Fréttir
kort af norðurpól og nærliggjandi löndum
Hafísþekja á norðurslóðum 8. ágúst 2007.

Óvenjulítill hafís á norðurslóðum

13.8.2007

Óvenjulítill hafís er nú á norðurslóðum (í ágúst 2007) og hefur aldrei verið jafnlítill á þessum árstíma síðan samfelldar gervihnattamælingar hófust árið 1979. Árslágmark ísútbreiðslunnar verður venjulega í annarri viku september ár hvert, en ísmagnið er nú þegar orðið nærri því jafnlítið og það var í september 2005.

Menn munu nú fylgjast spenntir með því næstu vikurnar hvort það met verður slegið, en um fjórar vikur eru enn til stefnu. Af því tilefni hefur Snjó- og hafísgagnamiðstöð Bandaríkjanna (National Snow and Ice Data Center) sett upp sérstaka vefsíðu þar sem fylgst er með ástandinu frá viku til viku og upplýsingar gefnar um stöðuna. Útbreiðsla íssins er nú innan við 6 milljónir ferkílómetra, en meðaltalið snemma í ágúst er um 8 milljónir.

Á myndinni má sjá að ástandið er óvenjulegast hinum megin í Norðuríshafinu, fjarri Íslandi, en ástandið við Austur-Grænland er ekki langt frá meðallagi. Ísinn við Austur-Grænland er nú meiri en sumarið 2005.

Fylgjast má með gervihnattamælingum frá degi til dags á einstökum hafsvæðum á síðunni Cryosphere Today (daglegar freðhvolfsfréttir):

Athuga ber að nsidc-síðan inniheldur upplýsingar um útbreiðslu, en cryosphere-síðan upplýsir okkur um flatarmál íssins. Ísmiðstöðvarnar gera greinarmun á þessu tvennu, flatarmálstalan er ívið lægri vegna þess að þar er búið að draga frá opin svæði innan meginísþekjunnar, en útbreiðslan leggur áherslu á jaðarinn.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica