Fréttir
Mynd tekin með flygildi í átt að svæðinu þar sem stærsta skriðan féll í desember 2020. (Ljósmynd: Veðurstofan)

Góð reynsla af mælitækjum sem vakta ofanflóðahættu í Seyðisfirði og Eskifirði

Unnið verður að frekari rannsóknum í sumar

21.5.2021

Í vor og í sumar verður unnið að ýmiss konar jarðfræðilegum rannsóknum og kortlagningu lausra jarðlaga í hlíðum ofan við Eskifjörð og Seyðisfjörð. Einnig verður unnið að uppsetningu mælitækja til vöktunar og rannsókna.

Á Eskifirði verða kortlögð ummerki um hreyfingu jarðlaga í hlíðinni ofan við þéttbýlið. Sprungur verða mældar, lindir kortlagðar og jarðvegssnið greind á völdum svæðum. Sérfræðingar frá Veðurstofunni og Náttúrufræðistofnun ásamt jarðfræðingunum Ágústi Guðmundssyni og Birni Jóhanni Björnssyni koma að þessari vinnu sem áætlað er að fari fram fyrri hluta júní. Í framhaldinu er stefnt á að bora 2‒3 holur sem verða fóðraðar og ná niður í klöpp í gegnum laus jarðlög. Í holunum verður komið fyrir mælitækjum sem greina hreyfingu jarðlaga.

Seinna í sumar kemur til greina að bora fleiri rannsóknarholur í þeim tilgangi að greina jarðlög, rannsaka eiginleika og efnisgerðir jarðlaganna og greina mögulega veikleika í jarðlagastaflanum.

Á Eskifirði hafa verið gerðar reglulegar mælingar með alstöð frá því að hreyfingar varð vart í Oddsskarðsvegi ofan við þéttbýlið í desember síðastliðnum. Alstöðin er sett á þar til gerðar undirstöður og hún skýtur leysigeisla á spegla sem settir hafa verið upp víðs vegar um hlíðina í þessum tilgangi. Alstöðin mælir fjarlægð og horn til speglanna og þar með mögulega hreyfingu á jarðlögum nærri yfirborði. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst frá því í desember, en alstöðin getur numið hreyfingu með nokkurra millimetra nákvæmni

Góð reynsla af mælitækjum

Á Seyðisfirði hafa nokkrar mismunandi gerðir mælitækja verið settar upp frá því að skriður féllu úr hlíðinni í sunnanverðum firðinum í desember 2020. Net af speglum hefur verið sett upp í Neðri-Botnum og eru speglarnir mældir inn með sjálfvirkri alstöð á hálftíma fresti. Einnig hafa verið settar upp níu sjálfvirkar GPS-stöðvar, sjálfvirkur úrkomumælir og tíu síritandi vatnshæðarmælar í borholur.

„Það hefur verið góð reynsla af þessum mælitækjum frá því að þau voru sett upp í lok desember og í byrjun árs“ segir Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á sviði skriðufalla á Veðurstofu Íslands. „Mælitækin skila mikilvægum gögnum fyrir rannsóknir og ekki síst vöktun á skriðuhættu á svæðinu“, segir Jón Kristinn. Fyrirhuguð er áframhaldandi uppsetning mælitækja og kortlagning á svæðinu.

Sey-4

Spegill sem notaður er við mælingar á hreyfingu jarðlaga með alstöð. Nokkrir speglanna eru festir á staur eins og þessi á myndinni til þess að sjónlína náist við alstöð þegar snjór er á jörðu. Aðrir speglar eru festir beint á stóra steina sem standa hátt í landinu. Alls eru 39 speglar mældir á hálftíma fresti og nokkrir speglar til viðbótar eru notaðir til viðmiðunar. Alstöðin er í kofa norðan megin í firðinum og sendir geisla á speglana og mælir þannig horn og fjarlægð. (Ljósmynd: Veðurstofan)

Frekari mælingar og kortlagning á Seyðisfirði fyrri hluta júní

Sérfræðingar Veðurstofu, Náttúrufræðistofnunar og verkfræðistofunnar Eflu ásamt fleiri jarðvísindamönnum munu vinna við mælingar og kortlagningu á Seyðisfirði fyrri hluta júní. Skriðusárin frá því í desember 2020 verða kortlögð og sýni tekin úr þeim til frekari greiningar. Jarðlagasnið verða tekin í gömlum skriðusárum í Neðri-Botnum og þau greind m.t.t. aldurs og gerðar jarðlaganna. Hugsanlega verða tekin frekari jarðlagasnið neðan Botnabrúnar til þess að kanna ummerki fyrri skriðufalla til viðbótar við slík snið sem áður hafa verið tekin. Klárað verður að kortleggja yfirborðsummerki eftir skriðuhrinuna í fyrra. Þessi kortlagning nýtist m.a. við endurskoðun á hættumati.

Sey-5

Mynd tekin með flygildi ofan á svæðið þar sem stærsta skriðan féll í desember 2020. Varnargarðar hafa verið mótaðir úr skriðuefni til þess að verja byggð. (Ljósmynd: Veðurstofan)

Fylgst með vatnshæð og hreyfingu jarðlaga með mælitækjum í borholum

Á Seyðisfirði eru nokkrar fóðraðar borholur í Neðri-Botnum og Þófa í sunnanverðum firðinum. Þær voru boraðar árið 2002 og í nokkrum þeirra er mæld vatnshæð sem gefur vísbendingar um grunnvatnsstöðu á svæðinu. Við holumyndatöku kom í ljós að margar af borholunum eru klemmdar og aflagaðar. Líklega hefur það gerst við aðstæður eins og í desember 2020 þegar hreyfing kemst á jarðlög í mikilli rigningu og/eða leysingu. Af þessum sökum reynist ekki mögulegt að setja niður aflögunarmæla í nokkrar af þeim holum sem áhugavert væri að mæla á þann hátt. En ein af holunum sem eru nálægt brúninni er þó heil og búið er að kaupa aflögunarmæli sem á ensku kallast „shape array“ sem settur verður ofan í hana í lok maí eða byrjun júní. Mælirinn er samsettur af mörgum minni einingum sem spennast út í holuveggina og hann greinir hallabreytingar og þar með hreyfingu jarðlaga og aflögun í lóðréttu sniði.

Stefnt er á að bæta við fleiri fóðruðum borholum í Neðri-Botnum í júní í þeim tilgangi að mæla aflögun jarðlaga á fleiri stöðum. Jafnframt á að bora  rannsóknaholur í ágúst þar sem greind verða jarðlög í lóðréttum sniðum. En þær holur falla saman að borum lokinni og nýtast ekki fyrir mælabúnað.

Til viðbótar við þetta er einnig stefnt að því að setja upp tvo jarðvegssprungumæla sem mæla gliðnun á sprungum. Jarðvegshita- og rakamælar verða einnig settir upp í Neðri-Botnum. Speglum til mælingar á hreyfingu jarðlaga með alstöðva verður komið fyrir síðsumars á svæði ofarlega í Strandartindi þar sem talið er að sífreri sé í jörðu og líklegt er að margar skriður hafi átt upptök í gegnum tíðina. 

Stefnt að tilraunum með færanlegum radar

Þá er unnið að því að taka svokallaðan inSAR radar á leigu í tilraunaskyni. Um er að ræða færanlegan radar sem settur er á sérstakar undirstöður. Radarinn getur greint hreyfingu á yfirborði á milli mælinga með mikilli nákvæmni. „Hann mælir alla hlíðina en ekki bara ákveðna punkta eins og t.d. alstöðin eða GPS-stöðvar gera“ segir Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar á Veðurstofunni, en Harpa hefur verið einn af þeim sérfræðingum sem unnið hafa að því að fá radarinn til landsins. “En gallinn er hinsvegar sá að á stöðum þar sem gróður þekur yfirborð er ekki gott að mæla hreyfingu jarðlaga með þessari tækni, þannig að það þarf að gera ráð fyrir slíku þegar mælingar eru skoðaðar“, segir Harpa. Undirstöður fyrir radarinn verða settar upp á Seyðisfirði og hugsanlega einnig á Eskifirði.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica