Vatnið
Veðurstofa Íslands 90 ára
Starfsemi Veðurstofu Íslands tengist mikið hringrás vatnsins. Þar er spáð fyrir um úrkomu, úrkoma mæld, mælt afrennsli vatns af landi, fylgst með þróun jökla, metin hætta og viðhafður viðbúnaður vegna snjóflóða, rekið viðvörunarkerfi vegna flóða og forvarnir vegna aurskriða. Fylgst er með grunnvatnsstöðu í borholum og vatnshæð stöðuvatna, lóna og settjarna. Efnisflutningur jökuláa er rannsakaður. Rekið er sjálfvirkt mælakerfi um 160 vatnshæðarmæla og 140 veðurstöðva um allt land til þess að afla upplýsinga sem leggja grunn að þessari vinnu. Mælarnir eru flestir í fjarskiptasambandi við Veðurstofu Íslands.
Þáttur Veðurstofunnar snýr einkum að magni og hreyfingu vatnsins á yfirborði. Mælingarnar nýtast þeim sem reikna og rannsaka grunnvatnsstrauma; uppruni áa og lækja er greindur og fram kemur stöðuorka vatnsins og hugsanleg tækifæri til virkjunar. Í fórum Veðurstofu Íslands eru langar gagnaraðir um veðurþætti og vatnsrennsli. Veðurgögnin spanna lengri tíma en rennslisraðirnar, en árið 1924 var fyrst farið að lesa rennsli samfellt af kvarða við Elliðaár í Reykjavík. Hægt er að lengja rennslisraðir aftur í tímann með talsverðri nákvæmni út frá veðurgögnum. Rennslisraðir og grunnvatnsmælingar segja til um vatnsbúskap landsins og afhjúpa breytingar á honum. Til að mynda kemur rýrnun jökla fram sem aukið rennsli í jökulám. Samspil er milli úrkomu, vindátta og rennsli áa í einstökum landshlutum.
Vatnsmagn
Úrkoman er sá þáttur sem erfiðast er að mæla. Það rignir og snjóar, bæði lárétt og lóðrétt, og landslag veldur miklu um hvar úrkoman lendir. Úrkomumælir í einum punkti gefur því takmarkaðar upplýsingar um vatnsmagn. Mælt afrennsli af landi gefur vísbendingu um dreifingu úrkomunnar. Ísland er 103.000 km2 og er yfirborðsafrennsli ferskvatns um 5000 m3/s. Allt að 1000 m3/s í viðbót renna til sjávar sem grunnvatn. Hinn ungi gropni berggrunnur gosbeltanna á sinn þátt í því hve miklu fersku grunnvatni er hægt að dæla upp á Íslandi. Jöklar bregðast meira við loftslagsbreytingum en flestir aðrir þættir vatnafræðilegra kerfa vegna þess að þeir geyma uppsafnaðan 'forða' af fyrra loftslagi sem breytingar í veðurfari geta gengið á eða aukið við.
Vænta má verulegra breytinga á afrennsli Íslands ef spár um hlýnandi loftslag ganga eftir. Meðfylgjandi myndir sýna reiknaðar breytingar á afrennsli af yfirborði Íslands vegna veðurfarsbreytinga (Árni Snorrason, 2007):
Sölt í snjó á yfirborði jökla skolast út þegar hluti hans bráðnar á sumrin. Sá snjór sem eftir situr og síðar breytist í ís er því mjög efnasnauður, enda er sá ís sem skilar sér með skriðjöklum niður á láglendi eitthvert hreinasta form vatns í náttúrunni að vatnsgufu undanskilinni. Það vatn sem nú er bundið í jöklum er 130 þúsund sinnum meira en Orkuveita Reykjavíkur notar á einu ári.
Neysluvatn
Þriðjungur þeirrar úrkomu sem fellur á meginlöndin skilar sér með straumvötnum og grunnvatni til sjávar. Á Íslandi er uppgufun hlutfallslega lítil en grunnvatnsstreymi, sem er 20% afrennslis, er mikill fjársjóður miðað við það að í mörgum löndum er grunnvatnsstreymi metið 1% afrennslis. Þegar vatn hefur sitrað í gegnum jarðlög í 30 til 40 daga án snertingar við loft og án sólarljóss er það talið orðið bakteríusnautt. Víðast á Íslandi telst mögulegt að afla drykkjarvatns beint úr grunnvatni. Þó eru til þéttbýlisstaðir á blágrýtissvæðum þar sem notað er vatn úr ám sem eru dragár að hluta og vatnið hreinsað. Umgengni á vatnstökusvæðum Íslendinga skiptir meira máli í hringrás vatnsins en vatnsmagnið sem notað er. Hins vegar veldur óþarfa vatnsrennsli í veitukerfum orkunotkun við dælingu og kallar á kostnað, rask og framkvæmdir við vatnsveitur.
Til þess að glöggva sig á ólíkum aðstæðum þeirra sem leysa eiga vatnsmál byggðarlaga má taka sem dæmi að meðalrennsli árinnar Thames í London er 78 m3/s eða um einn fimmti af meðalrennsli Ölfusár. Á vatnasviði Thamesár búa 13 milljónir manna og þar að auki er mikil umferð ferðamanna. 80% af kranavatni borgarinnar kemur úr Thames og 20% úr grunnvatni. Hreinsikerfi í hringrás náttúrunnar nægir engan veginn við þessar kringumstæður, beita þarf nútímavísindum og tækni til þess að hreinsa vatnið.
Fleiri afmælisgreinar
Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.