Vindatlas fyrir Ísland

Vindatlas fyrir Ísland

Opnun

Vindatlasinn var opnaður 25. nóvember 2014, sjá frétt og streymi af fundi með fulltrúum DTU, Landsvirkjunar og Orkustofnunar.

Vindatlas

Útbúið hefur verið vefviðmót fyrir vindatlasinn. Þegar það er opnað birtist Íslandskort þar sem hægt er að þysja inn og reiknipunktar vindatlasins koma í ljós, hver með sinni vindrós, og hægt er að velja punkt. Upplýsingar um hann birtast til hliðar: Hnit staðsetningar, vindrós og línurit sem sýnir tíðni sem fall af vindhraða (Weibull dreifing). Stillanlegir skalar fyrir hrýfi og hæð sýna hvaða áhrif þessir þættir hafa. Einnig má sækja gögnin á töflu- eða skýrsluformi.

Sömu upplýsingar eru í skýrslunum og töflunum en á meðan töflurnar eru hreinar textaskrár, innihalda skýrslurnar meðal annars vindrós, Weibull dreifingu og samantektir.

Textaskrárnar er hægt að opna í hvaða ritli sem er og teikna upp með því teikniforriti sem notandi þekkir best. Til að fá svipaða framsetningu og er í vindatlasskýrslunum má t.d. hlaða niður ókeypis útgáfu forrits frá WAsP í Danmörku. Með þeirri útgáfu er hægt að sjá alhæfa vindafarið frá reiknipunktinum í einfaldri töflu fyrir mismunandi hæð frá yfirborði og mismunandi hrýfislengd. Einnig er tíðni vindátta og Weibull dreifing teiknuð upp.

Fyrir mat á vindorku á tilteknu svæði þarf að gera útreikninga með jaðarlagslíkani, t.d. WAsP, WindPro eða Windfarmer, þar sem tekið er tillit til m.a. hæðar yfir sjávarmáli, yfirborðsgerðar og hindrana í landslagi. Þessháttar útreikningar kallast niðurkvörðun. Þeir gefa nákvæmara mat á staðbundnu vindafari og eru þess vegna mikilvægir fyrir vindorkumat og alla undirbúningsvinnu. Í þeim tilvikum þarf að kaupa vindorkulíkan.

Þeir sem þekkja lítið til jaðarlagsforrita ættu að biðja vindorkusérfræðinga um aðstoð við útreikninga og túlkun niðurstaða. Einnig ber að hafa í huga að þó að íslenski vindatlasinn gefi vissulega góða mynd af vindafari á Íslandi í reiknineti með 3 km möskvastærð þá kemur hann ekki í stað hefðbundinna vindmælinga.

Nánari lýsing á vindafarstöflum

Hvort sem skoðað er alhæft vindafar eða niðurstöður vindmælinga á veðurstöð, má yfirleitt lýsa dreifingu vindhraða með svokallaðri Weibull dreifingu. Þessi dreifing er háð tveimur stikum, skölunarstikanum A sem lýsir tíðniútslagi dreifingarinnar (og hefur einingar vindhraða) og einingarlausa lögunarstikanum k sem lýsir lögun dreifingarinnar (og með því hversu mikill munur er á mesta vindi og meðalvindi). Á vefsvæði vindatlasins er hægt að hlaða niður skýrslum (pdf) og hreinum töflum (textaskrár með .lib endingu) fyrir hvern hnútpunkt í möskva reikninets RÁV verkefnisins. Í þessum skrám eru Weibull stikar fyrir 12 vindáttir, 5 mismunandi hæðir frá yfirborði og 5 mismunandi hrýfisflokka. Dæmi um slíka töflu má sjá á mynd 1.


Mynd 1. Hluti af vindatlas gagnaskrá (.lib) með skýringartexta. Sjá frekari skýringar í meginmáli.

Hver skrá byrjar með haus sem lýsir því hvaðan gögnin koma og hnattstöðu punktsins sem skráin á við. Næst kemur lína sem segir hversu margir flokkar yfirborðsgerðar eru notaðir (SRC), hversu margir hæðarfletir (HL) og hversu margir vindáttageirar (WDS). Þriðja línan tiltekur hrýfislengd yfirborðsgerðarflokkanna sem reiknaðir er fyrir og er einingin (m). Hafsvæði og vötn eru skilgreind með yfirborðshrýfi 0,0 m en lægsti flokkurinn yfir landi hefur yfirborðshrýfið 0,03 m. Fjórða línan tiltekur hæðarfletina í metrum frá yfirborði. Reiknað er fyrir fimm hæðir, frá 10 m til 200 m frá yfirborði.

Afgangurinn af skránni er með 12 dálka einn fyrir hvern 30° vindáttageira, þann fyrsta frá -15° til 15°(með miðju í 0° þ.e. norðanátt), sá næsti með 15°-45° o.s.frv.

Línurnar í töflunni koma í 11 lína hneppum, þar sem hvert hneppi á við hverja tegund yfirborðsgerðar. Efsta línan í hverju hneppi gefur tíðni hvers vindáttargeira fyrir sig en línurnar þar á eftir gefa Weibull stuðlana A og svo k fyrir hvern hæðarflöt, frá þeim lægsta til þess hæsta.


Mynd 2. Fontur á Langanesi, veðurstöð og viti. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.

Takmarkanir

Athugið að jaðarlagslíkön eru ekki gerð fyrir útreikninga við brött fjöll. Því má gera ráð fyrir að nálægt fjöllum sé nokkur skekkja í útreikningum. Eins eru svæði á Íslandi þar sem gera má ráð fyrir mjög litlu yfirborðshrýfi, þ.e. minna en 0,03 m, og því er ástæða til að áætla að á þeim svæðum vanmeti vindatlasinn vindhraða.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica