Fréttir
GPS mælir á toppi fjallsins Þorbjarnar. Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum á Veðurstofu Íslands, tók þessa mynd í lok janúar 2020 stuttu eftir að hann lauk við uppsetningu mælisins í ljósaskiptunum. GPS mælar eru hluti af því mælaneti sem greina landris.

Landris hafið að nýju við Þorbjörn á Reykjanesi

Landrisið nú hægara en það sem mældist í lok janúar. Líklegast að kvikusöfnun hafi tekið sig upp að nýju á sama stað. Engin merki um gosóróa. Vísindaráð Almannavarna kemur saman í næstu viku

17.3.2020

Á síðustu dögum hafa niðurstöður jarðskorpumælinga verið að skýrast og nú er ljóst að þensla sem veldur landrisi er hafin að nýju við Þorbjörn. Þetta staðfesta bæði GPS mælingar á svæðinu og einnig gögn frá gervihnöttum. Vísindamenn á Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Ísor funduðu í morgun og rýndu nýjustu mælingar og gögn.  

Landrisið er á sömu slóðum og það var í lok janúar, en mælist hægara en þá. Verulega hafði dregið úr landrisinu í lok febrúar og virtist það hafa stöðvast tímabundið. Nýjustu gögn sýna að frá byrjun mars hefur land risið rétt innan við 20mm. „Landrisið núna virðist mjög hægt og mun hægara en í lok janúar. 20mm er í raun sáralítið landris og mjög erfitt að greina svo litla breytingum með þeirri tækni sem til staðar er. Oft þarf því að safna gögnum í einhverja daga til að fá það staðfest að landris hafi orðið eða eigi sér stað",segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. "Nú erum við farin að sjá merki um landris og benda okkar útreikningar til þess að það eigi sér svipaðan uppruna og landrisið í janúar“, segir Benedikt.

Myndin sýnir meðal færsluhraða GPS stöðva við Þorbjörn og Reykjanestá frá 3. mars. "THOB" fyrir miðri mynd táknar mælinn sem staðsettur er á toppi fjallsins Þorbjarnar. Rauðu örvarnar sýna lóðréttan hraða og bláu örvarnar sýna láréttan hraða. Bláa örin neðan við skalann í hægra horni myndarinnar, er til viðmiðunar og sýnir hraða sem er 100 mm/ári (sem þýðir um það bil 1 mm færsla á dag). Mynstrið sem örvarnar mynda sýna hvernig allar stöðvar nálægt Þorbirni færast út frá nokkurn veginn sama punktinum.  Þetta mynstur gefur til kynna að kvika sé að flæða upp í efri hluta jarðskorpunnar um það bil þar sem miðja þennslumerkisins er. Lóðréttur hraði sýnir að jörð hækkar mest um 2-3 mm á dag. Til samanburðar sést að engin sambærileg færsla sést við Reyjanestá, merkt RVIT og SYRF. Hér er hægt er að sækja myndina á PDF formi.

Kvikusöfnun getur átt sér stað í langan tíma án þess að það komi til eldgoss

Eins og Vísindaráð Almannavarna ályktaði á sínum tíma er líklegasta skýringin á landrisinu talin vera kvikusöfnun.  „Þó svo að við sjáum merki um að landris sé hafið að nýju táknar það ekki að atburðarásin við Þorbjörn sé að hraða á sér, né að gos muni hefjast á næstunni. Þekkt er að kvikusöfnun geti átt sér stað í langan tíma, mánuði, jafnvel ár, án þess að komi til eldgoss“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni. „Svona atburðarás eins og við erum að sjá á Reykjanesi núna getur verið mjög löng og kaflaskipt, þar sem dregur úr virkni tímabundið án þess að henni sé að fullu lokið. Næstu skref eru að Vísindaráð Almannavarna komi saman til að meta stöðuna og hafa Almannavarnir boðað til fundar í lok næstu viku að öllu óbreyttu“, segir Kristín.

Mikil skjálftavirkni ein af sviðsmyndum Vísindaráðs

Talsverð skjálftavirkni fylgdi landrisinu og var það ein af þeim sviðsmyndum sem Vísindaráðið gerði ráð fyrir. Jarðskjálfti sem fannst víða á suðvesturlandi mældist að morgni 12. mars um 4 km NNA við Grindavík og 2 km austur af Bláa Lóninu og fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið. „Við mátum skjálftann 12. mars M5,2 en nú höfum við endurmetið hann með stærð M4,6. Það getur verið flókið að meta stærð stærri skjálfta en nú erum við mörg búin að liggja yfir þessum skjálfta og þetta er niðurstaðan“, segir Kristín Jónsdóttir. „Hluti af skýringunni er sú að bylgjur eru að endurkastast í jarðskorpunni sem flækir úrvinnsluna. Það má líkja þessu við að framkalla bylgjur í vatni í baðkari, þá endurkastast vatnið frá öllum hliðum og það er einmitt mikið af slíkum og óvenju sterkum endurköstum á Reykjanesskaganum. Við munum skoða þessa hrinu í samhengi við önnur gögn sem nú liggja fyrir á næsta fundi Vísindaráðs til að meta líklegustu framvindu atburðarásarinnar“, segir Kristín.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica