Askja
Askja

Askja

Askja er eldstöð á Norðurgosbeltinu, virku gliðnunarbelti sem liggur norður eftir landinu frá Vatnajökli. Sprungukerfi hennar er eitt lengsta og virkasta sprungukerfi landsins en það er um 190 km langt og allt að 20 km á breidd. Megineldstöðin er askja sem er um 7-8 km löng, 5-6 km breið og nær allt að 1516 m hæð yfir sjávarmál. Í Öskju eru í raun fjórar öskjur. Sú yngsta myndar Öskjuvatn en það myndaðist í eldgosi árið 1875 en það er þriðja stærsta þekkta sprengigos sem orðið hefur á Íslandi. Þegar að gosinu lauk tók land að síga og mynda þessa myndarlegu öskju sem síðar fylltist af vatni. Öskjuvatn er næst dýpsta stöðuvatn á Íslandi en það er rúmlega 220 m djúpt.

Talið er að Askja hafi verið virk í a.m.k. 200.000 ár en talið er að yfir 200 eldgos hafa orðið í  Öskju kerfinu síðastliðin 7000 ár. Gostíðnin er um 2-3 gos hver 100 ár að meðaltali. Eldgos í Öskju eru margbreytileg en þar gýs bæði í megineldsöðinni og á sprungusveimnum og finnast þar bæði basísk og kísilrík hraun og gjóska.  

Sprengigosið í Öskju árið 1875 er þriðja stærsta þekkta sprengigos á Íslandi á eftir Öræfajökli 1362 og Heklu 1104. Talið er að basískt innskot hafi blandast súra kvikuhólfinu, við þessa blöndun varð mikið sprengigos. Stærsta basíska gosið varð einhverntímann fyrir 4300 til 7000 árum og þekur hraunið úr því gosi yfir 74 km2. Síðasta gos var árið 1961 og varði það í um sex vikur. Askja lét lítið á sér kræla þar til í ágúst 2021 en þá hófst mikið landris á svæðinu vegna kvikuinnskots og hefur land mest risið um rúmlega 60 cm síðan þá. Erfitt er að segja til um hvað framtíðin ber í skauti sér en þekkt er að landris í öskjum standi yfir í langan tíma áður en til eldgoss kemur. Þó er ekki útilokað að eldstöðin gjósi með skömmum fyrirvara.

Meiri upplýsingar má finna í vefsjánni Íslensk eldfjöll.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica