Greinar

Grímsvötn

5.11.2010

Grímsvatnahlaupi að ljúka - skráð 5.11.2010 kl. 17:55

Hlaupinu úr Grímsvötnum er nú að ljúka. Rennslið náði hámarki um miðjan dag, miðvikudaginn 3. nóvember. Sjá ítarlega umfjöllun í frétt á forsíðu.

Litlar breytingar eru á óróa á skjálftamælinum á Grímsfjalli frá því í gær. Rennsli í Gígjukvísl fer hægt minnkandi. Engin merki um gosóróa sjást á mælum og engin merki um eldgos.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar frá kl. 17:00. Ekki verða gefin út fleiri sameiginleg minnisblöð að sinni en áfram fylgst vel með stöðunni.

Stöðumat 4. nóv. - skráð 5.11.2010 kl. 11:30

Minnkandi órói var í gær á skjálftamælinum á Grímsfjalli. Hámarksrennsli í Gígjukvísl var í fyrradag milli kl. 13 og 14. Rafleiðni þar mældist enn yfir 500 μS/cm í gær. Engin merki um gosóróa sjást á mælum og engin merki um eldgos. Vel er fylgst með framvindunni.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar frá kl. 17:00 í gær.

Jökulhlaupið séð úr lofti 3. nóvember

Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans flugu yfir Grímsvötn og Skeiðarársand með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, um það leyti sem Grímsvatnahlaupið var í hámarki. Að neðan eru nokkrar myndir úr þessu flugi og skýringar við þær. Ljósmyndir tóku Matthew J. Roberts og Egill Axelsson, Veðurstofu Íslands.

Skeiðarárjökull
jökulhlaup
Aurugt hlaupvatnið streymir meðfram jaðri Skeiðarárjökuls. Myndin er tekin miðsvæðis yfir jökulsporðinum kl. 13:06, miðvikudaginn 3. nóvember 2010.
Skeiðarárjökull
jökulhlaup
Jökulhlaupið við jaðar Skeiðarárjökuls kl. 13:07 þann 3. nóvember. Vatnið fellur t.v. um skarð í setbunka sem myndaðist í stórhlaupinu í nóvember 1996. Settist setið þá til í gljúfri, sem hlaupið 1996 gróf í jökulísinn.
Skeiðarárjökull
jökulhlaup
Hlaupvatnið kemur upp á nokkrum stöðum undan sporði Skeiðarárjökuls austanverðum, safnast í lón við jökuljaðarinn og streymir síðan í farveg Gígjukvíslar. Myndin er tekin kl. 13:07 þann 3. nóv.
Brúin á Gígjukvísl
jökulhlaup
Brúin á Gígjukvísl séð úr suðaustri nærri hámarki jökulhlaupsins kl. 13:09 þ. 3. nóvember 2010. Fallið mastur er í miðjum farveginum, sem féll er ísjaki rakst á það tveim dögum fyrr.
Brúin yfir Gígjukvísl
jökulhlaup
Brúin á Gígjukvísl úr norðaustri kl. 13:13 þann 3. nóvember. Varnargarðurinn til vinstri á myndinni leiðir til vatnssöfnunar þeim megin vegarins.
Á Grímsfjalli
jökulhlaup
Flugmynd af austasta hluta Grímsfjalls kl. 13:25 þann 3. nóvember 2010. Á mörkum jökulíss og bergs má sjá greinileg merki um að jökulhella Grímsvatna hafi sigið við hlaupið. Ætla má að vatnið hafi streymt frá þessu svæði undan íshellunni, meðfram austurjaðri Grímsfjalls og síðan um 50 km leið undir jöklinum niður á Skeiðarársand.

Stöðumat - skráð 3.11.2010 kl. 18:05

Vatnsrennsli heldur áfram að vaxa í Gígjukvísl. Rafleiðni hefur aukist bæði í Gígjukvísl og Súlu. Hlaupið hefur líklega náð hámarki. Hlaupórói eykst á skjálftamælinum á Grímsfjalli vegna breytinga á vatnsrennsli.

Engin merki um gosóróa sjást á mælum og engin merki um eldsumbrot sáust í flugi Landhelgisgæslunnar yfir Grímsvötnum eftir hádegi, en ís virtist hafa hrunið í einum sigkatli við Grímsfjall. Vel er fylgst með framvindunni.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar frá kl. 17:00.

Aukið rennsli - skráð 3.11.2010 kl. 09:25

Rennsli var mælt í Gígjukvísl síðdegis í gær og gaf mælingin 1650 m3/s. Vatnshæð við brúna yfir Gígjukvísl hækkaði um 40 cm í nótt og fer enn vaxandi. Um kl. 2:30 í nótt mældist smáskjálfti og órói jókst snögglega á stöðinni við Grímsfjall í kjölfar hans og hefur haldið áfram á hærri styrk. Engin breyting hefur orðið á öðrum stöðvum og það bendir til þess að ekki sé um gosóróa að ræða.

Staðan síðdegis í gær - skráð 3.11.2010 kl. 08:15

Vatnshæðarnemi við Gígjukvísl komst í lag kl. 16 í gær. Vatnsrennsli heldur áfram að vaxa í Gígjukvísl. Rafleiðni hefur aukist töluvert. Það bendir til þess að jarðhitavatn sé í ánni. Aukin rafleiðni mælist í Súlukvísl. Hlaupórói eykst á skjálftamælum. Engin merki um gosóróa sjást. Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 16:00 í gær.

Bilun í vatnshæðarnema - skráð 2.11.2010 kl. 16:00

Upp úr hádegi í dag komu fram miklar sveiflur í vatnshæðarferli í Gígjukvísl. Orsök þessa er bilun í vatnshæðarnema og verður hann lagaður eins skjótt og auðið er.

Lesa má um vatnshæðarmælakerfið á undirsíðum Vatnafars, svo og vöktunarkerfi flóða og hlaupa.

Mælingar - skráð 2.11.2010 kl. 11:50

Enn eykst rennsli úr Grímsvötnum en þó virðist sem dregið hafi úr vaxtarhraðanum. Rennsli var mælt í Gígjukvísl kl. 9:30 í morgun og gaf mælingin 1200 m3/s. Aukin rafleiðni í Súlu bendir til þess að þar sé farið að renna jarðhitavatn, en ekki mikið.

Þess má geta að skrifuð var skýrsla um rennsli, aurburð og efnamælingar í Skeiðarárhlaupi haustið 2004.

Stöðuskýrsla 1.11. kl. 17:00 - skráð 2.11.2010 kl. 08:15

Í gær var skrifað sameiginlegt minnisblað Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans um hlaupið úr Grímsvötnum. Í henni kemur fram að síðdegis í gær, eða kl. 16:00, mældist rennslið við brúna yfir Gígjukvísl 627 m3/s. Rafleiðni hefur vaxið samhliða vexti í rennsli, eða frá 180 μS/cm upp í 320 μS/cm.

GPS mælingar hafa sýnt hægt vaxandi þenslu undir eldstöðinni síðan 2004. Erfitt er að meta lóðréttar hreyfingar vegna ísbráðnunar. Láréttar hreyfingar sýna svipaða þenslu og var fyrir gosið 2004. Hraði láréttra hreyfinga hefur aukist síðustu mánuði.

Engin merki um gosóróa sjást. Sjá nánar í minnisblaðinu.

Um farvegina og lónin - skráð 1.11.2010 kl. 16:20

Sumarið 2009 flutti Skeiðará sig úr sínum gamla farvegi undan Skaftafellsbrekkum og rennur nú vestur með jaðri Skeiðarárjökuls í farveg Gígjukvíslar. Þess vegna er líklegt að nýhafið hlaup úr Grímsvötnum í Vatnajökli fari í þessa nýju rás og móti farveginn að verulegu leyti því að hann er mun brattari á kafla en hinn gamli farvegur Skeiðarár.

Stöðuvötn og lón sem myndast hafa framan við Skeiðarárjökul á undanförnum árum munu að líkindum fyllast að nokkru eða alveg af aurburði hlaupsins.

Hlaup úr Grímsvötnum - skráð 1.11.2010 kl. 11:25

Staðfest var í gær, 31. október, að hlaup var hafið í Gígjukvísl. Rennslið í kvíslinni hefur aukist stöðugt. Milli kl. 14:00 og 15:00 í gær mældist rennslið 143 m3/s og rann þá undir einu brúarhafi. Milli kl. 09:00 og 10:00 í morgun, 1. nóvember, rann undir 4-5 brúarhöfum og rennslið var 455 m3/s.

Vatnsmælir við Gígjukvísl sýnir að vatnsborð árinnar hefur hækkað rétt um metra frá því kl. 14:00 í gærdag. Vatnshæðin segir ekki allt því vatnið dreifir úr sér og skiptir um farvegi.

Rafleiðni hefur aukist töluvert. Það bendir til þess að jarðhitavatn sé í ánni. Vatnshitinn sveiflast ekki meir en venjulegt er. Hitinn á vatninu, þegar það kemur undan jöklinum, er við frostmark.

Aðfaranótt sunnudags varð jarðskjálfti, 3,0 að stærð undir Grímsfjalli í Vatnajökli. Engir stórir jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu í nótt og morgun.

Hlaup úr Grímsvötnum eru algeng. Gos varð í Grímsvötnum árið 2004 og var ítarleg umfjöllun um framvinduna birt á vef Veðurstofunnar, einnig á ensku. Á vefsetri Veðurstofunnar er líka að finna almennari umfjöllun um eldgos.

Gígjukvísl
línurit
Vatnshæð, hiti og rafleiðni í Gígjukvísl frá kl. 14:00 31. október til kl. um 09:00 1. nóvember 2010. Eins og sjá má á myndinni hækkar vatnsborðið á mælistaðnum um nálega 1 metra á tímabilinu. Einnig eykst rafleiðnin töluvert. Hitabreytingar eru eðlilegar með tilliti til úrkomu og mismunandi hita dags og nætur. Hitinn á vatninu, þar sem það kemur undan jöklinum, er við frostmark.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica