Fréttir

Appelsínugular viðvaranir vegna mikillar snjókomu á suðvesturhorni landsins

28.10.2025

Uppfært kl. 13.00

  • Talsvert hefur snjóað á SV-horni landsins.
  • Svæðisbundin snjóflóðaspá fyrir landshlutann hefur verið uppfærð í appelsínugulan.
  • Fólk hvatt til þess að fara varlega nálægt bröttum brekkum.

Talsvert hefur snjóað á SV-horni landsins. Áfram er spáð mikilli snjókomu í dag og hefur svæðisbundin snjóflóðaspá á SV-horninu verið uppfærð í appelsínugulan, sem þýðir töluverð snjóflóðahætta. Mikil óvissa hefur verið í veðurspám undanfarinn sólarhring, bæði hvað varðar tímasetningar og úrkomumagn. Nýjustu spár gera ráð fyrir mikilli úrkomu í kringum höfuðborgarsvæðið seinnipartinn og fram á nótt.

Dálítill snjór var fyrir til fjalla á SV-horninu og ekki er vitað hvernig nýi snjórinn binst við þann eldri. Í svona miklu nýsnævi gæti myndast veikleiki innan snjóþekjunnar eða hún loðað illa saman. Í dag og á næstu dögum má gera ráð fyrir hvassri NA-átt á köflum sem gæti myndað vindfleka, aðallega í SV-vísandi hlíðum, og aukið snjóflóðahættu enn frekar.

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar vill minna fólk á að hafa snjóflóðahættu í huga í dag og næstu daga. Þetta á við um fólk sem til dæmis ferðast í fjalllendi, hvort sem er fótgangandi, á skíðum, eða sleðum, eða börn að leik í bröttum hlíðum.

Hægt er að fylgjast með stöðunni á síðu snjóflóðavaktar Veðurstofunnar


Færsla frá kl. 10.00

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular veðurviðvaranir vegna mikillar snjókomu og skafrennings á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi síðar í dag.

Gera má ráð fyrir talsverðum samgöngutruflunum og erfiðri færð, sérstaklega þegar líður á daginn og fram á kvöld.

  • Faxaflói: Appelsínugul viðvörun tekur gildi kl. 14:00 og gildir til miðnættis.
    Norðan 10–15 m/s, mikil snjókoma og skafrenningur, einkum sunnantil á svæðinu.
  • Höfuðborgarsvæðið: Appelsínugul viðvörun frá kl. 17:00 til 00:00, mikil snjókoma eða slydda og líkur á talsverðum samgöngutruflunum.
  • Suðurland: Appelsínugul viðvörun frá kl. 16:00 til 00:00, víða snjókoma og hvassviðri með versnandi akstursskilyrðum.

Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám, tryggja öryggi á ferðum og leggja fyrr af stað heim ef ferðast þarf yfir Hellisheiði eða Reykjanesbraut þar sem snjókoman gæti aukist hratt síðdegis.

Frekari upplýsingar og uppfærðar viðvaranir má finna á vedur.is/vidvaranir

Hlekkur á viðvaranir á nýjum vef Veðurstofunnar sem er í þróun





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica