Fréttir
Grimsvotn3
Sigketillinn sem myndaðist suðaustur af Grímsvötnum. Vísindamenn stefna á að fara í útsýnisflug í dag eða á morgun til að kanna sigketilinn nánar. (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)

Minnkandi líkur á gosi í Grímsvötnum

VONA fluglitakóði hefur verið færður niður á gult

7.12.2021

Uppfært 7.12. kl. 11:00

Veðurstofan hefur fært fluglitakóða fyrir Grímsvötn niður á gult. Í kjölfar aukinnar skjálftavirkni í gærmorgun, þar sem m.a. mældist skjálfti af stærð 3,6 sem er óvenjustór fyrir Grímsvötn, var fluglitakóðinn settur á appelsínugult. Samkvæmt skilgreiningu er uppfærsla á fluglitakóðanum í appelsínugult þegar að eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi.

„Við fórum upp á tærnar í gær þegar þessi skjálfti mælist og fleiri minni skjálftar mældust í gærmorgun. Það er alveg týpískur undanfari eldgoss, það er aukin skjálftavirkni þannig að það var full ástæða til að bregðast við því“, sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunnar á Veðurstofunni, í samtali við RÚV í morgun. num endurskoða þennan fluglitakóða.“ segir Kristín.

„Við þurfum bara að bregðast við virkninni hverju sinni og það voru mestar líkur í tengslum við þessa fargléttingu og nú er hún afstaðin og við búumst við því að svarið sé nánast samtímiss, að það líði ekki mikill tími frá því að eldstöðin upplifi þennan mikla farglétti þar til að hún fari í gang, ef svo má segja. Þessi sviðsmynd, að hlaup setji í gang eldgos, mér finnst hún fara að verða óliklegri með hverjum deginum.“ segir Kristín.

Grímsvötn eru langvirkasta eldfjallakerfi landsins og í fyrri gosum hefur aðdragandi yfirleitt  verið stuttur að gosum þar. Því er ástæða til að bregðast hratt við þegar eldstöðin sýnir virkni sem ekki telst til svokallaðrar „bakgrunnsvirkni“. Sem dæmi um viðbragð við þeirri virkni var að færa fluglitakóða fyrir Grímsvötn af gulu yfir á appelsínugult. Fluglitakóðinn hefur nú verið færður aftur niður á gult þar sem dregið hefur úr skjálftavirkni og eldstöðin sýnir engin önnur merki um að gos sé yfirvofandi.

Vísindamenn munu þó halda áfram að beina sjónum sínum að Grímsvötnum. Stefnt er að útsýnisflugi í dag eða á morgun, m.a. til að skoða betur nýjan sigketil sem myndaðist suðaustur af Grímsfjalli.


Uppfært 6.12. kl 16:24

Samkvæmt nýjustu rennslismælingum sem gerðar voru í Gígjukvísl á milli 09:30-12:30 í dag var rennslið 1100 m3/s og hefur því lækkað verulega.

Enginn gosórói hefur mælst en náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast náið með skjálftavirkni á svæðinu. Skjálftavirkni svipuð þeirri sem hefur verið í dag í Grímsvötnum er aukin m.v. eðlilegt ástand.

Uppfært 6.12. kl 10:35

Breyting hefur verið gerð á fluglitakóða vegna Grímsvatna. Litakóðinn hefur verið færður úr gulum yfir í appelsínugulann. Í morgun mældist skjálfti upp á 2,3 af stærð og í kjölfarið kom skjálfti, 3,6 af stærð. Nokkrir eftirskjálftar hafa verið yfir 1 af stærð. Samkvæmt skilgreiningu er uppfærsla á fluglitakóðanum í appelsínugult þegar að eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi. Allar VONA tilkynningar eru birtar hér.

Uppfært 6.12. kl 09:20

Samkvæmt rennslismælingum sem gerðar voru á milli 16-18 í gærdag var rennsli í Gígjukvísl þá 2310 m3/s. Snemma í morgun kl 06:10 varð skjálfti 3,6 að stærð við Grímsvatn en nokkrir eftirskjálftar fylgdu og sá stærsti 2,3 að stærð. Ekki mælist gosórói. Samkvæmt GPS mæli veðurstofunnar í Grímsvötnum hefur íshellan sigið nú um 77 metra. Mikið hefur hægt á siginu og hlaupóróinn minnkað svo draga má þá ályktun að vötnin séu búin að tæma sig að mestu.

Uppfært 5.12. kl. 16:15

Nýjustu rennslismælingar í Gígjukvísl sem gerðar voru milli 10.30 -13 í dag gáfu rennsli upp á um 2.800 m3/s. Rennslið mældist um 2.600m3/ síðdegis í gær. Rafleiðni hefur haldist nánast óbreytt frá því í gær, laugardag.

Íshellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur verulega á siginu. Mælingar sýna einnig að talsvert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að óróinn náði hámarki í nótt. Hvoru tveggja eru vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki. Það verður hinsvegar ekki ljóst fyrr en hægt verður að gera nýjar rennslismælingar. Vatnamælingamenn á vegum Veðurstofunnar eru að störfum við Gígjukvísl en aðstæður til mælinga eru mjög slæmar vegna veðurs og því er ekki víst að nýjar mælingar berist fyrr en á morgun, mánudag.

Hlaup_trem_202111

Graf sem sýnir hlaupóróa. Mælingar sýna að hlaupórói undir jökli náði hámarki í nótt. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporðinum og út í Gígjukvísl. Vöttur(vot) er mælitæki staðsett nokkurn veginn mitt á milli Grímsfjalls og sporðsins á Skeiðarárjökli.

Enginn gosórói mælist

Náið hefur verið fylgst með skjálftavirkninni við Grímsvötn. Talsvert hefur verið um ísskjálfta sem mælast þegar íshellan brotnar vegna atgangsins í hlaupinu. Enginn gosórói mælist, en vísindamenn munu halda áfram að greina þá skjálfta sem mælst hafa.

Í útsýnisflugi í gær sást nýr sigketill suðaustan við Grímsfjall og er staðsettur á svipuðum slóðum og farvegur hlaupvatns liggur úr Grímsvötnum undir jöklinum. Vísindamenn munu rýna í mælingar og gögn sem geta gefið vísbendingar um hvernig og hvenær ketillinn myndaðist, en viðbúið er að breytingar geti orðið á jarðhitakerfinu við Grímsvötn eftir atburðarás síðustu daga. Veður hefur hamlað útsýnisflugi í dag, en áfram verður fylgst náið með framgangi mála við Grímsvötn og Gígjukvísl.

Grimsvotn3

Sigketillinn sem sást í útsýnisflugi í gær suðaustur af Grímsvötnum. Horft í átt að eystri hnjúknum við Grímsvötn sem baðaður er síðdegissól. (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)


Uppfært 5.12. kl.11.00

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar eru við mælingar á rennsli í Gígjukvísl en ekki er búist við niðurstöðum úr þeim mælingum fyrr en eftir hádegi í dag. Síðdegis í gær var rennslið komið í um 2.600 rúmmetra á sekúndu sem var í takt við spár um framgang hlaupsins. Íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um 70 metra á einni og hálfri viku.

Farið var í útsýnisflug í gær og sýna myndir teknar í því flugi að vatnið kemur aðallega frá austanverðum Skeiðarárjökli, en einnig úr einni rás við miðjan jökulsporðinn.

Grimsvotn4_Skeidararjokull

Mynd tekin í útsýnisflugi í gær og sýnir hlaupvatn streyma undan austanverðum Skeiðarárjökli (Ljósmynd: Veðurstofan - Njáll Fannar Reynisson)


Uppfært 4.12. kl 15:15

Samkvæmt nýjustu mælingum sem teknar voru á milli 09:40-12:30 er rennsli í Gígjukvísl 2220 m3/s og rafleiðni mælist nú um 550µS/cm. Þessar mælingar eru í takti við þær rennslisspár sem gerðar hafa verið og er ennþá gert ráð fyrir að flóðið nái hámarki á morgun, sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð. Hlaupórói er enn vaxandi á Grímsfjalli og nálægum stöðvum og nokkrir skjálftar hafa mælst á svæðinu, sumir þeirra eiga líkleg upptök í ísnum yfir vötnunum eða þar sem vatnið ryður sér leið. Fylgst er náið með svæðinu.

Uppfært 3.12. kl 15:15

Samkvæmt nýjastu mælingum er rennsli í Gígjukvísl 1600 m3/s  og rafleiðni mælist 464 µS/cm og fer hækkandi.

Nýjustu mælingar falla áfram nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð. Nýjustu útreikningar áætla að hámarksrennsli geti verið í kringum 4000 m3/s.

Áfram verður fylgst grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum.

Uppfært 2.12. kl. 16:00

Um 9 dagar eru frá því að íshellan í Grímsvötnum byrjaði að síga og hlaupvatn byrjaði að brjóta sér leið undir jöklinum. Nýjustu mælingar sýna að íshellan í Grímsvötnum hefur frá þeim tíma sigið um rúma 17 m. Vatnamælingamenn Veðurstofunnar mældu rennsli í Gígjukvísl um kl. 11 í morgun sem var þá tæplega 930m3/s og hefur rennslið því nær þrefaldast á um þremur sólarhringum. Þetta rennsli er 10-falt rennsli árinnar miðað við árstíma. Rafleiðni, sem gefur til kynna magn hlaupvatns í ánni, hefur einnig aukist undanfarna daga og mældist um 272 uS/cm kl. 13 í dag og fer hækkandi. Gas mælist í litlu magni við jökulsporðinn og er vel innan hættumarka


Vatnamælingamenn Veðurstofunnar að störfum við Gígjukvísl í dag. Gunnar Sigurðsson tekur aurðburðarsýni á brúnni yfir Gígjukvísl á Þjóðvegi 1. (Ljósmynd: Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson)

Rennslispár að ganga eftir en atburðarásin getur breyst

Nýjustu mælingar falla nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð.

Eins og áður hefur komið fram, eru dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa þó mælst nú.

Síðast gaus í Grímsvötnum 2011, en í það skiptið hafði hlaupið úr Grímsvötnum rúmum sex mánuðum áður. Síðan 2011 hefur svo hlaupið alls 6 sinnum úr Grímsvötnum án þess að eldgos verði.

Gosið hefur á fimm til tíu ára fresti úr Grímsvötnum og kemur vísindamönnum saman um að mælingar sýna að aðstæður eru með þeim hætti að Grímsvötn eru tilbúin að gjósa. Ekkert er þó hægt að fullyrða um að eldgos verði samfara þessu hlaupi og fylgjast þarf grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum sem gætu gefið vísbendingar um að gos sé yfirvofandi.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


Uppfært 01.12 kl 12:10

GPS mælir Veðurstofunnar í Grímsvötnum sýnir að íshellan haldur áfram að síga og hefur hún sigið tæpa 10 metra frá því að hún mældist hæst.

Haedarbreyting-i-grimsvotnum

Hlaupvatn er nú komið fram í Gígjukvísl og hefur vatnshæð þar hækkað smátt og smátt í gærdag og nótt. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni eru á leið á vettvang og munu þeir fylgjast með þróun hlaupsins og mæla rennsli í ánni.

Gigjukvisl1

Gigjukvisl2

mynd : Gígjukvísl. Myndir teknar til suðurs með vefmyndavél Veðurstofu Íslands. Mynd frá 28. nóvember (A) og mynd tekin í morgun 1. desember (B).

Búast má við því að vatnshæð og rennsli haldi áfram að aukast í Gígjukvísl næstu daga. Jöklafræðingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hafa birt spálíkan sem gerir ráð fyrir því  að hámarksrennsli í þessum atburði verði náð kringum næstu helgi eða byrjun næstu viku. Rennsli úr Grímsvötnum hefur vaxið hægar í þessu hlaupi en í Grímsvatnahlaup 2010, og miðaðvið nýjustu gögn er búist við að hámarksrennsli i Gígjukvísl verði um 4000 m3/s. Engar líkur eru á að hlaupvatn fari í hinn gamla farveg Skeiðarár. Sjá nánari upplýsingar um spálíkanið á f acebook síðu Jarðvísindastofnunar. .


Uppfært 29.11. kl. 16.45

Íshellan hefur nú sigið um tæpa 5m. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni voru að störfum á bökkum árinnar í dag til að huga að mælitækjum. Rétt fyrir hádegi mældist rennsli árinnar um 240m3/s og hefur haldist óbreytt þegar þessi tilkynning er birt kl. 16.45 í dag. Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum gæti hámarksrennsli hlaupsins orðið um 5.000 m3/s þó ekkert sé hægt að fullyrða á þessu stigi að það verði raunin. Hlaupórói mælist á skjálftamælum, sem gefur til kynna að vatn er farið að streyma undir jöklinum. Rafleiðni hefur hinsvegar vaxið mjög hægt í ánni og ekkert gas mælist.

Mælingar á vegum Jarðvísindastofnunar Háskólans benda til þess að um 0.1km3 vatns hafi þegar farið úr vötnunum, sem er um 10% af því vatni sem var í Grímsvötnum áður en íshellan tók að síga. Ekki er þó sjálfgefið að vötnin tæmist.

Discharge_29112021

Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Uppfært 25.11. kl. 9.15

Sighraði á íshellu hefur haldist nokkuð jafn í nótt. GPS mælir Veðurstofunnar sýnir að hellan hefur sigið um 25 sm frá því um kl. 10 í gærmorgun.

Engar markverðar breytingar hafa mælst í Gígjukvísl hvort sem er vatnshæð, rafleiðni né gas.

Veðurstofan í samstarfi við vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskólans fylgjast áfram náið með þróun mála.

Uppfært 24.11. kl. 16.30

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag um stöðu mála í Grímsvötnum en mælingar sýna að íshellan þar sé farin að síga sem er vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum.

Íshellan í Grímsvötnum hefur nú sigið um tæpa 60sm á síðustu dögum og hraðinn á siginu hefur verið að aukast síðasta sólarhringinn. Miðað við þessar mælingar eru allar líkur á því að vatn sé farið að streyma úr Grímsvötnum og að vona sé á hlaupi í Gígjukvísl. 

Miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar á næstu tveimur dögum og muni ná hámarki á 4-8 dögum eftir það. Eins og er mælist engin aukning í rafleiðni í Gígjukvísl sem er skýrasta merki þess að hlaupvatn sé komið undan jöklinum. Veðurstofan er einnig með gasmæla við upptök Gígjukvíslar sem einnig gæfu vísbendingar um hvort hlaupvatn sé í farveginum. 

Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum núna má reikna með að hámarksrennsli hlaupsins verði um 5000 m3/s. Slíkt hlaup hefði að öllum líkindum lítil áhrif á á mannvirki s.s. vegi og brýr. Of snemmt er þó að fullyrða um hvert umfang hlaupsins getur orðið.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa mælst nú.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


24.11. kl 14:00

Mælingar í Grímsvötnum benda til þess að íshellan sé farin að síga. Þetta gæti verið vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum. Vísindaráð almannavarna mun funda um stöðuna síðar í dag og frekari upplýsinga er að vænta að loknum þeim fundi.
Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica