Fréttir
UNESCO 2017

Dagur vatnsins 22. mars

22.3.2017

Að undirlagi Sameinuðu þjóðanna er 22. mars alþjóðlegur dagur vatnsins, tileinkaður umræðu um sértæk viðfangsefni sem varða vatn og verndun vatnsauðlindarinnar.

Vatn er ómetanleg auðlind, forsenda lífs og þeirra lífsskilyrða sem við Íslendingar búum við. Þar erum við vel í sveit sett. Gnótt af góðu neysluvatni, heitt vatn og vatnsorka skapa okkur einstök skilyrði. Í ár er dagurinn helgaður fráveituvatni og birtir Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) ástandsskýrslu um málefnið undir nafninu „ Fráveituvatn: Hin vannýtta auðlind “.

Mengun er hugtak sem allir skilja ekki með sama hætti en hefur þróast nokkuð í tímans rás. Í flestum tilfellum er átt við áhrif mannsins og athafna hans á umhverfi sitt. Með mengun vatns er að jafnaði átt við áhrif efna- og efnasambanda eða örvera á gæði neysluvatns. Um heim allan setur slík mengun lífi fólks alvarlegar skorður. Takmarkað neysluvatn og vatn til ræktunar hefur nú þegar alvarleg áhrif á lífsskilyrði og velsæld víða í heiminum. Mengun getur einnig verið af náttúrulegum uppruna, eins og til dæmis við aftakaflóð eða eldgos þegar gosgufur og gosaska mengar loft og vatn. Við getum ekki stjórnað því nema að litlu leyti en við getum hinsvegar stjórnað viðbrögðum okkar við slíkar aðstæður.

Á síðustu árum hefur verið lögð aukin áhersla á að skilja með heildstæðari og víðtækari hætti hver eru áhrif mannsins á umhverfi sitt. Maðurinn getur sett umtalsvert álag á vistkerfi og umhverfi sitt með ýmsum öðrum hætti en með mengun. Margar athafnir mannsins hafa bæði bein og óbein áhrif á eðli vatns og þá þjónustu sem vatnsveitirinn veitir umhverfinu. Ýmis dæmi mætti nefna. Virkjun vatnsorku, stíflur og skurðir breyta farvegi vatns og geta haft umtalsverð áhrif á rennslishætti og farveg vatns, t.d. lágrennsli og hárennsli. Slíkar rennslisbreytingar geta haft áhrif á þau vistkerfi sem eru til staðar, hvaða lífverur hafa tækifæri til að dafna við lægra / hærra rennsli sem og framburð og landmótun við ósa. Að undanförnu hefur einnig mikið verið fjallað um mikilvægi votlendis fyrir kolefnisbúskap jarðar. Sömuleiðis hefur landeyðing áhrif á rakastig, rakabindingu og þannig hringrás vatns og tækifæri mismunandi vistgerða til þess að vaxa og dafna.

Aukinn mannfjöldi samfara mikilli tækniþróun við nýtingu umhverfisins hefur óhjákvæmilega veruleg áhrif á það. Almenningur er farinn að gera sér æ meiri grein fyrir þeim áhrifum sem athafnir hans hafa og sér þær í mun stærra samhengi en áður. Veðurstofan vinnur að því að mæla og vakta rennslishætti vatns, eðlis- og efnafræðilega eiginleika vatns, sem og mögulega vá af völdum vatns. Stofnunin hefur leitast við að ná yfirgripsmikilli þekkingu á ólíkum gerðum vatns, rennslisháttum þess og eiginleikum þannig að sem breiðust þekking og yfirsýn verði til staðar til lengri tíma. Slík vinna skapar okkur nauðsynleg skilyrði til þess að umgangast þessa mikilvægu auðlind með sjálfbærum hætti. Einungis þannig er hægt að skila auðlindinni í góðu ástandi til afkomenda okkar og tryggja lífsskilyrði þeirra.

Á alnetinu má finna upplýsingar um alþjóðlegan dag vatnsins, fyrrnefnda skýrslu og Íslensku vatnafræðinefndina sem starfar undir merkjum UNESCO.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica