Alþjóða veðurdagurinn 2018
Umfjöllunarefni dagsins er íslendingum vel kunnugt, veður og veðurfar. Í ár er athyglinni þó sérstaklega beint að því hvernig samfélög bregðast við aftaka veðri eða veðurvá til skemmri eða lengri tíma. Loftslagsbreytingar hafa í för með sér breytta veðurvá og hvað þetta varðar hefur árið 2018 hingað til verið áframhald af árinu 2017, með miklum öfgum í veðri með tilheyrandi eignatjóni og mannskaða.
Á Norðurhjara hefur verið mjög hlýtt undanfarið á meðan miklir kuldar og stormar hafa geisað á suðlægari breiddargráðum norðurhvels jarðar. Á suðurhveli, í Ástralíu og Argentínu hafa sums staðar verið miklar hitabylgjur og í Afríku halda þurrkar áfram í Sómalíu og Suður-Afríku þar sem íbúar Höfðaborgar eiga í miklum og alvarlegum vatnsskorti.Síðasta fellibyljatímabil varð hið kostnaðarsamasta í sögu Bandarkjana og fellibylir eyðilögðu margra ára þróun og uppbyggingarstarf á litlum eyjum í Karíbahafi. Milljónir manna neyddust til að flýja vatnavexti í Asíu á meðan þurkar fóru illa með hluta Afríku. Árið 2017 var eitt af þremur hlýjustum árum frá upphafi mælinga. Ef einungis er litið til ára þar sem áhrifa El Nino hlýnuar í Kyrrahafi gætir ekki var 2017 hlýjasta árið.
Eitt af meginviðfangsefnum veðurstofa um allan heim er að gera þjóðum kleyft að forðast eða minnka eins og hægt er mann- og eignatjón vegna veðurvár eða loftslagsbreytinga. Dregið hefur úr mannskaða vegna óveðra undanfarin 30 ár og má það aðallega rekja til bættra veðurspárlíkana, og aukinnar samvinnu á milli veðurfræðinga og almannavarna. Alþjóða veðurfræðistofnunin, WMO hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á staðlað snið viðvarana um allan heim, og er nýtt viðvörunarkerfi Veðurstofu Íslands samkvæmt þeim staðli. Kerfið, sem var tekið í notkun 1. nóvember 2017 fylgir s.k. CAP (Common Alerting Protocol) staðli. Kerfið notast við liti sem eru í notkun hjá Veðurstofum um allan heim og skilgreiningar á áhrifum og líkum eru einnig samhæfðar.
Til að viðvörunarkerfið nýtist sem best, er mjög mikilvægt að veðurspálíkön séu sem áreiðanlegust. Á Veðurstofu Íslands hefur um árabil verið starfræktur líkanahópur sem hefur unnið að þróun Harmonie-Arome veðurlíkansins. Nú er það keyrt fjórum sinnum á sólahring og reiknuð veðurspá fyrir næstu 66 klst. Möskvastærðin reikninets líkansins, eða landfræðileg upplausn þess, er 2,5 km og því er landslag betur hermt nú en áður var, sem hefur bætt vindaspár fyrir landið verulega. Með þessari upplausn og nákvæmri landslags og landgerð hefur geta Veðurstofunnar til að spá fyrir um veðurvá, þá einkum vind og úrkomu aukist mikið á stuttum tíma. Meðal næstu skrefa í þróun líkansins er að þétta möskvastærð reikninetsins enn meira, og eru hafnar tilraunakeyrslur með 750 m möskvastærð. Vonir standa til þessað auka megi nákvæmni í þeim spám sem nú eru gerðar enn frekar, og einnig má teljast líklegt að hærri upplausn nýtist vel fyrir önnur líkön sem nýta niðurstöður veðurspálíkans. Þar má nefna líkön sem spá fyrir um rennsli í ám og þykkt snjóalaga, - en unnið er að þróun slíkra líkana á Veðurstofu Íslands.