Snjókoma á Suðvesturlandi – veðurspár og óvissa
Veðrið í byrjun vikunnar var mjög óvenjulegt. Mikið snjóaði á suðvestur hluta landsins um tíma og færð spilltist. Snjódýpt í veðurmælingareit Veðurstofunnar mældist 27 cm kl. 9 að morgni þriðjudagsins 28. október og 40 cm kl. 9 að morgni miðvikudagsins 29. október. Hvoru tveggja reyndust met snjódýptar í október í Reykjavík frá upphafi mælinga árið 1921.
Óvenjuleg veðurskilyrði og áhrif lítils fráviks
Svona veðurskilyrði eru þekkt en ekki mjög algeng. Þá myndast skil á milli kalds lofts og hlýrra lofts og úr verður mikil úrkoma, stundum í hægviðri. Tilfærsla á slíkum skilum þegar kemur að því að spá fyrir um stað- og tímasetningu skiptir sköpum, en 50 km tilfærsla getur haft mikil áhrif. Ekki síst þegar um snjókomu er að ræða í nágrenni þéttbýlis í október.
Í spám og veðurlíkönum dagana á undan var talsverð óvissa. Var óvissan fólgin í því hvar var spáð snjókomu eða slyddu en einnig hvað varðaði tímasetningu og staðsetningu. Fram eftir mánudegi leit út fyrir að mesta úrkoman félli síðdegis á þriðjudag og fram eftir kvöldi. Hélst sú óvissa fram eftir degi á þriðjudag, eða þar til veðurathuganir, veðurtungl og veðursjár sýndu hvað var að raungerast í veðrinu.
Viðvaranir uppfærðar eftir nýjustu gögnum
Gular viðvaranir voru gefnar út fyrir Faxaflóa, Suðurland og höfuðborgarsvæðið þar sem talað var um líkur á snjókomu eða slyddu, staðbundið talsverðri eða mikilli úrkomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og bent á að afleiðingar veðursins væru samgöngutruflanir t.d. á Hellisheiði og í Þrengslum. Gekk það eftir, en tímasetningu viðvörunarinnar var flýtt þegar ljóst var að bakkinn gengi á land fyrr en spár gerðu ráð fyrir.

Samsett mynd frá gervitungli og veðursjá sem sýnir stöðuna á veðrinu kl. 13:20 þriðjudaginn 28. október 2025. Á þessum tíma lá snjókomubelti yfir Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu og í norðaustur í átt að Holtavörðuheiði. Var úrkomusvæðið á leiðinni í austurátt. Úrkoman endurkastast með veðursjá sem er staðsett á Reykjanesi og er hér sýnd með bláum, grænum og gulum litum og var mest snjókoma þar sem græni og guli liturinn sést. Skýin eru sýnd með hvítum, gráum og appelsínugulum litum.
Veðurfræðingar fylgdust náið með þróun veðurs með aðstoð veðursjár, gervitungla og veðurathugana. Þannig er hægt að sannreyna og uppfæra textaspár og viðvaranir í rauntíma þegar veðrið breytist hratt, svokallað nowcasting. Þessi nálgun hjálpar til við að fínstilla upplýsingar þegar aðstæður eru óstöðugar og úrkoma breytileg milli staða.
Um tíma var gefin út appelsínugul viðvörun fyrir suðvesturhluta landsins en þegar leið á þriðjudaginn var hún færð niður á gula viðvörun, þar sem veðraskilin sem ollu mestu snjókomunni gengu hraðar yfir en gert hafði verið ráð fyrir og færðust austur með suðurströndinni og ollu þæfingsfærð á Suður- og Suðausturlandi.
Veðurhorfur næstu daga
Í dag og á morgun er gert ráð fyrir bjartviðri suðvestantil á landinu, en í öðrum landshlutum verða él eða snjókoma með köflum.
Á föstudaginn gengur svo í norðaustan hvassviðri eða storm og hlýnar með talsverðri rigningu austanlands. Heldur hægari með rigningu, slyddu eða snjókomu á laugardag, en styttir upp sunnan heiða á sunnudag. Hiti yfirleitt 0 til 8 stig.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur, mældi snjódýpt í mælireit Veðurstofunnar á Bústaðavegi klukkan 9 í morgun. Nýtt met fyrir snjódýpt í Reykjavík í október er 40 cm. Um 13 cm hafa bæst við þá 27 cm sem mældust í gærmorgun, sem var eldra metið.




