Skjálfti í Brennisteinsfjöllum – hraðara sig í Krýsuvík og áframhaldandi kvikusöfnun í Svartsengi
Innistæða fyrir stærri skjálfta við Brennisteinsfjöll
Aflögun mælist á Krýsuvíkursvæðinu
Áframhaldandi landris við Svartsengi
Hættumatskort uppfært
Jarðskjálfti varð á suðvesturhorninu laust eftir klukkan 18 í gær, um 3,2 að stærð og fannst hann á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn varð í Brennisteinsfjöllum sem er virkt jarðskjálftasvæði. Síðan umbrotin hófust á Reykjanesskaga eða frá 2020 hefur orðið vart við aukna jarðskjálftavirkni á þessu svæði og er það til marks um aukna söfnun spennu í jarðskorpunni.
Hafa ber í huga að sterkir jarðskjálftar verða endurtekið á þessu svæði, en þó með löngu millibili, og alls óvíst hvenær þeir verða næst. Síðast urðu þeir M6,4 árið 1929 og M6,1 árið 1968. Síðan þá hafa byggingarstaðlar styrkst stöðugt með sífellt meiri kröfum til jarðskjálftahönnunar húsa. Þótt skjálftar af slíkum stærðum myndu hafa veruleg áhrif, svo sem grjóthruni í bröttum hlíðum og hreyfa við innanstokksmunum, er sjaldgæft að fólk slasist í jarðskjálftum hér á landi, og er það oftast vegna lausamuna.
Á jarðskjálftasvæðum er því gott að hafa reglulega í huga hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir hægt sé að gera til að minnka líkur á tjóni, huga að lausamunum s.s. að þungir hlutir séu ekki staðsettir yfir rúmum o.s.frv., ásamt því að rifja upp leiðbeiningar um viðbrögð í jarðskjálftum.
Upptök skjálfta í Brennisteinsfjöllum í gærkvöldi. Hann mældist 3,2 að stærð og fannst víða á höfuðborgarsvæðinu.
Þó nokkur skjálftavirkni hefur verið vestur af Kleifarvatni. Krýsuvík og nærliggjandi svæði eru einnig sögulega þekkt fyrir jarðskjálftavirkni en virknin síðustu misseri tengist einkum gikkskjálftum vegna innskotanna undir Fagradalsfjalli og Sundhnúk. Í Krýsuvík hafa mælst breytingar á landrisi og sigi. Svæðið hefur áður sýnt slíkar sveiflur. Enn er ekki komin fram einhlít skýring og frekari greiningar eru í gangi. Svæðið hefur áður sýnt slíkar sveiflur, en núna virðist aflögunin hraðari en áður.
Sérfræðingar fylgjast grannt með ástandinu. Gögn eru metin daglega og niðurstöðum miðlað áfram eftir þörfum.
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og er nú búinn ná svipuðum hraða og fyrir síðasta gos. Engin skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðan að gos hófst.
Myndin sýnir mælingar á lóðréttri hreyfingu jarðskorpunnar í Krýsuvík frá GPS-mælistöðinni KRIV frá árinu 2020. Fyrstu árin reis landið jafnt og þétt, en frá haustinu 2023 hefur það sigið. Eftir að eldgos hófust við Svartsengi í júlí 2023 hefur sigið orðið hraðara.
Á ferlinum sjást reglulegar sveiflur sem tengjast kvikuhreyfingum neðanjarðar. Frá síðasta sumri hefur sigið fylgt aukinni skjálftavirkni á svæðinu, sem er möguleg þegar kvika hreyfist til í jarðskorpunni og veldur spennubeytingum.
Til samanburðar eru notaðar InSAR-gervihnattamyndir, sem mæla smávægilegar yfirborðsbreytingar með því að bera saman myndir teknar á mismunandi tímum. Þær staðfesta sömu þróun og GPS-mælingarnar.
Hættumatskort fyrir svæðið hefur verið uppfært og gildir til 2. september ef ekkert breytist. Helsta breytingin er sú að nýja hraunbreiðan hefur verið færð niður í flokkinn nokkur hætta (gulan lit), líkt og eldri hraun.