Fréttir
Teresía Guðmundsson var fyrsta konan í heiminum til að gegna stöðu veðurstofustjóra. Fleiri öflugar konur á Veðurstofunni tóku virkan þátt í kvennabaráttunni. Ljósmynd varðveitt á Kvennasögusafni. Ljósmyndari óþekktur.

Þegar Veðurstofan var sögð hafa hagrætt veðrinu á Kvennafrídaginn

Á þessum degi fyrir 50 árum lögðu konur niður störf og haft var í flimtingum að Veðurstofan hefði jafnvel hagrætt í veðrinu. Við rifjum upp blíðviðrið 1975 og minnumst kvennanna á Veðurstofunni sem ruddu brautina.

24.10.2025

Í dag, föstudaginn 24. október, eru liðin 50 ár frá kvennaverkfallinu 1975, þegar konur um allt land lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnu þeirra, launaðrar og ólaunaðrar.

Um veðrið þennan merka dag segir í grein Bjargar Einarsdóttur, Kveikja að kvennafríi, sem birtist í Húsfreyjunni árið 1986:

„Kvennafrídagurinn rann upp hlýr og fagur og veðrið var einstakt miðað við árstíma. Gárungar höfðu orð um að framkvæmdanefndin hefði mútað Veðurstofunni og þá minntust menn þess að ein í nefndinni var skrifstofustjóri þeirrar ágætu stofnunar, svo heimatökin voru hæg að haga veðri að vild.“

Veðrið í dag verður þó ekki alveg jafn gott og árið 1975 en fremur milt: hiti um 3°C, vindur 3–8 m/s og styttir upp fyrir hádegi. Um hádegi fer að létta til og sjá til sólar þegar líður á daginn. Það ætti því að viðra prýðilega til göngu og samstöðu ef fólk hyggst taka þátt í viðburðum dagsins.

Þótt gárungarnir hafi haft orð um tengsl blíðviðrisins á fyrsta Kvennafrídaginn á gamansömum nótum þá átti Veðurstofan í raun sinn þátt í deginum – í gegnum konur sem mótuðu sögu stofnunarinnar og jafnréttisbaráttunnar.

Valborg-Bentsdottir

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Margrét Guðjónsdóttir aðstoðarmaður, Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri, Geir Ólafsson deildarstjóri fjarskiptadeildar, Valborg Bentsdóttir skrifstofustjóri, Jónas Jakobsson deildarstjóri veðurspádeildar, Flosi Hrafn Sigurðsson deildarstjóri áhaldadeildar, Markús Á. Einarsson deildarstjóri veðurfarsdeildar, Knútur Knudsen veðurfræðingur og Sigríður Ólafsdóttir aðstoðarmaður.

Valborg Bentsdóttir – skrifstofustjóri og jafnréttissinni

Valborg Bentsdóttir (1911–1991), skrifstofustjóri á Veðurstofunni og hluti af framkvæmdanefnd fyrsta Kvennafrídagsins, sem gárungarnir höfðu grun um að hefði haft áhrif á veðrið þann dag, fæddist 24. desember 1911 á Bíldudal.
Hún vann margvísleg störf, meðal annars við skrifstofu, verslun og kennslu, en lengst af starfaði hún hjá Veðurstofu Íslands við veðurathuganir, kortagerð, ritstjórn og sem skrifstofustjóri til ársins 1981.

Valborg var ein þeirra þriggja kvenna sem ritstýrðu og gáfu út tímaritið Emblu og var lengi í ritstjórn 19. júní, blaðs Kvenréttindafélags Íslands. Hún starfaði einnig ötullega að jafnréttismálum, skrifaði greinar og flutti erindi um þau í útvarpi.

Auk starfa sinna við Veðurstofuna tók Valborg virkan þátt í félagsmálum og var meðal annars barnaverndarnefndarmaður fyrir Framsóknarfélagið. Það starf, sem talið var eitt það erfiðasta á þeim tíma.

Um hana sagði Adda Bára Sigfúsdóttir, stjórnmálakona, kvenréttindafrömuður og veðurfræðingur, sem starfaði sjálf lengi á Veðurstofunni, í minningargrein í Morgunblaðinu árið 1991:

„Það kom sér örugglega vel fyrir Veðurstofuna að hafa jafnan traustan og gætnan skrifstofustjóra og Valborgu á þessum uppbyggingarárum. Saman settu þær Teresía sérstakan svip á Veðurstofuna og víst er að á þeim bæ hefur jafnréttis kynjanna jafnan verið vel gætt.“

Adda Bára Sigfúsdóttir – brautryðjandi í veðurfari og samfélagsmálum

Adda Bára Sigfúsdóttir (1926–2022) var veðurfræðingur og deildarstjóri veðurfarsdeildar Veðurstofu Íslands. Hún lauk prófi í veðurfræði frá Oslóarháskóla árið 1953, hóf störf á Veðurstofunni sama ár og gegndi stöðu deildarstjóra til 1988.
Hún mótaði ný vinnubrögð við úrvinnslu veðurfarsgagna og var frumkvöðull í notkun tölva við veðurútreikninga.

Auk starfa sinna á Veðurstofunni var hún virk í stjórnmálum og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í tvo áratugi fyrir Alþýðubandalagið. Hún bar jafnréttismál og velferðarmál mjög fyrir brjósti og var í hópi þeirra kvenna sem ruddu brautina fyrir nýjar kynslóðir í vísindum og stjórnmálum.

Adda-bara

Adda Bára Sigfúsdóttir á skrifstofu sinni. Í starfi sínu mótaði hún ný vinnubrögð við úrvinnslu veðurgagna og hóf notkun tölvuúrvinnslu snemma á sjöunda áratugnum. Adda Bára átti mjög langan starfsferil á Veðurstofunni, lengst af sem leiðtogi og stjórnandi á mikilvægu fagsviði.

Teresía Guðmundsson – fyrsta konan til að gegna stöðu veðurstofustjóra í heiminum

Teresía Guðmundsson (1901–1983), sem Adda Bára nefnir, var einn af burðarásum Veðurstofunnar á sama tíma og Valborg. Hún tók við stöðu veðurstofustjóra árið 1946 og var þar með fyrsta konan í heiminum til að gegna slíku embætti.

Teresía var norsk að uppruna og fluttist til Íslands árið 1929 með íslenskum eiginmanni sínum. Hún lauk fyrri hluta embættisprófs í stærðfræði og náttúruvísindum við Háskólann í Osló árið 1925 og síðari hlutanum 1937 með veðurfræði sem aðalgrein, með hæstu einkunn sem skólinn hafði veitt. Með því varð hún fyrsta konan til að ljúka prófi í veðurfræði frá Oslóarháskóla, á tímum þegar mjög fáar konur fengu tækifæri til að mennta sig á því sviði.

Á Veðurstofu Íslands starfaði Teresía frá 1929 til 1963, fyrst sem veðurfræðingur og síðar sem forstöðumaður og átti stóran þátt í að efla stofnunina bæði faglega og skipulagslega. Hún leiddi þróun veðurþjónustu fyrir flug og sjófarendur og skipulagði fyrstu reglubundnu flugveðurþjónustu Keflavíkurflugvallar þegar alþjóðaflug tók að aukast eftir seinni heimsstyrjöld. Teresía stuðlaði einnig að því að Ísland yrði virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á sviði veðurfræða og átti lykilhlut í tengslum við Alþjóðaveðurfræðistofnunina (WMO) og Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO).

Valborg Bentsdóttir lýsir henni í minningargrein sem ákaflega samviskusamri, vandvirkri og réttsýnni manneskju, sem leiddi starf Veðurstofunnar af festu og yfirvegun en var um leið hlý í samskiptum við starfsfólk. Hún segir að Teresía hafi notið virðingar allra sem með henni unnu og að hún hafi átt „sérstakt lag á að draga fram það besta í samstarfsfólki sínu“.

Teresía lagði sérstaka áherslu á fræðslu og menntun ungra veðurfræðinga og varð sjálf fyrirmynd margra kvenna sem síðar störfuðu á sviði náttúruvísinda.

Utan starfa sinna við Veðurstofuna tók hún virkan þátt í félags- og menningarstarfi og sat meðal annars í stjórn Kvenréttindafélags Íslands. Hún var nefnd sem fyrirmynd í blöðum og ræðum samtímans sem tákn um nýjan tíma þar sem konur tóku sér stöðu sem sérfræðingar, stjórnendur og vísindamenn.

Eftir að hún lét af störfum hélt hún áfram að fylgjast grannt með þróun veðurfræðinnar og Veðurstofunnar, sem hún hafði sjálf átt stóran þátt í að móta. Hún var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1966 fyrir störf sín í þágu vísinda og almannahagsmuna.

Teresia-Gudmundsdottir-askja-201-Kvss
Ljósmynd af Teresíu Guðmundsson varðveitt á Kvennasögusafni. Hildur Bárðardóttir gaf 21. október 1983. Ljósmyndari óþekktur.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica