Persónuvernd

Persónuvernd á vedur.is

Öll meðferð og vinnsla persónuupplýsinga hjá Veðurstofu Íslands er í samræmi við persónuverndarstefnu Veðurstofunnar sem byggir á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Meðferð og úrvinnsla persónuupplýsinga á vedur.is

Vefsíða Veðurstofunnar safnar ekki sjálfkrafa persónugreinanlegum gögnum um notkun og notendur. Umferð um vefinn er mæld með Google Analytics, Siteimprove og Modernus, sem nota vafrakökur. Þessi tól eru notuð við vefmælingar. Þau safna upplýsingum við hverja innkomu á vefsíðuna, þ.e. dagsetningu og tíma, hvernig notandinn fer inn á vefsíðuna, hvaða vafra og tæki hann/hún notar. Einnig er skoðað hvort notað sé leitarorð.

Veðurstofan notar þessa þjónustu einnig til þess að huga að gæðum á vefnum, svo sem til að finna innsláttarvillur og brotna hlekki. Þessi gögn veita mikilvæga innsýn í hvernig við getum þróað vefinn og bætt virkni hans miðað við þarfir notenda en upplýsingar sem Veðurstofan aflar eru ekki persónugreinanlegar.

Innsend gögn

Þegar notandi sendir okkur almenna fyrirspurn í gegnum vefform er beðið um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að við getum svarað fyrirspurninni (á borð við nafn, netfang og símanúmer). Það sama á við ef fyrirspurn er send með tölvupósti.

Eftir að almenn fyrirspurn hefur borist er unnið með upplýsingarnar í samræmi við persónuverndarstefnu Veðurstofunnar.

Milliliður í móttöku fyrirspurna er vefkerfi þjónustuaðila okkar sem hýst er í skýjalausn innan Evrópu [á vefþjóni staðsettum á Íslandi]. Innsendum gögnum er eytt úr vefkerfinu innan 180 daga og þar fer ekki fram nein frekari söfnun eða úrvinnsla gagna. Fyrirspurnir eru vistaðar í skjalavörslukerfi Veðurstofunnar á vefþjóni staðsettum á Ísland og skilað til Þjóðskjalasafns til varðveislu í samræmi við lög um opinber skjalasöfn. 

Þegar notandi sendir okkur tilkynningu um jarðskjálfta, vatnsflóð, veðurfyrirbrigði eða snjóflóð er beðið um upplýsingar um tilkynnanda og eru þær upplýsingar geymdar í gagnagrunni Veðurstofunnar til frambúðar en unnið er með upplýsingarnar í samræmi við persónuverndarstefnu Veðurstofunnar.

Þegar óskað er eftir veðurvottorði er auk ofangreindra upplýsinga óskað eftir kennitölu til þess að hægt sé að senda reikning á beiðanda.

Persónuverndarfulltrúi

Hlutverk persónuverndarfulltrúa er að upplýsa viðkomandi stofnun eða fyrirtæki og starfsmenn þeirra um skyldur samkvæmt persónuverndarlögum, sinna þjálfun starfsfólks, framkvæma úttektir, veita ráðgjöf og vera til staðar komi upp álitaefni á sviði persónuverndar. Persónuverndarfulltrúi tekur jafnframt á móti fyrirspurnum og beiðnum frá þeim einstaklingum sem verið er að vinna með upplýsingar um. Þá skal persónuverndarfulltrúinn vera tengiliður við Persónuvernd og vinna með henni, sem og fylgjast með því að farið sé að persónuverndarlögum.

Persónuverndarfulltrúi er Hrafnhildur Valdimarsdóttir. Hægt er að hafa samband með því að hringja í síma 522-6000 eða senda tölvupóst á netfangið personuvernd@vedur.is.

Varnir gegn ruslpósti (e. spam)

Á þeim vefformum þar sem notandi getur sent inn upplýsingar höfum við virkjað sjálfvirka vörn gegn ruslpósti, svokallaða ReCAPTCHA virkni frá Google. Notendur gætu orðið varir við hana á þann hátt að þeir verði beðnir að leysa verkefni sem erfitt er fyrir forritaða sjálfvirkni að leysa.ReCAPTCHA aflar upplýsinga um vafra og vafranotkun og greinir þær til að meta hvort um er að ræða raunverulega notendur eða forritaða sjálfvirkni. 

Þessi virkni ReCAPTCHA fellur strangt til tekið undir skilgreiningar persónuverndarlaga, en þær upplýsingar sem berast Google eru nafnlausar og innihalda ekki nein gögn sem notandi hefur slegið inn í viðkomandi form.Þessar varnir hafa reynst nauðsynlegar til þess að hægt sé að bjóða upp á formainnsendingu á vefnum. 

Vilji notendur ekki undirgangast þá virkni sem ReCAPTCHA felur í sér er þeim bent á að senda okkur upplýsingar í tölvupósti í staðinn.


Nýjar fréttir

Síðasti vetrardagur er í dag

Íslenski veturinn, frá fyrsta vetrardegi 28. október 2023 til og með 24. apríl 2024 var kaldur. Meðalhiti á landsvísu var -0,2 stig sem er, -1,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Íslenski veturinn hefur ekki verið eins kaldur síðan veturinn 1998-99. Að tiltölu var kaldara á norðanverðu landinu. En veður var almennt gott. Það var hægviðrasamt og illviðri tiltölulega fátíð. Veturinn var óvenjulega þurr og sólríkur suðvestanlands og er veturinn sá sólríkasti í Reykjavík frá upphafi mælinga.

Lesa meira

Eldgosið við Sundhnúksgíga heldur áfram

Uppfært 23. apríl kl. 14:50

Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk, eins og hefur gert frá 5. apríl. Líkt og áður rennur hraun stutta vegalengd í opinni hraunelfur til suðurs frá gígnum en lengra í lokuðum rásum. Sá hluti hraunbreiðunnar sem liggur meðfram varnargörðum austan Grindavíkur hefur þykknað undanfarna daga eins og meðfylgjandi hreyfimyndir sýna. Myndirnar sýna muninn hraunbreiðunni á milli 18. og 23. Apríl. Efri myndirnar eru úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Neðri myndirnar eru einnig úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs.


Lesa meira

Árið 2023 var ár andstæðna í Evrópu

Evrópa er ekki undanskilin þegar kemur að afleiðingum loftslagsbreytinga. Hlýnun mælist hröðust í Evrópu, en hiti álfunnar hækkar tvöfalt á við hnattræna hlýnun. Árið 2023 mældist hiti í Evrópu 1,0 °C hærri en meðalhiti viðmiðunartímabilsins 1991-2020 og 2,6 °C hærri en fyrir iðnbyltingu. Ársmeðalhiti var yfir meðallagi í nær allri álfunni árið 2023, ef frá eru talin Skandinavía, Ísland og suðausturhluti Grænlands.

Lesa meira

Mánuður liðinn frá upphafi fjórða eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni

Í dag er liðinn einn mánuður frá upphafi eldgossins sem nú er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni. Eldgosið, sem hófst að kvöldi 16. mars, er það fjórða frá því að kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023. Eldgosið nú hefur staðið lengst allra eldgosanna á Sundhnúksgígaröðinni í þessari hrinu eldgosa og næstlengst þeirra gosa sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðan 2021. Einungis fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í mars 2021 er lengra, en það stóð yfir í um 6 mánuði.

Lesa meira

Tíðarfar í mars 2024

Mars var sólríkur, þurr og tiltölulega hlýr á suðvestanverðu landinu. Það var kaldara og úrkomusamara á norðanverðu landinu. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi stóran hluta mánaðarins. Töluverð snjóþyngsli voru á norðan- og austanverðu landinu í lok mánaðar, auk hvassviðris sem ollu þónokkrum samgöngutruflunum. Nokkur fjöldi snjóflóða féll í þessum landshlutum.
Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica