Fréttir
Á hverjum degi fara gervitungl NASA yfir Ísland, Terra um hádegisbilið en Aqua nokkru síðar. Þessir hnettir taka aragrúa mynda á hverjum degi. Sú fallegasta eða merkasta er auðkennd á vef NASA sem mynd dagsins eða "MODIS image of the day" og snævi þöktu Íslandi hlotnaðist sá heiður 2. febrúar 2009 (skráð 4. febrúar). MODIS tækið á Terra mælir útgeislun á 36 tíðnibilum og nokkur þeirra eru notuð í samsetta mynd. Slík vinna fer fram á Veðurstofu Íslands og meðfylgjandi mynd er unnin hér. Hún er mjög áþekk þeirri sem var valin mynd dagsins hjá geimferðastofnuninni. Landslag sést mjög vel og einnig framburður helstu stórfljóta.