Íslenskir jöklar rýrnuðu um 15 milljarða tonna 2024-2025
Jökulárið 2024–2025 reyndist jöklum landsins þungt í skauti samkvæmt nýrri samantekt sem unnin var í samstarfi Landsvirkjunar, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands og byggir á greiningu afkomumælinga sem stofnanirnar sinna.
Niðurstöðurnar sýna að heildarmassatap íslenskra jökla nam rúmum 15 gígatonnum (milljörðum tonna) jökulárið 2024–2025. Þar af rýrnaði Vatnajökull um tæplega 11 milljarða tonna og Hofsjökull og Langjökull um samtals tæplega 3 milljarða tonna. Þetta mikla tap skýrist annars vegar af óvenjulegum hlýindum að hausti og vetri, sem ollu því að úrkoma féll sem regn frekar en snjór, og hins vegar af einu hlýjasta sumri frá upphafi mælinga. Gögnin benda jafnframt til þess að tímabili hægari rýrnunar, sem ríkti árin 2012–2020, sé lokið og jöklarnir tapi nú aftur massa jafn ört og á tímabilinu 1995–2011.
Regn í stað snævar
Veðurlag veturinn 2024–2025 var óvenjulegt og einkenndist af miklum sveiflum sem höfðu afgerandi áhrif á afkomu jöklanna. Eftir kaldan október gerðu mikil hlýindi í nóvember. Við venjulegar aðstæður hefði snjór þá tekið að safnast upp á hálendinu en þess í stað varð veruleg leysing. Afkoma jökla stjórnast að talsverðu leyti af því hve stór hluti úrkomunnar fellur sem regn fremur en snjór að vetri. Á Vatnajökli var hlutfall regns af heildarúrkomu vetrarins um 27% og hefur það ekki verið jafn hátt síðan um veturinn 2016–2017. Afkomumælingar sýndu að snjósöfnun var í lægsta fjórðungi mæligilda frá stóru jöklunum þremur, Vatnajökli, Hofsjökli og Langjökli sl. 3-4 áratugi. Á Hofsjökli mældist snjóþykktin á hábungu jökulsins (~1800 m y.s.) 5,0 m og hefur aldrei mælst minni frá upphafi mælinga árið 1988.
Hitabylgja í maí og methiti að sumri
Í maí 2025 gekk yfir landið óvenjuleg og langvinn hitabylgja. Mældist hiti þá víða yfir 20°C og hitamet voru slegin. Heiðskírt veður fylgdi hitanum og var sólgeislun því mikil og bræddi vetrarsnjó hratt. Þótt stutt sumarhret hafi gert í byrjun júní var sumarið í heild eitt það heitasta frá upphafi mælinga samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands. Sumarleysing á Vatnajökli mældist sú þriðja mesta frá upphafi mælinga og á Hofsjökli sú fjórða mesta. Aðeins árin sem einkenndust af öskufalli úr Eyjafjallajökli (2010) eða sérstökum hlýindum hafa sýnt sambærilega leysingu. Ársafkoma Vatnajökuls mældist um -1,43 metrar (vatnsgildi) og er það fjórða lakasta ársafkoma jökulsins frá upphafi mælinga. Hofsjökull kom enn verr út og rýrnaði um 2,09 metra, en aðeins árið 2010 hefur jökullinn tapað meiri massa. Langjökull rýrnaði um 1,49 metra sem er um 20% umfram árlega meðaltalsrýrnun.
Ástandið var sérstaklega slæmt á Tröllaskaga því þar mældist mesta rýrnun frá því mælingar hófust árið 2008. Á Deildardalsjökli var massatapið metið um 15% meira en fyrra metár, 2023. Hlýtt og sólríkt sumar olli því að megnið af snjófyrningum frá árunum 2013–2015 og 2022 leysti og í haust var því stærstur hluti yfirborðs jökla á svæðinu óhreinn jökulís.
Þróun til lengri tíma og tengsl við sjávarhita
Mælingarnar sýna greinilega hvernig afkoma jöklanna sveiflast í takt við sjávarhita sunnan við Ísland. Á tímabilinu 1995–2011 rýrnuðu jöklarnir hratt; Vatnajökull rýrnaði um 0,74 metra á ári að meðaltali. Árin 2012–2020 hægði hins vegar á leysingunni samfara kólnun sjávar á svæðinu og meðaltapið minnkaði í 0,34 metra á ári. Nú virðist sem þessi þróun hafi snúist við og sjór hlýnað á ný. Frá árinu 2020 hefur hraði rýrnunar aukist verulega og er meðalársafkoma Vatnajökuls aftur orðin svipuð og hún var á tímabilinu 1995–2011. Sömu sögu er að segja af Hofsjökli og Langjökli; eftir tímabil hægari rýrnunar virðist sem jöklarnir séu nú farnir að tapa massa jafn ört og um aldamótin síðustu.

Mæld yfirborðsafkoma þriggja stærstu jökla landsins.

Uppsöfnuð yfirborðsafkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá árinu 2000. b) Frávik sjávarhita suðvestan við Ísland (60° - 65° N og 30°- 20° W) m.v. tímabilið 1990 – 2020.



