Fréttir
Eldgosið í apríl 2021. (Ljósmynd: Veðurstofan/Bryndís Ýr Gísladóttir)

Ekkert hraunflæði í þrjá mánuði við Fagradalsfjall

18.12.2021

Í dag eru liðnir þrír mánuðir frá því að síðast sást til hraunflæðis úr eldstöðinni við Fagradalsfjall. Áfram mælist þensla á svæðinu og unnið er að útreikningum og líkangerð svo hægt sé að túlka mælingarnar, en niðurstöður liggja ekki fyrir.

„Það er auðvitað alltaf snúið að segja nákvæmlega hvenær tilteknu eldgosi sé lokið, því eldvirkni getur verið mjög lotubundin“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. „Við höfum bent á það alveg frá því að jarðhræringarnar í Geldingadölum hófust að Reykjanesskaginn er virkur með tilliti til jarðskjálfa- og eldvirkni og sagan segir okkur að eldvirkni þar kemur í lotum", segir Sara.

Þrír mánuðir eru liðnir frá því að hraun sást koma úr gígnum í Geldingadölum og því er ljóst að goshrinan sem hófst 19. mars stóð yfir í nákvæmlega 6 mánuði.  Aflögunarmælingar sýna að kvíkusöfnun er í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og erfitt er að spá fyrir um hvert framhaldið verður. "Við munum því áfram fylgjast vel með virkninni á Reykjanesskaga, en við getum sagt að þessum tiltekna atburði sem hófst með eldgosi 19. mars við Fagradalsfjall er lokið, hver sem þróunin á svæðinu verður. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram“, segir Sara.

Vakin er athygli á því að varhugavert getur verið að fara inn á hraunbreiðuna við Geldingadali og að gígum. Töluverðan tíma getur tekið fyrir hraun að kólna og ennþá er yfirborð og gígar óstöðugir, hrun getur orðið eða sprungur geta myndast.  Auk þess má búast við að afgösun hraunsins haldi áfram um einhvern tíma og hættulegar aðstæður myndast þar sem gas getur safnast saman.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica