Komin inn í tímabil þar sem auknar líkur eru á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni
Tímabilið getur varað í allt að þrjá mánuði
Uppfært 25. septemberAuknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi frá 27. september
Viðvörunarstig hækkað
Nýtt hættumatskort gefið út
Þegar atburðir sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023 eru skoðaðir kemur í ljós að magn kviku sem þarf að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi áður en kvikuhlaup eða gos hefst getur verið mismikið.
Greining fyrri atburða hefur gert Veðurstofunni kleift að áætla á hvað bili rúmmál kvikusöfnunar liggur til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi.
Staðan núna og mat næstu vikna
Með líkanreikningum, sem byggja á aflögunarmælingum, er hægt að áætla hvenær þessu kvikumagni verður náð, ásamt óvissu í útreikningunum, að því gefnu að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur.
Neðri mörk: 11 milljón rúmmetrar verður náð 27. september
Efri mörk: 23 milljónir rúmmetra verður náð í kringum 18. desember
Þegar neðri mörkum hefur verið náð telst svæðið komið inn í tímabil þar sem auknar líkur eru á kvikuhlaupi eða gosi á Sundhnúksgígaröðinni. Tímabilið spannar hátt í þrjá mánuði og gos getur hafist hvenær sem er á tímabilinu.
Matið verður endurskoðað ef breyting verður á kvikuinnstreymi eða ef rauntímamælingar Veðurstofunnar sýna skýr merki um kvikuhlaup.
Línuritið sýnir þróun kvikusöfnunar á 4 km dýpi undir Svartsengi frá júlí til 18. desember 2025. Svörtu punktarnir sýna útreiknað kvikumagn eftir síðasta gos en rauðu punktarnir kvikusöfnun meðan gos var í gangi.
Líklegasti upptakastaður eldgoss áfram sá sami
Líkt og í fyrri atburðum verður gefin út sérstök viðvörun um leið og mælingar benda skýrt til kvikuhlaups. Ef til eldgoss kæmi er líklegasti upptakastaðurinn áfram talinn vera á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Merki um að eldgos sé yfirvofandi er smáskjálftavirkni og merki um skarpa breytingu í aflögun sem sést á , ljósleiðara og GPS mælum sem og breyting á þrýstingi í borholum. Reikna þarf með að fyrirvari á eldgosi verði stuttur líkt og í fyrri atburðum, en þá hefur fyrirvarinn verið frá 20 mínútum upp í rúma 4 tíma.
Viðvörunarstig hækkað og uppfært hættumatskort
Af þessum ástæðum hefur Veðurstofan ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir Reykjanes–Svartsengi úr VALS=1 í VALS=2 (Volcanic Alert Level System). Í kjölfarið hefur hættumat fyrir svæðið verið endurmetið og hækkað, og nýtt hættumatskort gefið út.
Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út og gildir frá 25. september til 14. október, nema breytingar á virkni kalli á annað
Hvað er VALS?
Veðurstofan heldur utan um viðvörunarstig eldfjalla á Íslandi sem kallast VALS – Volcanic Alert Level System. Það hefur fjögur stig:
Auka upplýsingar um VALS eru hér: https://www.vedur.is/eldfjoll/eldgos-a-reykjanesi/haettumatskort/
Uppfært 23. september
Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram
Rúmmálið nálgast það magn sem hljóp þaðan í síðasta atburði
Um 10 milljónir rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi
Magnið sem hljóp úr Svartsengi í síðasta eldgosi var áætlað um 11-13 milljónir rúmmetra. Neðri mörkum þessa rúmmáls náð um helgina
Hættumat óbreytt en verður endurmetið á fimmtudag
Landris og kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og hefur verið á stöðugum hraða undanfarnar vikur. Frá síðasta eldgosi sem hófst 16. júlí hafa um 10 milljónir rúmmetra af kviku bæst aftur við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi.
Út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði. Magnið sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu í því gosi er áætlað um 11-13 milljónir rúmmetra. Ef söfnunarhraðinn helst óbreyttur, verður neðri mörkum þess rúmmáls náð um helgina.
Vegna þess, verður hættumat óbreytt þar til þessum neðri mörkum verður náð og verður það næst uppfært á fimmtudaginn 25. september.
Reynslan sýnir þó að mörkin á því hvenær atburður hefst eru breytileg á milli gosa. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil getur dregist á langinn.
Áfram jarðskjálftavirkni og landsig vestan við Kleifarvatn
Jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina er áfram mjög lítil og mælast þar stöku smáskjálftar undir M1.0 að stærð.
Jarðskjálftavirkni við Kleifarvatn og vestan þess heldur áfram og mælast nokkrir tugir skjálfta þar flesta daga. Meirihluti skjálftanna er smáskjálftar undir M2.0 að stærð. Landsig sem mælist vestan Kleifarvatns mælist áfram á stöðugum hraða.
Uppfært 16. september
Hættumat óbreytt en verður endurmetið að viku liðinni
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram
Um 9 milljónir rúmmetra kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi
Líkurnar á nýjum atburði aukast þegar um 11 milljónir rúmmetra hafa safnast saman sem næst í lok september. Þó er áfram töluverð óvissa.
Hættumatskortið helst óbreytt en verður endurskoðað í næstu viku
Landris og kvikusöfnun
Mælingar sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og undanfarið. Niðurstöður líkanreikninga áætla að um 9 milljónir rúmmetra kviku hafi safnast frá síðasta eldgosi sem hófst 16. Júlí og endaði 5. ágúst. Magnið sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu í því gosi var áætlað um 11-13 milljónir rúmmetra.
Líkur á nýju gosi
Út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði. Ef söfnunarhraðinn helst óbreyttur verður þessu magni náð í seinni hluta þessa mánaðar, líkt og kom fram við síðustu uppfærslu hættumatskorts. Reynslan sýnir þó að mörkin á því hvenær atburður hefst eru breytileg á milli gosa. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil getur dregist á langinn.
Hættumat
Hættumatskort verður að þessu sinni óbreytt í eina viku. Í ljósi þess að sama magn af kviku og fór út í síðasta gosi verði náð í lok september mun hættumatskortið vera endurskoðað í næstu viku.

Uppfært 4. september
Talsverð óvissa um tímasetningu á næsta mögulega gosi á Sundhnúksgígaröðinni
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram
Um 6 til 7 milljónir rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi
Gert er ráð fyrir að þegar um 12 milljónir rúmmetrar hafi safnast saman aukist líkurnar á nýjum atburði
Ef hraði kvikusöfnunar helst áfram stöðugur fara líkur á nýjum atburði að aukast í seinni hluta september
Nýtt hættumat gildir til 16. september
Áfram talin nokkur hætta á og við nýju hraunbreiðuna
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og hefur hraði söfnunarinnar verið stöðugur undanfarið. Niðurstöður líkanreikninga áætla að nú hafi safnast um 6 til 7 milljón rúmmetrar af kviku undir Svartsengi frá síðasta gosi sem hófst 16. júlí. Það magn kviku sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi í því eldgosi er áætlað um 12 milljón rúmmetrar.
Miðað við reynslu af eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni er gert ráð fyrir að líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi aukist þegar um það bil jafn mikið magn af kviku hefur safnast aftur undir Svartsengi og hljóp þaðan í atburðinum á undan. Ef horft er til síðasta atburðar þýðir þetta að þegar 12 milljón rúmmetrar hafi bæst við undir Svartsengi ættu líkur á nýjum atburði að aukast. Þessu rúmmáli verður náð í seinni hluta september ef hraði kvikusöfnunar helst áfram stöðugur.
Reikna þarf með nýju eldgosi en óvissa um mögulega tímasetningu á því er töluverð
Það sem er samt mikilvægt að hafa í huga er að ef horft er til eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni frá því í mars 2024 má sjá að það magn kviku sem hlaupið hefur úr Svartsengi í hvert skipti er nokkuð breytilegt eða frá 12 milljónum upp í 31 milljón rúmmetra. Óvarlegt er því að gera ráð fyrir að næsti atburður hagi sér eins og sá síðasti. Gera þarf ráð fyrir því að síðasti atburður gæti hafa verið óvenjulegur í þessari röð eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni hvað varðar það magn kviku sem þurfti að safnast saman undir Svartsengi til að koma að stað eldgosi. Reynslan af síðustu atburðum hefur einnig sýnt að hraði söfnunarinnar þarf ekki að breytast mikið svo að tímasetning á næsta mögulega eldgosi breytist um nokkrar vikur. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil getur dregist á langinn.

Myndin sýnir kvikusöfnunartímabil á Sundhnúksgígaröðinni frá því í október 2023. Frá því í mars 2024 fram að eldgosinu í júlí 2025 höfðu kvikusöfnunartímabilin verið að lengjast.
Vöktun og viðbragð miðast við að eldgos gæti hafist hvenær sem er
Líkanreikningar Veðurstofunnar gefa ákveðna vísbendingu um hvenær líkur aukast á næsta atburði, en vöktun og viðbragðsáætlanir miða við það að eldgos gæti hafist hvenær sem er.
Ef til eldgoss kæmi er líklegasti upptakastaðurinn á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Merki um að eldgos sé yfirvofandi er smáskjálftavirkni og merki um skarpa breytingu í aflögun sem sést á , ljósleiðara og GPS mælum sem og breyting á þrýstingi í borholum. Reikna þarf með að fyrirvari á eldgosi verði stuttur líkt og í fyrri atburðum, en þá hefur fyrirvarinn verið frá 20 mínútum upp í rúma 4 tíma.
Áfram talin nokkur hætta á og við nýju hraunbreiðuna
Hættumat hefur verið uppfært og gildir til 16. september nema ef breyting verður á virkninni.
Breytingin frá fyrra hættumati er sú að stærð svæðis C, Vogar hefur verið breytt. Þar af leiðandi er hætta af jarðfalli ofan í sprungur ekki lengur tilgreind fyrir þetta svæði. Nýja hraunbreiðan er áfram í flokknum nokkur hætta (gulur litur).
Áfram unnið að greiningu og túlkun virkni í Krýsuvík
Skjálftavirkni heldur áfram vestur af Kleifarvatni en Krýsuvík og nærliggjandi svæði eru sögulega þekkt fyrir jarðskjálftavirkni en virknin síðustu misseri tengist einkum gikkskjálftum vegna kvikuinnskotanna undir Fagradalsfjalli og Sundhnúk. Í Krýsuvík mælist nú landsig. Svæðið hefur áður sýnt sveiflur þar sem land rís eða sígur, sem tengjast jarðhitakerfinu og mögulega kvikuhreyfingum neðanjarðar, en eftir að eldgos hófust við Svartsengi í júlí 2023 hefur sigið orðið hraðara en áður hefur mælst. Unnið er að frekari greiningu á virkninni, en engin gögn benda til þess að kvika sé að færast nær yfirborði í Krýsuvík.
Frétt frá 19. ágúst
Skjálfti í Brennisteinsfjöllum – hraðara sig í Krýsuvík og áframhaldandi kvikusöfnun í Svartsengi
Innistæða fyrir stærri skjálfta við Brennisteinsfjöll
Aflögun mælist á Krýsuvíkursvæðinu
Áframhaldandi landris við Svartsengi
Hættumatskort uppfært
Jarðskjálfti varð á suðvesturhorninu laust eftir klukkan 18 í gær, um 3,8 að stærð og fannst hann á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn varð í Brennisteinsfjöllum sem er virkt jarðskjálftasvæði. Síðan umbrotin hófust á Reykjanesskaga eða frá 2020 hefur orðið vart við aukna jarðskjálftavirkni á þessu svæði og er það til marks um aukna söfnun spennu í jarðskorpunni.
Hafa ber í huga að sterkir jarðskjálftar verða endurtekið á þessu svæði, en þó með löngu millibili, og alls óvíst hvenær þeir verða næst. Síðast urðu þeir M6,4 árið 1929 og M6,1 árið 1968. Síðan þá hafa byggingarstaðlar styrkst stöðugt með sífellt meiri kröfum til jarðskjálftahönnunar húsa. Þótt skjálftar af slíkum stærðum myndu hafa veruleg áhrif, svo sem grjóthruni í bröttum hlíðum og hreyfa við innanstokksmunum, er sjaldgæft að fólk slasist í jarðskjálftum hér á landi, og er það oftast vegna lausamuna.
Á jarðskjálftasvæðum er því gott að hafa reglulega í huga hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir hægt sé að gera til að minnka líkur á tjóni, huga að lausamunum s.s. að þungir hlutir séu ekki staðsettir yfir rúmum o.s.frv., ásamt því að rifja upp leiðbeiningar um viðbrögð í jarðskjálftum.
Upptök skjálfta í Brennisteinsfjöllum í gærkvöldi. Hann mældist 3,2 að stærð og fannst víða á höfuðborgarsvæðinu.
Þó nokkur skjálftavirkni hefur verið vestur af Kleifarvatni. Krýsuvík og nærliggjandi svæði eru einnig sögulega þekkt fyrir jarðskjálftavirkni en virknin síðustu misseri tengist einkum gikkskjálftum vegna innskotanna undir Fagradalsfjalli og Sundhnúk. Í Krýsuvík hafa mælst breytingar á landrisi og sigi. Svæðið hefur áður sýnt slíkar sveiflur. Enn er ekki komin fram einhlít skýring og frekari greiningar eru í gangi. Svæðið hefur áður sýnt slíkar sveiflur, en núna virðist aflögunin hraðari en áður.
Sérfræðingar fylgjast grannt með ástandinu. Gögn eru metin daglega og niðurstöðum miðlað áfram eftir þörfum.
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og er nú búinn ná svipuðum hraða og fyrir síðasta gos. Engin skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðan að gos hófst.
Myndin sýnir mælingar á lóðréttri hreyfingu jarðskorpunnar í Krýsuvík frá GPS-mælistöðinni KRIV frá árinu 2020. Fyrstu árin reis landið jafnt og þétt, en frá haustinu 2023 hefur það sigið. Eftir að eldgos hófust við Svartsengi í júlí 2023 hefur sigið orðið hraðara.
Á ferlinum sjást reglulegar sveiflur sem tengjast kvikuhreyfingum neðanjarðar. Frá síðasta sumri hefur sigið fylgt aukinni skjálftavirkni á svæðinu, sem er möguleg þegar kvika hreyfist til í jarðskorpunni og veldur spennubeytingum.
Til samanburðar eru notaðar InSAR-gervihnattamyndir, sem mæla smávægilegar yfirborðsbreytingar með því að bera saman myndir teknar á mismunandi tímum. Þær staðfesta sömu þróun og GPS-mælingarnar.
Hættumatskort fyrir svæðið hefur verið uppfært og gildir til 2. september ef ekkert breytist. Helsta breytingin er sú að nýja hraunbreiðan hefur verið færð niður í flokkinn nokkur hætta (gulan lit), líkt og eldri hraun.