Fréttir
Stephanie Alice Matti, sérfræðingur á sviði ofanflóða, við viðhald á snjómæli í Traðargili fyrir ofan Bolungarvík. Mynd: Heiður Þórsdóttir.

Haustið er undirbúningstími snjóflóðavaktarinnar

11.11.2025

Haustið er tími undirbúnings hjá snjóflóðavakt Veðurstofunnar. Auk undirbúnings hjá starfsfólki þarf að tryggja að mælakerfið sé tilbúið fyrir veturinn. Mikilvægur hluti af vöktunarkerfinu eru sjálfvirkir snjómælar, kallaðir SM4, sem mæla snjódýpt og hitastig með reglulegu millibili í snjónum og gefa þannig vísbendingar um eiginleika og stöðugleika hans.

Í ár hefur viðhaldsverkefnið verið sérstaklega umfangsmikið. Til viðbótar við venjulegt viðhald þurfti að skipta út mörgum snjómælum sem nýttu 2G og 3G kerfið til gagnaflutnings, en slökkt verður á þeim kerfum um áramótin. Nú er þetta að hafast, en á síðustu tveimur vikum hefur verið farið á eftirfarandi staði sem eru meðal þeirra síðustu sem þurfti að heimsækja þetta haustið:

  • Krössöxl ofan þjóðvegar um Ljósavatnsskarð

  • Harðskafi ofan Eskifjarðar

  • „Steiniðjugil“ ofan Ísafjarðar

  • Traðargil ofan Bolungarvíkur

  • Drangagil og Tröllagil ofan Neskaupstaðar

  • Innra-Bæjargil ofan Flateyrar

Mælarnir eru flestir hátt uppi í bröttum hlíðum þar sem vindur, snjósig, ísing, snjóflóð og grjóthrun gera rekstur krefjandi. Aðgengi að mælunum er einnig víða erfitt en Veðurstofan naut aðstoðar þyrlu landhelgisgæslunnar við flutning fyrir mælana ofan Flateyrar og Bolungarvíkur.

Meðfylgjandi myndir eru teknar af vettvangi. 


Tradargil5

Daði Benediktsson og Hlynur Sveinsson snjóathugunarmenn í Neskaupstað, við vinnu í Tröllagili ofan Neskaupstaðar. Snjómælirinn er festur með vírum í brattri hlíð til að standast vind, ísingu og snjóflóð. Fyrir ofan þá sjást upptakastoðvirki. Mynd: Jóhannes Konráð Andrésson.


Tradargil4

Stephanie Alice Matti, sérfræðfræðingur á sviði ofanflóða, við viðhald á snjómæli í Traðargili fyrir ofan Bolungarvík. Mynd: Heiður Þórisdóttir.

Tradargil2

Aðstæður við Traðargil við Bolungarvík. Mynd: Heiður Þórisdóttir

Tradargil3

Útsýni frá snjómæli í Traðargili. Mynd: Heiður Þórisdóttir.

Tradargil1

Snjómælir í snjóþungri hlíð í Traðargili. Mælirinn er hannaður til að þola erfiðar aðstæður, þar á meðal vind, ísingu og snjóflóð. Mynd: Heiður Þórisdóttir.

gleiðarhjalli

Nýuppsett GNSS-stöð á Gleiðarhjalla við Ísafjörð.Veðurstofan naut liðsinnis þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar við uppsetningu. Mynd: Jóhannes Konráð Andrésson.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica