Fréttir

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á "vatnsturna jarðarinnar"

Ráðstefna um háfjallasvæði jarðar lýkur í dag

31.10.2019

Hæstu tindar jarðar allt frá Andesfjöllunum til Himalajafjalla verða fyrir miklum áhrifum loftslagsbreytinga og þau áhrif ná til þéttbýlustu svæða jarðar.

Í dag lýkur ráðstefnu á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO, í Genf – „High Mountain Summit“ – en hana sitja 150 fulltrúar víðsvegar að úr heiminum. Markmið ráðstefnunnar er að forgangsraða aðgerðum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og draga úr alvarlegum afleiðingum þeirra á háfjallasvæðum og á þau samfélög sem reiða sig á ferskvatn frá þessum svæðum. Þær aðgerðir fela meðal annars í sér áætlun um að auka rannsóknir og mælingar í tengslum við vatnsbúskap með það að markmiði að tryggja sjálfbæra vatnsnotkun og draga úr tjóni af völdum hamfaraflóða sem eru fylgifiskar loftslagsbreytinga.

Fjórðungur af yfirborði jarðar telst til fjalllendis og þar búa um 1,1 milljarður manna. Á þessum svæðum er að finna upptök mestu vatnasviða jarðar og eru þau því oft nefnd „vatnsturnar jarðarinnar“. Til þessara svæða teljast Himalajafjöllin og háslétta Tíbets, oft nefnd „þriðji póllinn“.


Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, situr fundinn ásamt 150 fulltrúum víðsvegar að úr heiminum.

Vatns- og veðurfræðilegar upplýsingar og miðlun þeirra lykillinn að nauðsynlegum aðgerðum

„Loftlagsbreytingar eru að hafa áhrif á úrkomu í fjallendi jarðar og þar með vatnsbúskap. Í einhverjum tilfellum mun úrkoman aukast og verða á örðum tímum árs en áður. Flóð í ám sem orsakast af asarigningu á snjó verða fyrr á vorin og síðar um haust en áður. Þau verða líka tíðari hærra til fjalla en fátíðari neðar í fjöllunum. Vatns- og veðurfræðilegar upplýsingar, miðlun þeirra og ráðgjöf byggð á vísindum er því lykillinn að  þeim aðgerðum sem fara þarf í til að samfélög geti aðlagast loftslagsbreytingum“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, sem situr ráðstefnuna. Árni leiðir nú samstarfsvettvang innan WMO – „Global Cryosphere Watch“ – sem meðal annars mótar áætlanir um skipulag og samræmingu á mælingum og miðlun upplýsinga á öllum þáttum freðhvolfs jarðar; þ.e. snjóþekju, jöklum, lagnaðarís og hafís. „Ráðstefnur eins og þessi er mikilvægur þáttur í að samræma aðgerðir á alþjóðavísu og ná virkilegum slagkrafti til að takast á við þessar miklu áskoranir sem loftslagsbreytingar eru“, segir Árni.

Ráðstefnunni lýkur í dag, en nánar má lesa um hana á vefsíðu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica