Fréttir
Bylgjuvíxlmælingar sýna að fjallshlíðin á Osmundsnesi við Hyefjörð í Sogn- og Firðafylki í Vestur-Noregi er að hreyfast á um 1 km löngum kafla skammt undir fjallsbrúninni þar sem hlíðin er sprungin af
Dæmi um fjarkönnunarmælingar á fjallshlíð í Vestur-Noregi.

Fjarkönnun getur bætt vöktun óstöðugra hlíða

Sérfræðingar Veðurstofunnar kynna sér aðferðir Norðmanna

13.8.2019

Hópur sérfræðinga frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands heimsótti Noreg í sumar til þess að kynna sér kortlagningu og vöktun á óstöðugum hlíðum þar í landi. Norðmenn hafa mikla reynslu í vöktun óstöðugra hlíða og við Íslendingar getum lært margt af þeim á þessu sviði. Ferðin var styrkt af NORDRESS verkefninu, sem er norrænt samstarfsverkefni sem snýst um hvernig auka megi öryggi samfélaga gagnvart náttúruhamförum. Þetta er fimm ára verkefni sem hófst árið 2015. Þeir sem tóku á móti íslenska hópnum voru Reginald Hermanns sem fer fyrir jarðvár- og kortlagningarteymi hjá NGU (Norges Geologiske Undersøkelse) og Lars Blikra sem er yfirmaður berghlaupavöktunar hjá NVE (Norges vassdrags- og energidirektorat), ásamt samstarfsmönnum.

Mannskæð slys í Noregi

Í Noregi hafa orðið stórslys af völdum berghlaupa, ekki síst þegar skriður falla ofan í þrönga firði og valda flóðbylgjum. Í þremur slysum á 20. öld fórust samtals 174 í flóðbylgjum vegna berghlaupa.

Eitt þessara slysa varð í Tafjord árið 1934 þegar berghlaup varð úr Langhammeren norðan megin í firðinum. Þar höfðu menn tekið eftir sprungum sem voru að gliðna.

Þorpið Tafjord í júní 2019. Hólarnir aftan við þorpið eru annars vegar fornt framhlaup úr dalnum til hægri á myndinni (hóllinn til hægri) og hins vegar fastur berggrunnur (hóllinn til vinstri).

Þorpið Tafjord í júní 2019. Hólarnir aftan við þorpið eru annars vegar fornt framhlaup úr dalnum til hægri á myndinni (hóllinn til hægri) og hins vegar fastur berggrunnur (hóllinn til vinstri).

Íbúar þorpsins Fjørå voru að einhverju leyti meðvitaðir um hættuna sem af þessu stafaði, en töldu fullnægjandi ráðstafanir að draga báta sína lengra upp á land. Íbúar í öðrum þorpum vissu ekki af hættunni. Í apríl 1934 varð svo berghlaup og um 3 milljón rúmmetrar féllu niður í fjörðinn. Hlaupið olli flóðbylgjum sem náðu allt að 64 m hæð og urðu samtals 40 manns að bana í nærliggjandi þorpum.

Þorpið Fjørå eftir slysið í Tafjord. Hérna fórust 17 manns. Flóðbylgjurnar náðu upp að smiðjunni á miðri mynd, en hún stóð þær af sér. Mynd: Ingvald Uri. (https://www.geo365.no/geofarer/tafjordulykka/)

Þorpið Fjørå eftir slysið í Tafjord. Hérna fórust 17 manns. Flóðbylgjurnar náðu upp að smiðjunni á miðri mynd, en hún stóð þær af sér. Mynd: Ingvald Uri. https://www.geo365.no/geofarer/tafjordulykka/

Sjö hlíðar í stöðugri vöktun í Noregi

Í Noregi er lögð áhersla á að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar þar sem talið er að berghlaup geti orðið. Ef óstöðugar hlíðar ógna fólki eru þær vaktaðar sérstaklega af NVE. Sjö hlíðar eru í stöðugri vöktun. Þar eru síritandi mælitæki sem mæla hreyfingu hlíðarinnar allan sólarhringinn, alla daga ársins. Um ellefu óstöðugar hlíðar til viðbótar eru vaktaðar með reglulegum mælingum a.m.k. einu sinni á ári.

Sú hlíð sem er á mestri hreyfingu er kennd við fjallið Mannen í Romsdal. Þar eru taldar miklar líkur á framhlaupi í Veslemannen þar sem hreyfing hefur verið mest síðustu árin. Árið 2018 varð hreyfingin hröðust um 1 m á sólarhring í efri hlutanum. Ekki er talið að framhlaup úr Veslemannen verði mjög stórt, en það er þó talið geta fallið á bóndabæ og tvö önnur hús og hefur svæðið oft verið rýmt.

Einnig er talið að stærra framhlaup geti fallið á svæðinu. Það gæti stíflað ánna í Romsdal og haft þannig áhrif á mun stærra svæði.

Borholur og ýmis mælitæki í Mannen.

Borholur og ýmis mælitæki í Mannen.

Horft niður snarbratta fjallshlíðina við Mannen í Romsdal.

Horft niður snarbratta fjallshlíðina við Mannen í Romsdal.

Mikilvægt að kortleggja óstöðugar hlíðar á Íslandi

Á Íslandi hafa skriður valdið umtalsverðu tjóni og mörgum dauðsföllum frá því að land byggðist. Í flestum tilfellum er um að ræða slys og tjón vegna sjálfra skriðufallanna, en ekki flóðbylgju af þeirra völdum, þótt flóðbylgjur geti vissulega einnig valdið slysum og tjóni. Á undanförnum árum hafa stórar skriður verið áberandi í fréttum en þær hafa sem betur fer ekki valdið manntjóni. Það hefur þó stundum mátt litlu muna og má nefna sem dæmi að stuttu áður en berghlaup varð í Öskju og olli mikilli flóðbylgju í Öskjuvatni, hafði hópur af fólki staðið við vatnið. Í mörgum tilfellum hefur sést eftir á, að sprungur höfðu myndast og hlíðin var byrjað að aflagast mörgum árum áður en skriðan féll.

Það er mikilvægt að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar hér á landi rétt eins og gert hefur verið í Noregi. Taka þarf með í reikninginn hversu mikil hætta fólki kann að stafa af framhlaupi á viðkomandi stöðum. Þar sem óstöðugar hlíðar geta ógnað byggð, samgönguleiðum eða fjölmennum ferðamannastöðum þarf að setja upp viðeigandi vöktun.

Fjarkönnun getur bætt vöktun óstöðugra hlíða

Eitt af því sem hægt er að nota til þess að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar eru bylgjuvíxlmælingar (InSAR-mælingar) með gervitunglum. Með slíkum mælingum er hægt að sjá aflögun lands með millimetra nákvæmni. Í Noregi er lokið stóru verkefni þar sem sett hefur verið upp regluleg úrvinnsla bylgjuvíxlmælinga fyrir allt landið. Slíkar mælingar gagnast ekki aðeins til þess að greina óstöðugar hlíðar, heldur er einnig hægt að sjá t.d. landhæðarbreytingar við ströndina og í borgum. Bylgjuvíxlmælingar hafa verið notaðar hér á landi til þess að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum, m.a. af völdum landreks, rýrnunar jökla og í tengslum við eldgos. Í þeim rannsóknum hafa komið fram hreyfingar sem tengjast framhlaupum og aðdraganda þeirra.

Bylgjuvíxlmælingar sýna að fjallshlíðin á Osmundsnesi

Bylgjuvíxlmælingar sýna að fjallshlíðin á Osmundsnesi við Hyefjörð í Sogn- og Firðafylki í Vestur-Noregi er að hreyfast á um 1 km löngum kafla skammt undir fjallsbrúninni þar sem hlíðin er sprungin af völdum hreyfingarinnar. Svæði þar sem hreyfing er lítil sem engin eru litið blá en gulur og rauður litur auðkennir svæði sem hreyfast um u.þ.b. 0,5 cm á ári.

Myndin er tekin af vef norsku Jarðfræðistofnunarinnar. https://www.ngu.no/emne/eksempler-pa-bruk-av-insar-data






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica