Tíðarfar í júlí 2007
- stutt yfirlit
Mánuðurinn var mjög hlýr um landið sunnan- og vestanvert, hiti var í ríflegu meðallagi víðast fyrir norðan, en við austur- og suðausturströndina var hitinn nærri meðallagi. Óvenjuþurrt var um mikinn hluta landsins mestallan mánuðinn, jafnvel svo að gróðri hrakaði og vatnsból þornuðu. Mestir voru þurrkarnir inn til landsins á Vesturlandi, víðast hvar á vestanverðu Norðurlandi austur til Eyjafjarðar og sums staðar á Vestfjörðum. Einnig var óvenjuþurrt í Hornafirði og sums staðar sunnan til á Austfjörðum þar til allra síðustu daga mánaðarins. Mest var úrkoman að tiltölu norðan til á Austfjörðum en náði þó ekki meðalúrkomu að magni til. Sunnanlands hafa skúrir verið viðloðandi síðari hluta mánaðarins, en komið mjög misjafnt niður.
Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 12,8°C og er það 2,2 stigum ofan meðallags. Þetta er næsthlýjasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, hlýrra varð 1991, en þá var meðalhitinn 13,0°C. Meðalhiti í júlímánuðunum 1936, 1939 og 1944 er þó ekki marktækt lægri en hitinn nú. Flutningar Veðurstofunnar um bæinn auka á óvissuna. Séu mánuðirnir júní og júlí teknir saman er jafnhlýtt nú og var sömu mánuði árið 2003, hvoru tveggja hlýrra en dæmi eru annars um frá upphafi mælinga. Þetta er 12. júlímánuðurinn í röð með hita yfir meðallagi í Reykjavík.
Á Akureyri mældist meðalhitinn 10,7°C og er það 0,2°C ofan meðallags, ámóta og í fyrra. Aftur á móti var nokkru hlýrra í júlí 2005. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,4°C og er það 1,5°C ofan meðallags. Saman eru júní og júlí í ár þeir hlýjustu frá 1933 og þar með næsthlýjastir frá upphafi, munur er þó vart marktækur. Í Bolungarvík var meðalhitinn 11,0°C og er það 2,0°C yfir meðallagi, á Dalatanga var meðalhitinn í júlí 8,3°C, eða 0,3°C yfir meðallagi, á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 10,3°C, eða 0,1°C undir meðallagi. Á Hveravöllum var meðalhitinn 9,1°C og er það 2,1°C yfir meðallagi.
Úrkoma í Reykjavík mældist 33 mm og er það 63% meðalúrkomu í júlí. Þetta er þurrasti júlí síðan 1993. Úrkoma í júní og júlí var samtals 58 mm en dreifðist mjög misjafnt á tímabilið. Þurrt mátti kalla frá 10. júní til mánaðamóta og síðan var úrkoma áfram mjög lítil fram til 19. júlí. Úrkoma á Akureyri mældist 17 mm í júlí og er það aðeins röskur helmingur meðalúrkomu. Á allmörgum stöðvum um norðvestanvert landið var mánaðarúrkoman innan við 10 mm og í beinu framhaldi af þurrum júní er sums staðar farið að gæta vatnsskorts. Á þurrkasvæðinu í Hornafirði og í Lóni hefur rignt nokkuð síðustu daga og bætt úr á þeim slóðum.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 226 og er það 55 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafnmargar í júlí í Reykjavík frá 1993.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 194 og er það 36 stundum umfram meðallag.
Hæsti hiti sem mældist á mannaðri stöð í mánuðinum var 24,1°C á Hjarðarlandi í Biskupstungum þann 8. Daginn eftir komst hiti þar í 24,6°C á sjálfvirku stöðinni.
Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 16., -2,1°C, en lægsti hiti á sjálfvirkri stöð mældist á Þingvöllum aðfaranótt þess 29., -2,5°C.
Trausti Jónsson