Veðurstofa Íslands 90 ára

Fyrstu ár Veðurstofunnar

Veðurstofa Íslands 90 ára

Guðrún Pálsdóttir 30.12.2010

Hinn 1. janúar 1920 tóku Íslendingar formlega við þeim veðurathugunum sem danska veðurstofan hafði haft með höndum síðan 1872 og er tilurð Veðurstofu Íslands miðuð við þann dag. Um nokkurra ára skeið höfðu verið uppi hugmyndir um stofnun veðurstofu á Íslandi og voru m.a. flutt lagafrumvörp þar að lútandi á Alþingi 1917 og 1918.

Ekki náði málið þá fram að ganga en með sambandslagasamningnum 1918 komst það aftur á dagskrá. Nýfengið sjálfstæði hvatti Íslendinga til að sanna fyrir sér og öðrum að þeir gætu staðið á eigin fótum á sem flestum sviðum. Komst öflugur skriður á málið strax á fyrri hluta árs 1919 og í kjölfarið var gengið frá samkomulagi við dönsk stjórnvöld, fjárveiting tryggð, tæki og búnaður keyptur og starfsfólk ráðið.

Veðurstofan var fyrstu fimm árin deild í annarri stofnun, Löggildingarstofunni. Hét deildin Veðurfræðideild, en franska heitið Section Météorologique de Löggildingarstofan var þó tíðum notað. Var leitt getum að því að þetta undarlega sambland af frönsku og íslensku stafaði af því að forstöðumaðurinn hafi ekki kært sig um að vitneskja um náið samband svo óskyldra starfssviða bærist út fyrir landsteinana.

Löggildingarstofan hafði verið stofnuð 1918 og varð Þorkell Þorkelsson forstöðumaður hennar. Þorkell lauk cand.-mag.-prófi í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1903. Að loknu námi starfaði hann fyrstu árin ytra en fluttist heim 1908 og gerðist kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri, auk þess sem hann sinnti ýmsum öðrum verkefnum. Hann fluttist suður til að taka við forstöðumannsembætti hinnar nýju Löggildingarstofu og síðan embætti veðurstofustjóra sem hann gegndi til 1946. Þorkell var mjög fjölhæfur, afkastamikill og snjall fræðimaður á sviði raunvísinda og ritaði m.a. um jarðhitafræði, veðurfræði, stærðfræði, eðlisfræði, jarðfræði, jarðskjálftafræði, stjörnufræði og íslenskt tímatal.

Starfsmenn Veðurfræðideildar Löggildingarstofunnar voru í upphafi fjórir, forstöðumaður, skrifstofumaður, aðstoðarmaður og skrautritari. Starfsmönnum fjölgaði síðan um miðjan þriðja áratuginn þegar Veðurstofan réð loftskeytamenn til starfa og fór sjálf að taka á móti erlendum veðurskeytum. Fyrstu veðurfræðingarnir komu starfa seinni hluta áratugarins; Jón Eyþórsson, Teresía Guðmundsson og Björn L. Jónsson, og báru þau starfsheitin fulltrúi og aðstoðarmaður. Upp úr 1930 voru starfsmenn sjö að tölu og hélst mannafli í þeim skorðum allt fram í síðari heimsstyrjöld. Stofnunin var til húsa á þriðju hæð á Skólavörðustíg 3 allt til 1931, er hún flutti í nýreist Landsímahús við Austurvöll.

Löggildingarstofan var lögð niður sem sérstök ríkisstofnun í árslok 1924. Varð því Veðurfræðideildin að forminu til sjálfstæð stofnun frá ársbyrjun 1925. Tvö nöfn komu einkum til álita á stofnunina, Veðurfræðistofan eða Veðurstofan. Varð hið seinna fyrir valinu. Einu og hálfu ári síðar voru síðan sett fyrstu lögin um stofnunina og fær hún þá nafnið Veðurstofa Íslands. Starfssvið hennar skyldi vera: a) að safna gögnum til rannsókna á loftslagi landsins; b) að vinna úr veðurskýrslum frá veðurstöðvum; c) að safna daglegum veðurskeytum, innlendum sem erlendum og senda út fregnir um veðurútlit; d) að safna nákvæmum fregnum um hafís og e) að sinna alþjóðasamvinnu í veðurfræði. Þá skyldi hún hafa eftirlit með landskjálfta- og segulmagnsmælingum, krefðist ríkisstjórnin þess og fjárveiting væri fyrir hendi. Þá skyldi svo fljótt sem ástæður leyfðu reist sérstök bygging fyrir Veðurstofuna.

Eins og áður segir tók Veðurfræðideildin strax í upphafi við veðurathugunarstöðvum dönsku veðurstofunnar, en þær voru 19 að tölu. Fljótlega var hafist handa um að fjölga stöðvunum verulega og voru þær orðnar 36 árið 1925 og 56 tíu árum seinna, nær allar veðurskeytastöðvar eða veðurfarsstöðvar. Einfalt var að fjölga veðurfarsstöðvum, kostnaður tiltölulega lítill og Veðurstofan gat sjálf valið þá staði þar sem hún kaus að athuga veðrið. Mun örðugra var að fjölga veðurskeytastöðvum eins og nauðsyn krafði, þar sem möguleikar til fjarskipta réðu oft meiru um staðsetningu en fræðileg sjónarmið, stöðvarnar urðu að vera í alfaraleið símans.

Veðurfræðideildin tók strax í byrjun við úrvinnslu veðurathugana og útgáfu veðurfarsskýrslna fyrir Ísland af dönsku veðurstofunni. Fyrstu fjögur árin var gefin út Íslensk veðurfarsbók, ítarlegt rit með daglegum athugunum frá sex stöðvum og mánaðarmeðaltöl allra veðurathugunarstöðva. Árið 1924 leysti tímaritið Veðráttan veðurfarsbókina af hólmi, en hætt var að birta daglegar athuganir.

Veðurfræðideildin hóf að teikna veðurspákort strax í janúar 1920. Fyrsta spáin var síðan birt 1. ágúst sama ár og hljóðaði hún svona ásamt veðurlýsingu: Loftvægislægð milli Færeyja og Íslands; loftvog stígandi hjer en stöðug í Færeyjum; norðaustlæg átt hvöss á Suðvesturlandi. Útlit fyrir kalda norðan átt, bjartviðri á Suðurlandi en regnskúrir víða á Norðurlandi. Fyrstu spárnar giltu aðeins fyrir næstu 12 klukkustundir, en voru framlengdar nokkrum árum seinna í einn sólarhring. Þá gáfu fyrstu spárnar einungis almennt yfirlit um veðurhorfur, en 1926 var landinu skipt í átta veðurhéröð og ofar en ekki gefin út sérstök spá fyrir hvert hérað. Þessi framþróun í spáþjónustu tengist skipun fyrsta veðurfræðingsins á Veðurstofuna, Jóns Eyþórssonar. Veðurspárnar voru sendar landsmönnum símleiðis eða með loftskeytum uns farið var að útvarpa veðurfregnum undir lok árs 1930.

Fljótlega eftir að Veðurstofan tók til starfa hóf hún að safna fréttum um hafís við strendur landsins. Tilgangurinn var sá að senda út aðvaranir til skipa á siglingu við Ísland þegar ástæða þótti til.

Jarðskjálftamælingar á Íslandi hófust haustið 1909 í húsnæði Stýrimannaskólans við Öldugötu að tilhlutan alþjóðlegra samtaka jarðskjálftafræðinga. Í byrjun var notaður mælir frá Þýskalandi og annar bættist við fjórum árum síðar. Þessar mælingar féllu niður 1914 vegna fjárskorts. Þegar Veðurfræðideild Löggildingarstofunnar tók til starfa var ákveðið að hún skyldi annast mælingarnar. Ekki komst það þó til framkvæmda fyrr en 1925, en síðan hafa jarðskjálftamælingar verið gerðar óslitið hér á landi.

Tekið saman 30.12.2009 úr Sögu Veðurstofu Íslands eftir Hilmar Garðarsson.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica