Fréttir

Hiti yfir 29 gráður á Hjarðarlandi – met féllu víða um land

14.7.2025

Sérlega hlýtt var víða um land og hitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum. Hæsti hiti dagsins mældist á Hjarðarlandi, þar sem hitinn fór í 29,5°C og er það nýtt staðarmet. Í Reykjavík fór hitinn í fyrsta sinn á þessu ári yfir 20 gráður þegar hitinn mældist 20,8°C við Veðurstofuna.

Víða um land fór hitinn yfir 26–27°C og dagshitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum. Á stöðum eins og Þingvöllum, Skálholti, Kálfhóli og Bræðratunguvegi mældist hitinn yfir 28°C, sem er óvenjulegt jafnvel að sumri og sýnir vel hversu mikil hlýindi voru í dag.

Stöðvar þar sem hitinn fór yfir 28°C:

  • Hjarðarland: 29,5°C (staðarmet)
  • Bræðratunguvegur: 28,7°C
  • Lyngdalsheiði: 28,3°C
  • Skálholt: 28,3°C
  • Kálfhóll: 28,0°C

Auk þess fór hitinn yfir 27°C á stöðum eins og Þingvöllum, Mörk á Landi, Öræfum og Ásbyrgi og dagshitamet féllu þar einnig.

Athygli vekur að á mörgum stöðvum var munurinn á nýju meti og fyrra meti óvenju mikill, sums staðar yfir 8°C. Slík stökk eru sjaldséð og sýna vel hve hlýtt var í dag.

Veðurhorfur fyrir morgundaginn:
Áfram má búast við hægviðri eða hafgolu. Víða verður bjart eða léttskýjað, en þokubakkar gætu leitað að norður- og norðvesturströndinni. Síðdegis má reikna með stöku skúrum sunnanlands.
Hiti verður á bilinu 17 til 28 stig, hlýjast norðaustanlands en svalara þar sem þokan nær inn.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica