Kröftug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli
Í dag um kl. 10:30 hófst nokkuð kröftug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli. Nokkrir skjálftar hafa mælst yfir M3 að stærð og sá stærsti, M4,4, er sá öflugasti á svæðinu frá því í maí 2023, þegar skjálfti af stærð M4,8 mældist þar.
Kortið sýnir staðsetningu yfirfarinna jarðskjálfta í Mýrdalsjökli í dag. Appelsínugulir þríhyrningar tákna jarðskjálftamæla Veðurstofunnar. Efra línuritið hægra megin sýnir stærðir skjálftanna en það neðra fjölda skjálfta á klukkustund.
Svipaðar hrinur urðu á sama stað í Mýrdalsjökli í maí og júní 2023. Báðar þær hrinur stóðu yfir í nokkrar klukkustundir og höfðu fjarað að mestu leyti út innan sólarhrings. Nú virðist hrinan þróast á svipaðan hátt og hefur dregið úr virkni síðustu klukkustundirnar þótt áfram mælist stöku smáskjálftar. Þó er ekki hægt að útiloka að hrinan taki sig upp aftur með skjálftum af svipaðri stærð og hafa mælst hingað til.
Engar tilkynningar hafa borist um að stærstu skjálftarnir hafi fundist í byggð, þótt ekki sé útilokað að fólk á svæðinu hafi orðið þeirra vart. Engin merki sjást um breytingar á leiðni í ám frá Mýrdalsjökli sem gætu bent til yfirvofandi jökulhlaups.
Veðurstofan bendir á að stærri jarðskjálftar geta aukið líkur á berg- og íshruni.
Áfram er fylgst mjög náið með Mýrdalsjökli og frekari upplýsingar verða birtar á vef Veðurstofunnar ef virknin breytist.
Veðurstofan er með sólarhringsvöktun á allri náttúruvá á Íslandi.
- Rauntímaeftirlit
- Viðvaranir gefnar út ef ástæða er til
- Upplýsingar um virkni birtar í fréttum á vedur.is
- Upplýsingum er miðlað á daglegum stöðufundum til hag- og viðbragðsaðila.
- Vikulegar skýrslur: staða eldfjalla tekin saman og send til hagaðila.
Ítarlegar upplýsingar um eldstöðvarkerfi má finna í Eldfjallavefsjánni: