Útfærsla vefsins

Útfærsla vefsins

Kröfugreining, viðmótshönnun, útlitshönnun, vefun, forritun og uppsetning

Um verkefnisstjórnun, kröfugreiningu, viðmótshönnun og útfærslu á ýmsum hlutum vefsins sá Helgi Borg. Um útlitshönnun og vefun sá Hugsmiðjan. Fjölmargir starfsmenn Veðurstofunnar komu að auki að útfærslu vefsins.

Kröfugreining

Vefur VÍ er að mörgu leyti frábrugðinn flestum öðrum vefum. Á honum er mikið af kvikum gögnum. Notendur eru breiður hópur og eru margir háðir gögnum á vefnum. Vefurinn er mikilvægur út frá öryggissjónarmiðum. Af þessum sökum og fleirum var ákveðið var að vinna ítarlega kröfugreiningu í upphafi verkefnisins.

Kröfugreiningin (pdf 4,4 Mb) byggist á niðurstöðum viðhorfskönnunar hjá notendum vefsins, hugmyndafundum með starfsmönnum VÍ, fundum vinnuhópa o.fl. Helgi Borg ritaði kröfugreininguna og vefteymi VÍ rýndi skjalið. Í vefteyminu á þessum tíma voru: Einar Sveinbjörnsson, Gunnar B. Guðmundsson, Halldór Björnsson, Sigrún Karlsdóttir og Þórður Arason.

Hönnun

Viðmót

Við viðmótshönnun vefsins þurfti að hafa í huga að vefurinn þjónar margvíslegum hópum notenda. Sem dæmi þarf hann að þjóna jafnvel fólki sem ekki er vel tölvulæst og notar vefinn sjaldan, sem og vel tölvulæsum sérfræðingum sem nota vefinn daglega eða oftar atvinnu sinnar vegna. Einnig þarf hann að standast aðgengisvottun til að tryggja að hann nýtist sem best blindum, sjónskertum og öðrum fötluðum.

Nokkrar helstu ákvarðanir voru að:

  • Hafa í heiðri lögmál sem skapast hafa um vefnotkun á undanförnum árum, þ.á m. að velja 2-3 dálka hefðbundna uppsetningu.
  • Útfæra fyrst einfalt og skýrt viðmót, öllum aðgengilegt, fyrir helstu gögn. Bæta síðar við sérhæfðara og flóknara viðmóti á ákveðin gögn, þegar og ef þörfin kemur upp.
  • Útfæra staðaspár- og veðurathugunarsíður þannig að þær séu nægjanlega léttar til að virka um gprs-samband.
  • Nota dhtml til að útfæra vafravirkni. Möguleikarnir voru flash eða dhtml. Einungis dhtml kom til greina vegna aðgengisvottunarinnar.

Um viðmótshönnunina sá Helgi Borg.

Útlit

Arnar Ólafsson hjá Hugsmiðjunni var fenginn til að hanna útlit vefsins. Hann vann út frá skissum úr kröfugreiningunni og viðmótshönnuninni. Nokkur drög fóru fram og til baka. Í ákveðnum tilfellum stangaðist flott útlitshönnun á við nytsemissjónarmið og var þá nytsemin ávallt látin ráða för. Markmiðið í útlitshönnuninni var að ná fram snyrtilegu og lágstemmdu útliti þar sem nytsemi vefsins er í fyrirrúmi og gögnin fá notið sín sem best.

Arkitektúr

Ákveðið var að nota Eplica vefumsjónarkerfið. Það er Java-kerfi og því voru kvikar (en: dynamic) einingar skrifaðar í Java. Ákveðið var að nota Servlet með MVC-högun til þess að geta flutt einingarnar síðar yfir í Portlettur (JSR168) þegar og ef með þarf.

Í verkefninu var útfærð talsverð gagnamiðlun og -lógík sem nýtist einnig öðrum kerfum. Ákveðið var að flytja þessa vinnslu út fyrir einingarnar og setja í vefþjónustur. SOA (service oriented architecture) hentar mjög vel hjá VÍ þótt það hafi ekki áður verið notað á Veðurstofunni.

Arkitektúr
Myndin sýnir yfirlit um arkitektúrinn. Talsverð lógík er útfærð í dthml (virkni í vafra). Kvikar einingar eru útfærðar með MVC-högun í servlettum. Gagnamiðlun og lógík sem getur nýst öðrum kerfum innanhúss og utan, er útfærð í SOAP vefþjónustum.

Útfærsla og uppsetning

Vefun

Borgar Þorsteinsson hjá Hugsmiðjunni sá um vefun á öllum grunnsíðum. Hugsmiðjan hefur talsverða reynslu af vefun fyrir gott aðgengi blindra og sjónskertra sem er forsenda aðgengisvottunar vefsins. Helgi Borg vefaði viðbætur fyrir ýmsar kvikar síður.

DHTML-forritun

Prototype.js og Script.aculo.us söfnin voru notuð við dhtml forritunina. Flóknasta dhtml-virknin er í staðaspám- og veðurathugunarsíðunum. Í stað þess að birta bitmap-kort fyrir hvern gildistíma eru veðurupplýsingar lagðar ofan á Íslandskort með dhtml. Þetta veldur því að síðurnar eru nothæfar yfir gprs-samband. Helgi Borg sá um dhtml-forritun fyrir vefinn.

Vafrar

Miðað var við að vefunin og dhml-virknin birtist rétt í Internet Explorer 7, Internet Explorer 6, Firefox 1.5, Firefox 2, Opera 9 og Safari 2.0.4. Í Opera og Safari eru nokkrir smávægilegir hnökrar sem ekki var reynt að laga.

Miðlaraforritun

Einingar og vefþjónustur byggjast á Servlettum með MVC högun. Vefþjónusturnar byggjast á Axis-safninu. Gagnagrunnsvinnsla í vefþjónustum byggist á iBatis-safninu.

Um útfærslu á sértækum einingum fyrir flugveðursíður sáu Einar Örn Ólason og Hörður Þór Sigurðsson. Um útfærslu á öðrum einingum sá Helgi Borg.

Um útfærslu á veðurvefþjónustu sáu Helgi Borg, Kristján Guðni Bjarnason og Garðar Þór Magnússon. Um útfærslu á flugveðurvefþjónustu sá Einar Örn Ólason. Um útfærslu á ofanflóðavefþjónustu sá Hörður Þór Sigurðsson.

Útfærsla á kvikum myndum

Sæunn Halldórsdóttir sá um að útfæra myndir fyrir veðurþáttaspár, atlantshafsspár, skýjahuluspár og athuganir frá veðurtunglum og veðursjá. Þessar myndir eru framleiddar í Visual Weather kerfi Veðurstofunnar.

Einar Örn Ólason útfærði veðurspárit og jarðskjálftarit. Gunnar Gunnarsson útfærði jarðskjálftarit. Einnig eru birt ýms gröf og myndir sem Þórður Arason hefur útfært og birtast einnig á eldri vef.

Viðmótsprófanir

Nokkrar meginsíður vefsins voru viðmótsprófaðar. Þrír 3-4 manna hópar voru notaðir á milli þess sem vankantar sem komu í ljós voru lagfærðir. Aðferðafræðin úr Don’t make me think var höfð til hliðsjónar. Um prófanirnar sá Helgi Borg.

Uppsetning

Um uppsetningu á hefðbundnum greinum, texta og myndum sáu Elín Björk Jónasdóttir, Guðrún Pálsdóttir og Sigþrúður Ármannsdóttir.

Um uppsetningu á hefðbundnum Eplica-einingum sáu Elín Björk Jónasdóttir og Hugsmiðjan.

Um uppsetningu á vélum og miðlurum sáu Hilmar Ævar Hilmarsson og Einar Indriðason. Um uppsetningu á Eplica sá Hugsmiðjan.

Garðar Þór Magnússon sá um að raða inn veðurstöðvum á staðarspá- og athugunarkort.

Aðgengisvottun

Jafnframt því sem unnið var að útfærslu vefsins var hugað að því að gera hann aðgengilegan. Það var Sigrún Þorsteinsdóttir hjá Sjá sem sá um úttekt vegna aðgengisvottunarinnar.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica