Fréttir
Sveitarfélögin sem um ræðir eru Akureyrarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Fjallabyggð, Reykhólahreppur og Reykjanesbær.

Fimm sveitarfélögum boðin þátttaka í verkefni innan aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga

11.4.2023

Fimm sveitarfélögum hefur verið boðin þátttaka í tilraunaverkefni sem miðar að því að aðstoða íslensk sveitarfélög í þeirri vinnu sem fram undan er við að greina áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga og móta aðgerðir til aðlögunar. Þannig verði sveitarfélögum færðir skýrari ferlar og aðferðir sem gera þeim kleift að búa sig undir möguleg áhrif loftslagsbreytinga á innviði, atvinnugreinar, efnahag og samfélög. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Akureyrarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Fjallabyggð, Reykhólahreppur og Reykjanesbær.

Áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta í byggðum landsins og ljóst að þau verða okkur áskorun til framtíðar. Mörg sveitarfélög á Íslandi horfast nú í augu við mögulegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem geta haft áhrif á efnahag, innviði, atvinnugreinar, öryggi og lýðheilsu íbúa, svo eitthvað sé nefnt. Dæmi um slík áhrif er aukin hætta á gróðureldum og aurskriðum, auknar öfgar í veðri, þurrkar, aftakaúrkoma, breytingar í vistkerfum á landi og í hafi og aukinn ágangur sjávar vegna hækkandi sjávaryfirborðs. Samhliða því að sveitarfélög á Íslandi eru mörg hver farin að huga að afleiðingum loftslagsbreytinga í umdæmi sínu vakna spurningar varðandi ferla, aðferðafræði, hlutverkaskiptingu, boðleiðir og fjármögnun slíkrar vinnu.

C10-sveitarfeog

Þátttökusveitarfélögin fimm og helstu viðfangsefni innan verkefnsins. Helstu spurningar sem reynt verður að svara eru: Hver eru fyrstu skref sveitarfélaga sem hyggjast lágmarka neikvæð efnahagsleg-, umhverfis- og samfélagsleg áhrif vegna loftslagsbreytinga? Hver ber ábyrgð á ferlinu? Hverjir þurfa að koma að borðinu? Hvaða gögn þarf til, hver aflar þeirra, vinnur úr þeim og hver fjármagnar vinnuna? Hvernig er ávinningur aðgerðanna metinn?

Í núgildandi byggðaáætlun 2022-2036 er skilgreind aðgerð (C.10 Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög) sem miðar að því að móta heildstæða nálgun íslenskra sveitarfélaga þegar kemur að aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Aðlögun á í þessu samhengi við um aðgerðir og greiningar sem miða að því að loftslagsverja sveitarfélög og gera þau betur í stakk búin til þess að takast á við neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og grípa þau tækifæri sem skapast. Aðgerðin er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og er framkvæmd í samstarfi við Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands. Áætlað er að fjölmargir aðilar komi einnig að verkefninu og má þar nefna Samband íslenskra sveitarfélaga, fulltrúar sveitarfélaga, Almannavarnir auk annarra fagstofnana. Áætlað er að verkefninu ljúki í lok árs 2024.

Á grundvelli verkefnisins verða framkvæmdar eins konar tilviksrannsóknir í sveitarfélögunum fimm. Í verkefninu verður aðferðafræði mótuð og sannreynd í samstarfi við sveitarfélögin, fagstofnanir og aðra aðila. Hlutverk þessara aðila verða rýnd og skilgreind, helstu áhrif loftslagsbreytinga innan sveitarfélaganna greind og aðlögunaraðgerðir mótaðar. Markmiðið er að verkefnið skili annars vegar sannreyndri aðferðarfræði   til mótunar aðlögunaraðgerða fyrir íslensk sveitarfélög og hins vegar dæmum um raunverulegar aðlögunaraðgerðir sem snerta á efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum þáttum, sem einnig geta nýst öðrum sveitarfélögum í kjölfarið. Sú þekking og reynsla sem skapast innan verkefnisins verður nýtt við gerð leiðarvísis fyrir íslensk sveitarfélög sem hyggjast hefja vinnu við að auka viðnámsþrótt og loftslagsverja samfélög sín, innviði og atvinnugreinar. Umræddur leiðarvísir ætti að nýtast öllum sveitarfélögum á Íslandi óháð stærð, staðsetningu og mannafla og voru þátttökusveitarfélögin valin með það fyrir augum að verkefnið myndi spanna sem fjölbreyttastan hóp íslenskra sveitarfélaga, m.t.t. stærðar, íbúafjölda, staðsetningar, lykilatvinnugreina og loftslagstengdra áskorana. Öllum sveitarfélögum landsins býðst að vera aðilar að verkefninu í gegnum svokallaðan rýnihóp. Þar verður hægt að fylgjast með framgangi verkefnisins og taka þátt í mótun niðurstaðna. Við hvetjum fulltrúa áhugasamra sveitarfélaga til þess að hafa samband við verkefnisstjóra varðandi þátttöku í rýnihóp.

Ljóst er að um umfangsmikið og þverfaglegt verkefni er að ræða. Fram undan eru því samtöl við þá aðila, stofnanir og ráðuneyti sem að málaflokknum koma í von um að tryggja aðkomu sem flestra að þessu mikilvæga verkefni.

Allar nánari upplýsingar má finna hjá Ragnhildi Friðriksdóttir, verkefnisstjóra verkefnisins, ragnhildur@byggdastofnun.is eða Önnu Huldu Ólafsdóttur, annaol@vedur.is og Theódóra Matthíasdóttir, theodorama@vedur.is úr framkvæmdarteymi verkefnisins.

Nánar um aðgerð C.10:

Markmið verkefnisins er eftirfarandi:

  • Að hámarka aðlögunargetu íslenskra sveitarfélaga gagnvart neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga og lágmarka um leið efnahagslegt tjón og neikvæð áhrif á íslenskar byggðir og samfélög.
  • Greina þarfir íslenskra sveitarfélaga þegar kemur að gerð aðlögunaraðgerða og áætlana, sem og helstu hindranir og áskoranir sem þau standa frammi fyrir í þeirri vegferð. Þetta felur m.a. í sér greiningu á þörfum og áskorunum í samskiptum við helstu fagstofnanir og hlutverk þegar kemur að mótun aðlögunaraðgerða.
  • Að veita fulltrúum sveitarfélaga leiðbeiningar til mótunar aðlögunaraðgerða og aðlögunaráætlana vegna áhrifa loftslagsbreytinga í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda um aðlögun aðloftslagsbreytingum og stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036
  • Að auka þekkingu sveitarstjórnafulltrúa á Íslandi á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og afleiðingum þeirra og þar með getu sveitarfélaga til að grípa til nauðsynlegra aðgerða.
  • Að leiða saman viðeigandi ráðuneyti og stofnanir innan málaflokksins og leggja þannig grunn að þverfaglegu samstarfi og samtali á sviði aðlögunar




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica