Fréttir
Kortið sýnir skjálfta stærri en M1,0 á tímabilinu frá 15. febrúar til 6. mars, 2020.

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesi

Verulega dregið úr jarðskjálftavirkni við Þorbjörn. Óvissustig Almannavarna þó enn í gildi. Gasmælingar við hellismunna í Eldvörpum sýna gildi innan eðlilegra marka

8.3.2020

Dregið hefur verulega úr jarðskjálftavirkni við Þorbjörn.  Ekkert landris mælist lengur og líklegasta skýringin á þessari hegðun er að innflæði kviku sé lokið í bili. Vísbendingar eru um lítilsháttar sig frá miðjum febrúar en of snemmt er að túlka mælingarnar og því mikilvægt að fylgjast áfram vel með atburðarrásinni. Á þessu stigi er því ekki hægt að fullyrða að þessari atburðarás sem hófst í lok janúar sé lokið og áfram er í gildi óvissustig almannavarna sem lýst var yfir 26. janúar 2020.

Gasmælingar voru gerðar við Eldvörp í síðustu viku og mældust hættulega lág gildi súrefnis innan hellismunna. Nýjar mælingar voru gerðar í gær, föstudag, og var gildi CO2 við hellismunna innan eðlilegra marka (Hæsta gildi mælinga var 1400ppm). Almennt getur þó verið hættulegt að fara inn í hella á jarðhitasvæðum og fólk beðið að sýna aðgát í slíkum ferðum. 

Engar augljósar vísbendingar um að hrinan við Reykjanestá tengist landrisi við Þorbjörn

Seinnipartinn 4. mars jókst virkni aftur í hrinu sem verið hefur í gangi nálægt Reykjanestá síðan 15. febrúar. Sex skjálftar yfir M3,0 hafa mælst á svæðinu og var sá stærsti M3,4 að stærð kl. 16:49 miðvikudaginn 4. mars. Skjálftarnir eru staðsettir um 1 km N við Sýrufell. Hátt í 300 skjálftar mældust þar 4. mars en alls hafa nú um 580 skjálftar mælst við Reykjanestá í þessari hrinu. Árið 2013 var hrina á svipuðum slóðum en þá voru fleiri stærri skjálftar og var sá stærsti M5,2 að stærð.

Almennt er mikil skjálftavirkni á Reykjanesi og hrinur algengar. Þá er það þekkt að nokkur svæði sýni mikla virkni með svo stuttu millibili, þó svo að slíkt sé alls ekki algengt. Skjálftahrinur undanfarinna vikna á Reykjanesi, ásamt landrisinu við Þorbjörn, vekja því spurningar um hvort öll þessi virkni tengist á einhvern hátt. „Það eru engar augljósar vísbendingar um það í okkar gögnum“, segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Jarðvísindafólk við Háskólann og á Veðurstofunni eru að skoða hvað geti tengt þessar hrinur og landrisið og þar eru  nokkur möguleg ferli sem gætu komið til greina. Það er þó alls ekki útilokað  að tímasetningin á þessum hrinum sé hrein tilviljun og allar umræður um hugsanleg tengsl eru í raun fyrst og fremst getgátur á þessu stigi“, segir Benedikt.  

Næsti fundir jarðvísindamenn í vísindaráðsfundi Almannavarna virknina á Reykjanesi verður haldinn 12. mars að öllu óbreyttu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica