Framhlaup er hafið í Dyngjujökli
- Fólki er bent á að gæta sérstakrar varúðar á ferðalögum á Dyngjujökli þar sem sprungumyndun er líkleg á svæðum sem hafa verið greiðfær og ósprungin í 20 ár.
- Dyngjujökull er þekktur framhlaupsjökull og að jafnaði líða 20 til 30 ár á milli framhlaupa.
- Framhlaup er óregla í hreyfingu jökla sem felur í sér tímabundna og mikla hröðun á skriði, oft tífalt, hundraðfalt eða meira, og jökullinn springur upp á stórum svæðum.
- Umfang framhlaupsins er enn óljóst en hægt er að miða við svæðið sem síðasta framhlaup náði til.
- Afrennsli eykst í framhlaupum og vatn sprettur fram á stærra svæði en venjulega auk þess sem aurburður í ám vex margfalt.
- Innlendar stofnanir fylgjast með þróuninni í samstarfi við erlenda rannsóknaraðila.
Samkvæmt GPS-hraðamælingum Jarðvísindastofnunar Háskólans er framhlaup hafið í Dyngjujökli (sjá: Framhlaup að hefjast í Dyngjujökli | Jarðvísindastofnun HÍ). Dyngjujökull er þekktur framhlaupsjökull og líða um 20–30 ár að jafnaði á milli framhlaupa. Hann hljóp síðast fram á árunum 1998 til 2000.
Fyrstu merki um framhlaup koma oft fram sem aukinn skriðhraði nærri jafnvægislínu nokkrum árum áður en verulega herðir á hraðanum. Framhlaup er óregla í hreyfingu jökla sem felst í því að jökulskriðið herðir tímabundið á sér, oft tífalt, hundraðfalt eða jafnvel meira, og jökullinn springur allur upp (Jöklafræði - Vatnajökulsþjóðgarður). Í framhlaupum flyst ís af safnsvæðinu og jökulyfirborðið lækkar en þykknar á leysingarsvæðinu og sporðurinn gengur fram um hundruð metra eða jafnvel marga kílómetra. Samfara þessu eykst afrennsli frá jöklinum og vatn sprettur fram undan jökulsporði mun víðar en alla jafna. Aurburður í ám sem frá jöklinum falla vex margfalt. Fyrir áhugasama er nánari upplýsingar um framhlaup í jöklum hér á landi og í öðrum löndum er að finna í yfirlitsgreinum í lista hér að neðan.
Ekki er alveg ljóst hversu stórt áhrifasvæði framhlaupsins verður en vert er að vara við ferðum á Dyngjujökli (Travel conditions - Safetravel). Líklega hafa nú þegar myndast sprungur á svæðum sem hafa verið greiðfær og ósprungin síðastliðin 20 ár.
Svæðið sem síðasta framhlaup náði til og hafa má gróflega til hliðsjónar varðandi líklegt umfang hlaupsins sem nú er hafið, er sýnt á kortinu.
Fylgst verður með framhlaupinu í samstarfi innlendra stofnana (Jarðvísindastofnunar Háskólans, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnunar) og erlendra samstarfsstofnana með margvíslegri gagnaöflun og greiningu. Hafinn er undirbúningur að loftmyndatöku, greiningu á fjarkönnunargögnum, GPS-mælingum, rennslismælingum, greiningu vatns- og aurburðarsýna og uppsetningu hikmyndavéla til þess að skrásetja framhlaupið.
Nánari upplýsingar:
- Helgi Björnsson, Finnur Pálsson, Oddur Sigurðsson, G. E. Flowers (2003). Surges of glaciers in Iceland. Annals of Glaciology, 36, 82–90. https://doi.org/10.3189/172756403781816365
- Raymond, C. F. (1987). How do glaciers surge? A review. Journal of Geophysical Research: Solid Earth, 92(B9), 9121–9134. https://doi.org/10.1029/JB092iB09p09121
- Harrison, W. D., A. S. Post (2003). How much do we really know about glacier surging? Annals of Glaciology, 36, 1–6. https://doi.org/10.3189/172756403781816185
- Vísindavefurinn: Getið þið útskýrt framhlaup jökla?

Framhlaup í Dyngjujökli 1977. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson, 27. september 1977.





