Fréttir
Gervitunglamynd frá 20. ágúst sem sýnir Hafrafellslón við jökuljaðarinn.

Jökulhlaup hafið úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls

22.8.2025

  • Hlaupið rennur í farveg Svartár og þaðan í Hvítá í Borgarfirði 

  • Vatnsstaða lónsins virðist hærri en nokkru sinni fyrr og því ekki hægt að útiloka að hlaupið nú verði umfangsmeira en árið 2020. 

  • Íbúum á svæðinu er bent á að huga að mögulegum áhrifum á eignir og búfénað við bakka Hvítár. 

  • Mikil óvissa um þróun hlaupsins en hversu hraður rennslisvöxturinn verður ræður miklu um hámarksrennsli og útbreiðslu 

Vatnsstaða í Hafrafellslóni í vesturjaðri Langjökuls virðist hærri en nokkru sinni fyrr. Undanfarnar vikur hafa sérfræðingar Veðurstofunnar fylgst með þróun lónsins með gervitunglamyndum. Hafrafellslón er jaðarlón og í það safnast leysingarvatn úr jöklinum að sumarlagi. Síðast varð umtalsvert jökulhlaup úr lóninu í ágúst 2020 og annað minna hlaup varð sumarið 2021. 

Naermynd-af-svaedinu-fra-Husafelli-upp-i-Langjokul

Nærmynd af svæðinu frá Húsafelli upp í Langjökul. Kortagrunnur: Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands. Kort úr skýrslu frá 2021 

Á gervitunglamyndum sem teknar voru 20. ágúst sáust vísbendingar um að lónið væri byrjað að tæma sig. Í gær bárust Veðurstofunni svo tilkynningar frá fólki á svæðinu um að vatn væri farið að flæða úr lóninu yfir jökuljaðarinn og þaðan í Svartá, sem síðan fellur í Hvítá ofan Húsafells. 

Gervitunglamynd-synir-Hafrafellslon-vid-jokuljadarinn

Gervitunglamynd frá 20. ágúst sem sýnir Hafrafellslón við jökuljaðarinn. 

Frá því í gærkvöldi hefur vatnshæð í Hvítá ofan Húsafells hækkað sem eru skýr merki um að hlaupvatnið sé byrjað að berast í ánna. Að svo stöddu er vatnshæðin enn innan þess sem mælst hefur í miklum vatnavöxtum vegna rigninga, en gera þarf ráð fyrir því að vatnshæðin haldi áfram að hækka næstu daga.  

Linuritid-synir-vatnshaed-i-Hvita-ofan-Husafells

Línuritið sýnir vatnshæð í Hvítá ofan Húsafells undanfarna sjö daga. Síðustu daga hefur komið fram eðlileg dægursveifla í vatnshæðinni, en í fyrrakvöld rofnaði það mynstur og vatnshæðin hefur farið ört hækkandi sem er skýrt merki um hlaup. 

Undanfarin ár hefur Hafrafellslón stækkað þar sem jökuljaðarinn hefur hopað. Í lóninu er nú meira vatn en fyrir hlaupið í ágúst 2020 og því gæti þetta hlaup orðið stærra. Enn ríkir þó veruleg óvissa um þróunina, meðal annars hversu langan tíma það tekur að ná hámarksrennsli. Hraði þróunarinnar ræður miklu um hvert hámarksrennslið verður og þar með hvort að útbreiðsla þessa hlaups verði meiri heldur en hlaupsins í ágúst 2020.

Árið 2020 flæddi upp að bitum brúarinnar á Hálsasveitarvegi yfir Hvítá, við Kaldadalsveg. Á ýmsum stöðum neðar í farveginum hafði hlaupið nokkur áhrif, til dæmis flæddi upp á engi við Brúarás. Íbúum á svæðinu er því bent á að huga að mögulegum áhrifum hlaups á eignir og búfénað nærri bökkum Hvítár. 

Frekari upplýsingar um hlaupið í ágúst 2020 má finna í skýrslu veðurstofunnar um það: https://www.vedur.is/media/vedurstofan-utgafa-2021/VI_2021_001.pdf 






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica