Fréttir

Greining: Loftslagsbreytingar gerðu hitabylgjuna í maí líklegri og heitari

11.6.2025

Í maí 2025 gekk óvenjumikil hitabylgja yfir Ísland og austurhluta Grænlands. Þann 15. maí mældust 26,6°C á Egilsstaðaflugvelli sem er nýtt hitamet í maímánuði. Hitamet voru einnig slegin á fjölmörgum öðrum veðurstöðvum og hitinn fór sums staðar allt að 13 gráðum yfir meðaltal mánaðarins miðað við tímabilið 1991–2020.

Hitabylgjan stóð yfir í um níu daga og þótt svipaðar veðuraðstæður hafi sést áður þótti þessi sérstaklega eftirtektarverð vegna þess hve snemma hún kom, hversu lengi hún stóð og hversu víðtæk áhrifin urðu.

Alþjóðlegur hópur vísindamanna innan World Weather Attribution, þar á meðal frá Veðurstofu Íslands, Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum, hefur birt greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum á þessa hitabylgju. Greiningin beinist sérstaklega að sjö heitustu dögunum í maí á Íslandi.

Niðurstöður greiningarinnar sýna að loftslagsbreytingar af mannavöldum gerðu slíka hitabylgju um fjörutíu sinnum líklegri og að meðaltali um þrjár gráður heitari en hún hefði annars orðið. Þótt nokkur óvissa fylgi slíku mati telja vísindamenn verulegar líkur á að loftslagsbreytingar hafi bæði aukið líkur á atburðinum og magnað hann.

Greiningin byggir á samanburði mælinga frá hitabylgjunni í maí og niðurstaðna úr loftslagslíkönum. Þá sýna líkön einnig að ef hnattræn hlýnun nær 2,6°C á þessari öld, gætu slíkar hitabylgjur orðið að minnsta kosti tvöfalt algengari og að meðaltali tveimur gráðum heitari en þær eru í dag.

Við núverandi loftslag, sem hefur hlýnað um 1,3°C frá iðnbyltingu, eru líkur á slíkri hitabylgju taldar um 1% á ári, sem samsvarar því að svona atburður eigi sér stað að jafnaði einu sinni á hundrað ára fresti. Fyrir þann tíma hefði slíkt veðurfyrirbrigði verið afar fátítt, með endurkomutíma sem er lengri en byggðarsaga Íslands nær yfir.

Greiningu vísindahópsins má nálgast hér

Nánar um veðuratburðinn sjálfan á vef Veðurstofunnar







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica