Fréttir
Tinna Þórarinsdóttir, deildarstjóri loftslags, veðurs, vatna, jökla og hafs á Veðurstofu Íslands.

1,4 milljarða samstarfsverkefni stóreflir gervigreindarinnviði Íslands

14.10.2025

Evrópska miðstöðin EuroHPC Joint Undertaking hefur veitt íslensku samstarfsverkefni styrk upp á ríflega 700 milljónir króna til að koma á fót miðstöð fyrir gervigreind og stórvirka tölvuvinnslu (e. HPC) á Íslandi. Verkefnið er leitt af Almannarómi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Vísindagarða HÍ, Veðurstofu Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Heildarumfang verkefnisins er um 1,4 milljarðar króna.

Styrkir gervigreind í þágu samfélagsins

Verkefnið miðar að því að veita íslenskum sprotum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og opinberum stofnunum beinan aðgang að nýjustu og bestu gervigreindarinnviðum og þekkingu sem völ er á í Evrópu.
Verkefnið nýtur stuðnings menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins og styður beint við framkvæmd Aðgerðaáætlunar um gervigreind 2025–2027, sem ráðuneytið gaf út í sumar. Lögð verður sérstök áhersla á ábyrga og trausta gervigreind, í samræmi við evrópsk lög og reglur um gervigreind og persónuvernd.

„Verkefnið er einstakt tækifæri til að efla notkun gervigreindar og ofurtölva í þágu samfélagsins,“ segir Tinna Þórarinsdóttir, deildarstjóri loftslags, veðurs, vatna, jökla og hafs á Veðurstofu Íslands.

TinnaThorarinsdottir2025-10-14Tinna Þórarinsdóttir, deildarstjóri loftslags, veðurs, vatna, jökla og hafs á Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan stefnir í átt að nýrri tækni við mat á náttúruvá

Veðurstofan hefur nýtt gervigreind og ofurtölvur við rannsóknir sínar, meðal annars í gegnum þátttöku sína í Destination Earth verkefninu og sem aðili að Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, ECMWF. Hér verður byggt á þeirri sérþekkingu sem þar hefur skapast til þróunar á öflugri og nákvæmari reiknilíkönum fyrir rannsóknir á fagsviðum Veðurstofunnar.

„Veðurstofan leggur áherslu á að gera gögn sín aðgengileg á skilvirkan hátt sem styður miðlun, úrvinnslu og samþættingu gagna í AI- og HPC-umhverfi. Verkefnið mun einnig nýtast til að þróa og innleiða gervigreind í gagnagreiningar og líkanagerð og þannig bæta ákvarðanatöku og öryggi þar sem náttúruvá á í hlut. Með þessu er lagður grunnur að gagnadrifinni nýsköpun og lausnum sem styrkja þjónustu og öryggi samfélagsins,“ segir Tinna.

Tengir Ísland við eina af öflugustu ofurtölvum Evrópu

Styrkurinn veitir aðgang að umfangsmiklu neti evrópskra gervigreindarverksmiðja (e. AI Factories) og er fjármagnaður af Horizon Europe-áætlun Evrópusambandsins. Íslenska miðstöðin verður tengd við LUMI AI Factory í Finnlandi, þar sem ein öflugasta ofurtölva Evrópu er staðsett.

Lausnir fyrir heilbrigðis-, orku- og loftslagsmál

Sérstaklega verður horft til lausna á sviði heilbrigðismála, loftslags- og umhverfisrannsókna, endurnýjanlegrar orku, framleiðslu- og verkfræði og opinberrar stjórnsýslu, þar sem máltækni og íslensk tunga verða áhersluþættir sem ganga þvert á starfið. Miðstöðin verður með starfsstöð á skrifstofu Almannaróms í Vísindagörðum HÍ í Grósku.

Á meðal hæfustu umsækjenda

Verkefnið er styrkt að helmingi af EuroHPC JU, en íslensku samstarfsaðilarnir leggja til hinn helminginn í formi vinnu, húsnæðis og verkefnafjármagns.
Íslenska umsóknin var metin á meðal þeirra allra bestu sem bárust sjóðnum. Alls hlutu 13 verkefni í Evrópu styrki til að koma á fót svæðisbundnum miðstöðvum sem tengjast stærri gervigreindarverksmiðjum á borð við LUMI.

LUMI hefur lengi verið ein öflugasta ofurtölva Evrópu en nýlega var starfsemin stækkuð þegar hún hóf þjónustu sína sem gervigreindarverksmiðja (e. AI Factory), styrkt af EuroHPC JU.
Nánar er fjallað um þjónustu LUMI AI Factory á heimasíðu verkefnisins.

Þverfaglegt samstarf sex lykilstofnana

Verkefnið er samstarf sex lykilstofnana sem sameina fjölbreytta sérþekkingu og öfluga innviði sem þegar eru til staðar á sviði gervigreindar og stórtækrar tölvuúrvinnslu:

  • Almannarómur gegnir hlutverki verkefnisstjóra og samhæfingaraðila, sér um upplýsingamiðlun og stuðning við uppbyggingu vistkerfis gervigreindar á Íslandi.
  • Árnastofnun er leiðandi í máltækni og heldur úti Íslenska málbankanum. Samstarfið mun styrkja notkun íslensku í tækniheiminum og stuðla að þróun íslenskra gervigreindarlausna.
  • Háskóli Íslands leiðir á sviði stórtækrar tölvuúrvinnslu og gagnavísinda og á að baki mikla reynslu af evrópskum samstarfsverkefnum.
  • Háskólinn í Reykjavík býður upp á meistaranám í gervigreind með áherslu á siðferðilega nálgun og er með aðstöðu til rannsókna og þróunar á gervigreindarlausnum, til dæmis fyrir vélmenni og sýndarveruleika.
  • Vísindagarðar Háskóla Íslands hýsa höfuðstöðvar verkefnisins í nýsköpunarsetrinu Mýrinni, þar sem nýsköpunarfyrirtæki, sprotar og rannsóknarhópar starfa saman. Þar er stefnt að stofnun gervigreindarbúða (e. AI Campus) á verktímanum.
  • Veðurstofa Íslands er leiðandi í notkun gervigreindar við loftslags-, náttúruvár- og umhverfisrannsóknir, meðal annars í gegnum Destination Earth og samstarf við ECMWF. Hér verður byggt á þeirri sérþekkingu til að þróa öflug og nákvæm reiknilíkön fyrir rannsóknir á fagsviði Veðurstofunnar.

Saman munu samstarfsaðilarnir byggja upp nýja samhæfða innviði fyrir íslenska gervigreind, efla þekkingu í þróun og þjálfun háþróaðra gervigreindarlausna og mynda sterkari tengsl við helstu sérfræðinga í Evrópu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica