Fréttir
Gervitunglamynd frá 20. ágúst sem sýnir Hafrafellslón við jökuljaðarinn.

Jökulhlaupinu úr Hafrafellslóni að ljúka

25.8.2025

Uppfært 25. ágúst

  • Hámarksrennsli mældist ofan Húsafells aðfararnótt sunnudags 

  • Í Hvítá við Kljáfoss mældist hámarksrennsli um þrefalt meira en dæmigert er fyrir þennan árstíma 

  • Rennsli hefur minnkað jafnt og þétt frá því á sunnudagsmorgun 

  • Hop Langjökuls veldur stækkun lónsins og hlaupið nú var því allt að fjórfalt vatnsmeira heldur seinasta umtalsverða hlaup árið 2020 

  • Rennslishættir þessa hlaups eru flóknir og vatnið tiltölulega lengi að koma fram, hámarksrennsli hlaupsins í Svartá og efri hluta Hvítár er því heldur lægra nú heldur en 2020 

Jökulhlaupinu úr Hafrafellslóni, sem hófst 20. ágúst samkvæmt gervitunglamyndum, er að ljúka. Vatnshæð og rennsli í Hvítá eru orðin svipuð og fyrir hlaupið. Aðfaranótt sunnudags mældust tveir toppar á vatnshæð í Hvítá ofan Húsafells, með nokkurra klukkustunda millibili. Þeir marka hámark hlaupsins. Rennsli í Hvítá við mælistaðinn Kljáfoss, um 30 km neðan við Húsafell, náði hámarki snemma á sunnudagsmorgun. Það mældist 260 m³/s, sem er svipað og í hlaupinu í ágúst 2020 og er um þrefalt meira en grunnrennsli á þessum árstíma. Frá því í gærmorgun hefur jafnt og þétt dregið úr rennsli í ánni.  

Rennsli-i-Hvita-vid-Kljafoss

Áætlað rennsli í Hvítá við Kljáfoss frá 21. til 25. ágúst.  

Hafrafellslónið hefur stækkað verulega síðustu ár vegna hops jökulsins. Þess vegna var hlaupið nú um fjórfalt meira að rúmmáli en síðasta stóra hlaup í ágúst 2020. 
Hlaupið 2020 hafði styttri aðdraganda. Það var snarpur atburður sem kom mönnum að óvörum. Sandur sat á brúarbitum við ofanverða brúna á Hvítá ofan Húsafells eftir hlaupið. Þetta hlaup náði ekki upp að brúarbitunum og  heimamenn hafa ekki heyrt um spjöll af völdum vatnagangsins meðan að 2020 flæddi áin upp fyrir bakka sína og upp á tún. 

Hámarksrennsli í Svartá og efri hluta farvegar Hvítár var því að öllum líkindum meira þá en nú. Hlaupið 2020 kom mun hraðar fram heldur en hlaupið núna og náði hærra hámarksrennsli þrátt fyrir að vera vatnsminna í heildina. Hlaupið 2020 kom fram á innan við hálfum sólarhring en nú dreifðist meginhlauprennslið yfir þrjá sólahringa með lengri aðdraganda. 

Ekki er ljóst hvað ræður þessum mun á rennslisritum hlaupanna en líklegast er að hvernig vatnið finnur sér leið í gegnum jökulstífluna milli lónsins og jökuljaðarsins sé ráðandi þáttur. Árið 2020 virtist sem vatnið hefði fundið sér leið út úr lóninu við jökulbotn og fylgt honum alla leið að jaðri sem er algengasti rennslisháttur jökulstíflaðra lóna. Nú benda fyrstu athuganir til þess að vatnið hafi fundið sér leið inn í jökulinn ofarlega og runnið þaðan bæði á yfirborði og við botn. Umtalsverð vatnsrás myndaðist því á yfirborði jökulsins, sem er óvenjulegt. Sú vatnsrás flutti þó aðeins lítinn hluta hlaupsins meðan að meginvatnsmagnið kom fram við botn undan jökuljaðrinum. Leið hlaupsins í gegnum jökulinn virðist því hafa verið margbreytileg og flókin. Tveir afgerandi rennslistoppar, sem mynda hámark hlaupsins ofan Húsfellsskógar aðfaranótt sunnudags bera líka vitni um flókna atburðarás. Ekki er ljóst hvað veldur þessum toppum. 

Vatn-ur-Hafrafellsloni-fellur-inn-i-jokulstifluna-sem-myndar-lonid-Ljosmynd-Bergur-Einarsson

Vatn úr Hafrafellslóni fellur inn í jökulstífluna sem myndar lónið. (Ljósmynd: Bergur Einarsson/Veðurstofa Íslands) 

Vatnsrasin-sem-myndadist-a-yfirbordi-jokulsins-eins-og-hun-var-ad-kvoldi-fostudagsins-22-agust-Ljosmynd-Sigridur-Kristjansdottir

Vatnsrásin sem myndaðist á yfirborði jökulsins eins og hún var að kvöldi föstudagsins 22. Ágúst. (Ljósmynd: Sigríður Kristjánsdóttir/Veðurstofa Íslands)

 


 Frétt frá 22. ágúst 

Jökulhlaup hafið úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls

  • Hlaupið rennur í farveg Svartár og þaðan í Hvítá í Borgarfirði 

  • Vatnsstaða lónsins virðist hærri en nokkru sinni fyrr og því ekki hægt að útiloka að hlaupið nú verði umfangsmeira en árið 2020. 

  • Íbúum á svæðinu er bent á að huga að mögulegum áhrifum á eignir og búfénað við bakka Hvítár. 

  • Mikil óvissa um þróun hlaupsins en hversu hraður rennslisvöxturinn verður ræður miklu um hámarksrennsli og útbreiðslu 

Vatnsstaða í Hafrafellslóni í vesturjaðri Langjökuls virðist hærri en nokkru sinni fyrr. Undanfarnar vikur hafa sérfræðingar Veðurstofunnar fylgst með þróun lónsins með gervitunglamyndum. Hafrafellslón er jaðarlón og í það safnast leysingarvatn úr jöklinum að sumarlagi. Síðast varð umtalsvert jökulhlaup úr lóninu í ágúst 2020 og annað minna hlaup varð sumarið 2021. 

Naermynd-af-svaedinu-fra-Husafelli-upp-i-Langjokul

Nærmynd af svæðinu frá Húsafelli upp í Langjökul. Kortagrunnur: Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands. Kort úr skýrslu frá 2021 

Á gervitunglamyndum sem teknar voru 20. ágúst sáust vísbendingar um að lónið væri byrjað að tæma sig. Í gær bárust Veðurstofunni svo tilkynningar frá fólki á svæðinu um að vatn væri farið að flæða úr lóninu yfir jökuljaðarinn og þaðan í Svartá, sem síðan fellur í Hvítá ofan Húsafells. 

Gervitunglamynd-synir-Hafrafellslon-vid-jokuljadarinn

Gervitunglamynd frá 20. ágúst sem sýnir Hafrafellslón við jökuljaðarinn. 

Frá því í gærkvöldi hefur vatnshæð í Hvítá ofan Húsafells hækkað sem eru skýr merki um að hlaupvatnið sé byrjað að berast í ánna. Að svo stöddu er vatnshæðin enn innan þess sem mælst hefur í miklum vatnavöxtum vegna rigninga, en gera þarf ráð fyrir því að vatnshæðin haldi áfram að hækka næstu daga.  

Linuritid-synir-vatnshaed-i-Hvita-ofan-Husafells

Línuritið sýnir vatnshæð í Hvítá ofan Húsafells undanfarna sjö daga. Síðustu daga hefur komið fram eðlileg dægursveifla í vatnshæðinni, en í fyrrakvöld rofnaði það mynstur og vatnshæðin hefur farið ört hækkandi sem er skýrt merki um hlaup. 

Undanfarin ár hefur Hafrafellslón stækkað þar sem jökuljaðarinn hefur hopað. Í lóninu er nú meira vatn en fyrir hlaupið í ágúst 2020 og því gæti þetta hlaup orðið stærra. Enn ríkir þó veruleg óvissa um þróunina, meðal annars hversu langan tíma það tekur að ná hámarksrennsli. Hraði þróunarinnar ræður miklu um hvert hámarksrennslið verður og þar með hvort að útbreiðsla þessa hlaups verði meiri heldur en hlaupsins í ágúst 2020.

Árið 2020 flæddi upp að bitum brúarinnar á Hálsasveitarvegi yfir Hvítá, við Kaldadalsveg. Á ýmsum stöðum neðar í farveginum hafði hlaupið nokkur áhrif, til dæmis flæddi upp á engi við Brúarás. Íbúum á svæðinu er því bent á að huga að mögulegum áhrifum hlaups á eignir og búfénað nærri bökkum Hvítár. 

Frekari upplýsingar um hlaupið í ágúst 2020 má finna í skýrslu veðurstofunnar um það: https://www.vedur.is/media/vedurstofan-utgafa-2021/VI_2021_001.pdf 






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica