Fréttir
Hópur á svölum Veðurstofu Íslands.
Markmið MEDiate er að þróa ákvarðanakerfi (Decision Support System) sem styður sveitarfélög og yfirvöld við bætta áhættustjórnun vegna náttúruvár.

MEDiate verkefnið á lokametrunum – alþjóðlegt samstarf um áhættustjórnun náttúruvár

8.9.2025

Evrópska rannsóknarverkefnið MEDiate hófst árið 2021 og fékk árið 2022 tæplega 5 milljón evra styrk úr Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið stendur yfir í þrjú ár og er leitt af rannsóknastofnuninni NORSAR í Noregi. Alls taka 18 samstarfsaðilar frá sjö Evrópulöndum þátt í verkefninu, þar á meðal Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og Austurbrú.Markmið MEDiate er að þróa ákvarðanakerfi (Decision Support System) sem styður sveitarfélög og yfirvöld við bætta áhættustjórnun vegna náttúruvár. Með því að skoða samspil ólíkra váa, til dæmis áhrif aftakaúrkomu á skriðuhættu eða samverkandi áhrif sjávarflóða og árflóða, er unnið að lausnum sem hjálpa samfélögum að undirbúa sig fyrir afleiðingar loftslagsbreytinga.

MEDiate-hopmynd-af-svolum-Vedurstofunnar

Hópurinn á svölum Veðurstofu Íslands. 

Verkefnið beitir þverfaglegri nálgun þar sem sérfræðingar í veðurfræði, jarðeðlisfræði, félagsfræði, verkfræði, upplýsingatækni og fleiri greinum vinna saman að því að tryggja að niðurstöðurnar verði notendamiðaðar og  studdar viðeigandi tækni.Dagana 3. og 4. september hittust svokallaðir tilraunahópar (test bed) verkefnisins frá Íslandi og Bretlandi á vinnustofu á Veðurstofu Íslands. Þar komu saman fulltrúar frá Héraðsráðinu í Essex (Essex County Council), Slökkviliði og björgunarþjónustu Essex-héraðs (Essex County Fire and Rescue Service) og Háskólanum Anglia Ruskin (Anglia Ruskin University) ásamt íslensku samstarfsaðilunum og boðsgestum frá Reykjavíkurborg og Skógrækt Reykjavíkur.

MEDiate-hopmynd-i-skograekt

Í vettvangsferð í Heiðmörk. 

Auk þess sem hér eru nefndir eru fleiri breskir aðilar þátttakendur í MEDiate verkefninu, þótt þeir hafi ekki verið með á þessari vinnustofu. Þátttakendur frá Anglia Ruskin koma einnig úr alþjóðlegu samstarfi innan háskólans.Á vinnustofunni var fjallað um reynslu þátttakenda af verkefninu og horft til framtíðar þegar kemur að áskorunum vegna flóða og gróðurelda.

MEDiate-slokkvilid

Frá vettvangsferð hjá Brunavörnum Árnessýslu. 

Eftir vinnustofuna fór hópurinn í vettvangsferð þar sem þátttakendur heimsóttu lykilaðila sem sinna viðbrögðum við náttúruvá. Með heimsóknunum jókst skilningur þátttakenda á því hvernig hægt er að styðja við daglegt starf viðbragðsaðila með betra skipulagi. Þakkir eru færðar Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Skógrækt Reykjavíkur í Heiðmörk, Hjálparsveit skáta í Kópavogi, Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði Grindavíkur fyrir hlýjar móttökur.


Lesa má nánar um verkefnið á heimasíðu NORSAR og í eldri frétt á vef Veðurstofunnar.

MEDiate





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica