Fréttir
Myndskeið sem sýnir hitastigið klukkan 15:00, 12. júlí ár hvert frá 1997 til 2019.

Kortleggja ástand lofthjúpsins aftur í tímann

Samstarfsverkefnið CARRA hefur bætt veðurspár fyrir Ísland

10.3.2021

Framfarir í veðurspám á undanförnum áratugum er ekki síst vegna þróunar við gerð lofthjúpsgreiningar, en þær eru notaðar til þess að skilgreina sem best ástand lofthjúpsins hverju sinni. Núorðið nota greiningar mikið magn af gögnum, bæði hefðbundnar veðurmælingar og fjarkönnunargögn, sérstaklega frá  veðurtunglum. Nákvæmari mynd af ástandi lofthjúpsins bætir upphafsskilyrði veðurlíkana og þar með veðurspána. Veðurathuganir frá veðurstöðvum víða um land eru hluti af upphafsskilyrðum veðurspáa hverju sinni. Þannig er ástand andrúmsloftsins kortlagt eins nákvæmlega og kostur er. Þetta er gert í hvert skipti sem líkanið er keyrt, en það er yfirleitt gert fjórum sinnum á sólahring fyrir alla jörðina og stærri spásvæði, fyrir minni svæði eru spárnar oft tíðari.

Endurgreiningar gefa mynd af ástandi lofthjúpsins aftur í tímann

Lofthjúpsgreiningu má síðan nota til þess að bæta mat á þróun veðurs síðustu áratuga. Þá er öllum tiltækum gögnum safnað saman og veðurlíkönin notuð til þess að gera sem nákvæmasta mynd af ástandi lofthjúpsins á þeim tíma. Vegna þess að tilgangurinn er ekki sá að búa til upphafsskilyrði fyrir veðurspá, heldur að meta, eða endurmeta, ástand lofthjúps fyrr á tíð eru slíkir útreikningar kallaðir endurgreiningar. Þær má nýta til þess að fá mynd af þróun hnattræns, eða svæðisbundins veðurfars, og þær geta gefið innsýn inn í þróun veðurfars á svæðum þar sem hefðbundnar veðurathuganir eru af skornum skammti.

Dæmi um svæði með gisið veðurathugunarnet er við Norðurheimskautið og umhverfis það. Á þessu svæði hafa umhverfisbreytingar verið örari en annarsstaðar í heiminum og brýn þörf er á góðri endurgreiningu fyrir svæðið svo hægt sé að leggja betra mat á þróun veðurfars á svæðinu.

Samstarfsverkefni sem bætt hefur veðurspár fyrir Ísland

Í dag var opnað fyrir gögn frá CARRA (Copernicus Arctic Regional Reanalysis) verkefninu, markmið þess var að endurgreina veðurathuganir og veðurfarsmælingar frá 1991 til 2020. Gögnin fyrir árin 1998-2019 eru nú aðgengileg á loftslagsþjónustusetri Kópernikusaráætlunarinnar ,en fleiri ár munu bætast við safnið á næstu mánuðum.

CARRA var  tilraunaverkefni sem notaði sama spálíkan og keyrt er til að reikna veðurspár á Íslandi og Grænlandi, og skoðuð var þróun á tveimur reiknisvæðum, annarsvegar spásvæðinu fyrir Ísland og Grænland og hinsvegar spásvæði norsku veðurstofunnar sem nær yfir norður Noreg og teygir sig yfir Svalbarða, Barentshafið og Novaya Zemlya. 

CARRA_domains_0

Kort sem sýnir þau tvö svæði sem gögn CARRA verkefnisins ná yfir. (Mynd: Copernicus Climate Change Service, ECMWF)

Að verkefninu stóðu veðurstofur Norðurlanda auk frönsku veðurstofunnar. Norska veðurstofan leiddi verkefnið en bæði danska og Veðurstofa Íslands hafa mikla reynslu í veðurspám á þessu svæði. Á Veðurstofu Íslands var undanfari þessa verkefnis íslenskaendurgreiningin sem nær yfir sama tímabil, en notar eldri útgáfu af líkaninu og minna reiknisvæði. Við gerð CARRA var spálíkanið bætt á ýmsa vegu og þær betrumbætur nýttust strax í veðurspám á Íslandi.

Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa (ECMWF) er í forsvari fyrir loftslagsþjónustu Kópernikusaráætlunarinnar fyrir hönd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica