Fréttir
Þátttakendur Snow 2025 í vettvangsferð á Flateyri. Ljósmynd: Árni Jónsson.

Alþjóðleg ráðstefna um snjóflóðavarnir haldin á Ísafirði

Þrjátíu ár frá mannskæðum flóðum í Súðavík og á Flateyri – 120 sérfræðingar frá tíu löndum komu saman  

13.10.2025

„Það hafði mikil áhrif á ráðstefnugesti að heyra frásagnir frá fólki sem upplifði þessa atburði,“ segir Harpa Grímsdóttir, útibússtjóri Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði og íbúi á Vestfjörðum, um ráðstefnuna SNOW2025 sem fram fór á Ísafirði dagana 30. september til 3. október.  

Snow2-25-Harpa-Grimsdottir

Harpa Grímsdóttir, útibússtjóri Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði og íbúi á Vestfjörðum. Mynd: Árni Jónsson.

Ráðstefnan er alþjóðlegur viðburður um ofanflóðavarnir og ber nafnið: The International Symposium on Mitigation Measures against Snow Avalanches and other Rapid Gravity Mass Flows. 

Í ár eru þrjátíu ár liðin frá mannskaðasnjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri og því var ráðstefnan jafnframt vettvangur til að líta til baka, fara yfir uppbyggingu varna og kynna sér nýjustu þróun í hönnun varnarvirkja og tæknibúnaði til þess að bæta öryggi á snjóflóðahættusvæðum.  Um 120 sérfræðingar frá tíu löndum tóku þátt, þar á meðal margir færustu vísindamenn heims á þessu sviði. 


Snow-2025-flateyri-pano
Þátttakendur Snow 2025 í vettvangsferð á Flateyri. Ljósmynd: Árni Jónsson. 

Verkfræðingafélag Íslands stóð að viðburðinum sem hafði að markmiði að kynna nýjustu rannsóknir og tækni í snjóflóðavörnum, mælingum, líkanreikningum og áhættustjórnun vegna snjóflóða og skriðufalla.

Áður hefur VFÍ staðið fyrir samskonar ráðstefnum á Siglufirði 2019 og á Egilsstöðum 2008. 

Meginþemu ráðstefnunnar eru: 

  • Áhættustjórnun.
  • Umhverfi og samfélag. 
  • Skipulag, hönnun, uppbygging og viðhald varnarmannvirkja.
  • Virkni varnargarða byggt á reynslu, tilraunum og tölulegum hermunum.

Frásagnir heimamanna og öflug varnarvirki vöktu athygli 

„Fyrir okkur sem búum hér er ráðstefnan áminning um mikilvægi þess að fylgjast stöðugt með, læra af öðrum og miðla okkar eigin reynslu. Við höfum safnað dýrmætri þekkingu á hönnun varnarmannvirkja og reynslu af því þegar snjóflóð falla á varnargarða,“ segir Harpa Grímsdóttir. 

Snow2025-magni-staerri

Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóðahættumats á Veðurstofunni, flytur erindi um skipulag  byggðar á hættusvæðum undir varnarvirkjum. Ljósmynd: Árni Jónsson

Fjölbreytt erindi 

Rúmlega 40 erindi voru flutt á ráðstefnunni sem meðal annars fjölluðu um skipulagsmál á hættusvæðum, áhættustjórnun, hönnun og byggingu varnarvirkja og áhrif snjóflóða á mannlíf í byggðarlögum sem búa við ofanflóðahættu. Fjallað var um háþróaða radara og búnað sem getur komið snjóflóðum af stað og er notaður er til þess að stjórna umferð á vegum og járnbrautarteinum á snjóflóðasvæðum, nýja kynslóð þrívíðra snjóflóðalíkana sem nýtt eru við hönnun snjóflóðavarna, hönnun raflína sem liggja um snjóflóðafarvegi og margt fleira. Íslenskir þátttakendur fluttu yfirlitserindi um snjóflóð og viðbúnað við snjóflóðahættu hér á landi, mælitækni, hönnun varnarvirkja og ýmsar niðurstöður rannsókna hér á landi. 

Á meðal þeirra erinda og veggspjalda sem vöktu athygli má nefna: 

  • Snjódýptarmælar á Ísafirði og Doppler-radar á Flateyri – tækni sem gerir mögulegt að fylgjast með snjósöfnun og snjóflóðum í rauntíma og auka öryggi íbúa og vegfarenda. 

  • Krapaflóð – rannsóknir á krapaflóðum hafa fengið aukið vægi í ljósi loftslagsbreytinga. Meðal annars var fjallað var um hönnun krapaflóðavarna hér á landi þar sem beitt er háþróuðum líkanreikningum. 

  • HELIOPLANT® – ný tegund varnarmannvirkis sem jafnframt framleiðir sólarorku er notuð til þess að framleiða raforku hátt til fjalla þar sem þarf að kljást við snjósöfnun og skafrenning. 

  • Gervigreind og ný mælitæki – gervigreind er beitt til þess að greina snjóflóð í mælingum Doppler radars og reynist mun betur en fyrri tækni. 

  • Samgöngu- og orkuöryggi – fjallað var um snjóflóð sem ógna vegum, járnbrautum og raforkuflutningi víða um heim og hvernig hægt er að fella áhættustjórnun inn í skipulag og hönnun mikilvægra innviða. 

  • Gerð var grein fyrir niðurstöðum yfirstandandi rannsókna á snjósöfnunargrindum til þess að draga úr snjósöfnun í upptakasvæði ofan Flateyrar á veggspjaldi. 


Snow2025-tomas-staerri

Tómas Jóhannesson sérfræðingur í ofanflóðahættumati og vörnum á Veðurstofu Íslands. Hann er að fjalla um keyrslu þrívíðra snjóflóðalíkana til þess að meta virkni varna á úthlaupssvæðum snjóflóða. Mynd: Árni Jónsson.

Snow2025-oliver

Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða á Veðurstofu Íslands, ræddi tímabundnar áhættuminnkandi aðgerðir á snjóflóðasvæðum á ráðstefnunni SNOW2025 á Ísafirði.Mynd:Árni Jónsson.

Ómetanleg þekking á ofanflóðahættu hefur orðið til hér á landi.  

 Öryggi fólks á ofanflóðahættusvæðum hér á landi hefur batnað mikið á undanförnum þremur áratugum með tilkomu  varnarvirkja. Á sama tíma hefur orðið til ómetanleg þekking á ofanflóðum, hættumati og á hönnun og gerð varnarmannvirkja. Þekking sveitarstjórna og heimamanna á aðstæðum hefur einnig aukist til muna. Stoðvirki og fjöldi varnargarða og annarra mannvirkja hefur þegar sannað gildi sitt en yfir 50 flóð hafa fallið á garða og önnur varnarmannvirki sem reist hafa verið með stuðningi Ofanflóðasjóðs frá mannskaðaflóðunum á Vestfjörðum árið 1995.  

Snow-2025-flateyri-ut-a-haf

Frá vettvangsferð ráðstefnugesta á Snow2025. Mynd: Árni Jónsson. 

Upplýsingar um ráðstefnur Snow má meðal annars finna á eftirfarandi slóðum: 

Snow2025 á Ísafirði

Snow2008 á Egilstöðum

Snow2019 á Siglufirði

Frétt Veðurstofunnar um ráðstefnuna 2019






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica