera 0,4 km2 og hefur stækkað úr um 0,1 km2 daginn áður. Hraunrennslið virðist vaxandi samkvæmt þessu. Ítarlegra kort er til sem sýnir útbreiðsluna hvern dag fyrir sig.

landakort, hraunfláki

Gosórói - skráð 23.03.2010 kl. 08:00

Gosóróinn hefur verið af svipaðri stærð frá því í gærdag en inn á milli hafa komið sterkari hviður. Í gærkvöldi milli klukkan 19 og 20 kom ein slík óróahviða og stuttu síðar, eða frá því um klukkan 20:25 til 21:00, komu fram bólstrar á veðursjá Veðurstofunnar sem náðu í um 7 kílómetra hæð. Líklega hefur kvikustreymi aukist og hraun náð inn á jökulinn og myndað gufusprengingu eins og gerðist í gærmorgun. Um sjöleytið í morgun kom einnig öflug óróahviða. Frá miðnætti hefur rúmlega tugur jarðskjálfta mælst með upptök undir Eyjafjallajökli og eru þeir allir minni en 2 að stærð.

Séð niður í Hrunagil af Heljarkambi 22. mars kl. 16:00 (sjá mynd með örnefnum hér fyrir neðan). Myndskeið: Einar Kjartansson. Hraunið rennur niður í gilið. Snjórinn er þakinn ösku. Kastljósið slóst með í för.

Gosið séð af þjóðvegi 1
Gos- og gufustrókar
Hér má sjá að mikill gufustrókur stígur upp frá Bröttufönn. Til hægri er gígurinn og er gosstrókurinn upp úr honum mun minni. Myndin er tekin skammt vestan við Hvolsvöll 22. mars kl. 9:27. Ljósmynd: Einar Kjartansson.

Gosórói - skráð 22.03.2010 kl. 15:20

Fylgjast má með framvindu gossins af óróamælingum á jarðskjálftamælistöðvunum Goðabungu (god), Eystri-Skógum (esk), Miðmörk (mid), Lágu-Hvolum (hvo) og Haukadal (hau). Línuritin uppfærast á tíu mínútna fresti og sýna jarðhræringar á þremur tíðnibilum.

Gufustrókar - skráð 22.03.2010 kl. 16:05

Gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi
Fimmvörðuháls - gossvæði
Ólafur Sigurjónsson í Forsæti flaug yfir gosstöðvarnar á milli klukkan 8 og 9 í morgun og tók þá þessa mynd sem örnefni hafa verið sett inn á. Ólafur telur að gufustrókar hafi myndast þegar hraun rann yfir jökulinn en ekki að gossprungan hafi lengst. Jarðvísindamenn, sem skoðuðu svæðið í morgun frá Morinsheiði, staðfesta þetta álit Ólafs. Veðurstofan þakkar Ólafi fyrir þessa mynd og fleiri sem sjá má í meðfylgjandi frétt.

Breytingar á rennsli og vatnshita í Krossá - skráð 22.03.2010 kl. 13:30

Rennsli í Krossá 21.-22. mars 2010
Krossa-DB_Image8
Hér má sjá hvernig rennslið í Krossá í Þórsmörk jókst í morgun, 22. mars eftir aukningu á gosóróa og gufusprengingu. Einnig kólnaði vatnið lítillega, sem bendir til bráðnunar íss. Síðan hitnaði vatnið vegna hitans frá hraunstraumnum en fór að kólna aftur um hádegið.

Órói og gufusprenging í morgun - skráð 22.03.2010 kl. 10:30

Um klukkan 7:15 í morgun, 22. mars, jókst gosórói en heldur dró úr honum um níuleytið. Upp úr kl. 09:30 fór hann aftur vaxandi og í heildina fer óróinn vaxandi.

Upp úr kl. 7 varð einhvers konar sprenging sem framkallaði strók sem sást á veðursjá í um 4 km hæð yfir jöklinum.

Strókurinn er ljós, líklega vatnsblandaður og gefur það til kynna að gufusprenging með auknu vatni hafi komið inn í kerfið. Áfram mælast fáeinir jarðskjálftar undir Eyjafjallajökli.

Á myndaröð úr ratsjá Veðurstofunnar á Reykjanesskaga má fylgjast með því hvernig strókurinn myndast, berst til vesturs og leysist upp á nokkrum mínútum. Nákvæma tímasetningu má sjá undir myndinni. Strókurinn er auðkenndur með svartri ör.

Upphaf og aðdragandi gossins - skráð 21.03.2010 kl. 16:15

Eldgos hófst í eldstöðinni Eyjafjallajökli, nánar tiltekið á Fimmvörðuhálsi, kl. 22:30-23:30 laugardaginn 20. mars. Gossprungan er um það bil 0,5 km löng og er í norðurhlíðum Fimmvörðuháls, austan við Eyjafjallajökul.

Gosórói jókst samfellt til kl. 07:00-08:00 21. mars, þegar hann náði fyrst hámarki, en úr honum dró aftur um kl. 10. Um það bil klukkustund seinna kom annar púls.

Undanfarnar þrjár vikur hefur verið mikil skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli og hafa skjálftarnir flestir mælst á 7-10 kílómetra dýpi. Í fyrradag (19. mars) hófst innskotshrina til austurs þar sem skjálftarnir mældust á 4-7 kílómetra dýpi. Virknin færðist frekar austur á bóginn fram til laugardags og mældust nokkrir grunnir skjálftar þann dag.

Um 22:30 í gærkvöldi sást lítilsháttar aukning á óróa á þremur jarðskjálftastöðvum sem næstar eru Eyjafjallajökli og um svipað leyti bárust fregnir af því að gos væri hafið í jöklinum.

Öskufall virðist lítið og hefur ekki enn sést í ratsjá Veðurstofunnar.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica