Fréttir
Kvöldsól yfir Setrinu
Kvöldsól yfir Setrinu, bækistöð leiðangursmanna í vorferðum. Ljósmynd Þorsteinn Þorsteinsson

Hofsjökull rýrnar enn

4.11.2021

Haustmælingum á jöklum landsins er nú að mestu lokið og enn halda jöklarnir áfram að hopa og rýrna. Við apríllok var vetrarafkoma Hofsjökuls mæld og reyndist hún í tæpu meðallagi. Leysing á Hofsjökli á liðnu sumri var mæld í leiðangri Veðurstofu Íslands dagana 19.−22. október og reyndist hún veruleg, einkum á norðanverðum jöklinum. Stóðu stikur 1−2 metrum hærra upp úr snjó og ís á jöklinum en algengast er. Nokkrar höfðu kiknað undan hauststormum og grafist í snjó á yfirborði. Þær fundust þó með leitartæki sem nemur spanað merki frá lítilli flögu, sem fest er á topp stikanna í vorferðum. Var þá hægt að rétta upp stikurnar og lesa af þeim hversu mikið yfirborðið hafði lækkað um sumarið.

Leysingarstika_0411221

Lesið af leysingarstiku á hábungu Hofsjökuls (Ljósmynd Veðurstofa Íslands/Bergur Einarsson)


Hofsjökull nær yfir hæðarbilið 650−1790 m og er því verulegur munur á afkomu sumarsins milli ákomu- og leysingarsvæða. Á ákomusvæðinu ofan við 1300 m hæð mælist snjólag vetrarins yfirleitt 4−7 m þykkt að vori og þynnist það um 1−2 metra yfir sumartímann vegna leysingar og þjöppunar. Á leysingarsvæðinu bráðna fyrst 1−3 metrar af vetrarsnjó og kemur þá jökulís fram undan snjónum; síðan bráðna 1−5 metrar íss seinni hluta sumars. Þar er snjóbráðnun og ísbráðnun lögð saman til að fá heildartölu um sumarafkomu. Mælt er á þremur ísasviðum á jöklinum, sem samanlagt ná yfir 40% af flatarmáli hans.

Í vorferð mældist vetrarafkoma á jöklinum að jafnaði 1.5 m (vatnsgildi), um 5% undir 30 ára meðaltali áranna 1991−2020. Sumarafkoma mældist að jafnaði −2.4 m (vatnsgildi), sem samsvarar því að leysing hafi verið um 15% umfram meðaltal mælt á stikum. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna því aðeins er mælt í 20 punktum á jökli sem er rúmir 800 km2 að flatarmáli. Hefur komið í ljós að sumar stikurnar eru í staðbundnum snjóakistum og mælingar þar leiða til ofmats á vetrarafkomu. Því þarf að leiðrétta afkomutölurnar skv. niðurstöðum úr hæðarlíkönum, sem útbúin eru á nokkurra ára fresti. Einnig er leiðrétt fyrir innri bráðnun vegna ísskriðs og rennslis bræðsluvatns í iðrum jökulsins.

 Hofsjokull_041121

Mælipunktar á Hofsjökli


Að loknum þessum leiðréttingum fæst þessi lokaniðurstaða:


Ársafkoma Hofsjökuls 2020−2021:   −1.33 m (vatnsgildi)

Meðaltal áranna 1991−2020:             −0.92 m

 

Rýrnun Hofsjökuls á þessu ári var því 45% umfram meðaltal síðustu 30 ára. Kemur þetta ekki á óvart í ljósi hlýinda á liðnu sumri, einkum í júlí og ágúst. Meðalhiti á Hveravöllum var t.d. 10.6°C í ágúst, þ.e. 3.4°C yfir 30 ára meðaltalinu 1991−2020. Þá var sumarið óvenju sólríkt á Norðurlandi og getur það skýrt hina miklu leysingu, sem mældist á norðanverðum jöklinum.

Afkoma Hofsjökuls hefur nú verið mæld árlega frá árinu 1989. Á þessum 33 árum hefur ársafkoman mælst neikvæð (þ.e. jökullinn rýrnað) í 28 skipti en jákvæð aðeins 5 sinnum. Jökulárið 2020−2021 reyndist hið 8. lakasta í röðinni; þ.e. 7 sinnum hefur árleg rýrnun jökulsins mælst meiri. Hefur Hofsjökull nú tapað tæpum 15% af rúmmáli sínu frá upphafi mælinganna.

Nýjustu niðurstöður frá Hofsjökli verða kynntar á þingi norrænna jöklafræðinga, sem haldið er í Ósló í þessari viku.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica