Flutningur á veðurmælireit Veðurstofunnar: Marktækt rof í vindmælingum
Samanburður á veðurmælingum í gamla og nýja mælireitnum á Veðurstofuhæð
Veðurstofa Íslands hefur birt skýrslu um samanburð á veðurmælingum milli gamla og nýja mælireitsins við Háuhlíð. Mælireitur Veðurstofunnar var á sama stað við Bústaðaveg í yfir hálfa öld, en árið 2017 var ákveðið að færa hann í nýjan reit um 300 m vestnorðvestan við þann gamla. Til að kanna áhrif flutningsins voru gerðar samtímamælingar í báðum reitunum á þriggja ára tímabili, frá 1. júní 2021 til 31. maí 2024. Skýrsluna skrifuðu Kristín Björg Ólafsdóttir og Þórður Arason, sérfræðingar á þjónustu- og rannsóknasviði.


Gamli mælireiturinn og verndarsvæði umhverfis hann er sýndur til vinstri en nýr mælireitur Veðurstofunnar til hægri. Ljósmyndir: Þórður Arason og Njáll Fannar Reynisson.
Brot í langtímamæliröðum
Niðurstöður sýna að flutningurinn hefur myndað marktækt brot í nokkrum langtímamæliröðum. Mestur er munurinn á vindmælingum en vindhraði og vindhviður mælast að jafnaði 0,6–0,9 m/s hærri í nýja reitnum. Ástæðan er sú að nýi mælireiturinn stendur í meiri hæð og er opnari fyrir vindi en sá gamli, sem er umkringdur hærri húsum og trjám. Vindmælingar í gamla reitnum urðu einnig fyrir áhrifum frá Veðurstofuhúsinu og byggingum í hverfinu austan við.
Þetta brot þýðir að nauðsynlegt er að leiðrétta eldri vindgögn svo langtímaröðin verði einsleit. Án slíkrar leiðréttingar er ekki hægt að meta breytingar á vindhraða eða tíðni og styrk hvassviðra á áreiðanlegan hátt. Þetta er annað brot í vindhraðamæliröð Reykjavíkur á síðustu áratugum – fyrra brot varð árið 2000 þegar farið var að nota sjálfvirka stöð við mælingar.
Brot hefur einnig myndast í rakamælingum lofts sem mælast marktækt hærri í nýja reitnum, þó ekki sé ljóst hvort um raunverulegan mun eða mæliskekkju sé að ræða.
Hitamælingar sambærilegar
Hitamælingar eru að mestu sambærilegar og ekki er þörf á leiðréttingum á langtímaröðinni. Þó er munur á einstökum mælingum eftir veðuraðstæðum. Mestur munur er í hægviðri þegar kaldara er í gamla reitnum og hvassviðri þegar kaldara er í nýja reitnum. Í kuldastillum má búast við að lágmarkshiti fari ekki eins lágt í nýja reitnum.
Úrkomumælingar, loftþrýstingsmælingar og geislunarmælingar eru sambærilegar milli reitanna. Snjódýpt er ögn minni í nýja reitnum, líklega vegna hærri vindhraða, en þrátt fyrir það var mánaðarmet snjódýptar fyrir Reykjavík slegið í október síðastliðnum. Jarðvegshitamælingar eru ósambærilegar vegna mikils munar á jarðvegsgerð.
Áhrif á veðurmet
Skýrslan bendir á að jafnvel þótt veðurþáttur sé að mestu sambærilegur milli reitanna er ekki víst að öll veðurmet fyrir Reykjavík verði sambærileg. Skýrsluna má nálgast á útgáfusíðu Veðurstofu Íslands.




