Fréttir
Málþing í Hofi: Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga

Málþing í Hofi: Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga

30.1.2026

Fimmtudaginn 12. febrúar fer fram málþing í Hofi á Akureyri undir yfirskriftinni Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga – frá áskorunum til aðgerða. Málþingið er jafnframt í streymi.
Málþingið er lokaviðburður aðgerðar C.10 í byggðaáætlun, Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög, sem Byggðastofnun hefur leitt í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Markmið verkefnisins er að styrkja sveitarfélög í mótun og framkvæmd aðlögunaraðgerða vegna loftslagsbreytinga.
Á málþinginu verður meðal annars kynnt fyrsta útgáfa leiðarvísis fyrir sveitarfélög um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem byggir á reynslu tilraunaverkefna í fimm sveitarfélögum. Þá verður fjallað um nýja aðlögunaráætlun Íslands, Loftslagsatlas Íslands, sem Veðurstofa Íslands þróar og heldur utan um, ásamt fleiri verkfærum sem veita sveitarfélögum aðgengileg loftslagsgögn og greiningar til að styðja við ákvarðanatöku og aðlögun að loftslagsbreytingum. Veðurstofa Íslands hefur auk þess lagt til verkefnisins þekkingu, greiningar og gögn.
Einnig verða flutt erindi um náttúrumiðaðar lausnir, aðlögun í skipulagsgerð og reynslu sveitarfélaga af því að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga í nærumhverfi sínu. Að lokum fara fram pallborðsumræður um tækifæri og áskoranir sveitarfélaga í aðlögunarmálum.
Málþingið er ætlað fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga, auk þeirra sem starfa við stefnumótun, skipulag, innviði og umhverfis- og loftslagsmál, sem og öðrum áhugasömum.
Skráning er nauðsynleg, bæði fyrir þátttöku á staðnum og í streymi.

Facebook-viðburður

Adlogun-hofi-2026-dagskra-1-




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica