Fréttir
Bláber
Bláber 25. ágúst 2007.

Tíðarfar í ágúst 2007

- stutt yfirlit

4.9.2007


Tíðarfar ágústmánaðar var nokkuð kaflaskipt og heldur kaldara var að tiltölu heldur en næstu tvo mánuði á undan. Framan af mánuðinum voru lengst af ríkjandi fremur hægar norðlægar áttir. Um miðjan mánuð gerði nokkuð hvassa norðanátt og veður kólnaði frekar. Kringum þann 20. skipti um veðurlag, tóku þá suðlægar og vestlægar áttir völdin og síðasta þriðjung mánaðarins var úrkomutíð sem lyfti heildarúrkomu mánaðarins vel yfir meðallag. Næturfrost voru algeng á Suðurlandsundirlendinu en aðrir landshlutar sluppu mun betur.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 11,0 stig og er það 0,7 stigum yfir meðallagi. Jafnhlýir eða hlýrri ágústmánuðir hafa verið algengir á síðustu árum. Á Akureyri var meðalhitinn 10,0 stig og er það í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn10,4 stig og 6,6 stig á Hveravöllum.

Úrkoma í Reykjavík mældist 96 mm og er það um 55% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 54 mm, eða 60% umfram meðallagið þar. Á Höfn mældust aðeins 48 mm, úrkoma á þeim slóðum hefur aðeins fjórum sinnum verið minni í ágúst síðustu 40 árin.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 206 og er það 51 stund umfram meðallag. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 132 og er það í meðallagi.

Hæsti hiti sem mældist í mánuðinum var 22,3 stig á Seyðisfirði þann 22. Sama dag fór hitinn í 21,5 stig á Dalatanga og var það hæsti hiti mánaðarins á mannaðri veðurstöð. Kaldast varð í Árnesi aðfaranótt 28., -4,0 stig. Sömu nótt fór hiti niður í -1,9 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.

Sumarið það sem af er

Mánuðirnir júní til ágúst 2007 voru óvenjuhlýir um allt sunnan- og vestanvert landið. Í Reykjavík var álíka hlýtt 2004, en þessir þrír mánuðir hafa aðeins þrisvar orðið hlýrri en nú, þ.e. 2003, 1881 og 1939. Norðaustan- og austanlands var hiti heldur lægri þó hann hafi einnig verið yfir meðallagi á þeim slóðum.

Aðeins vantaði 10 mm upp á meðalúrkomu í Reykjavík, því fyrstu 10 dagar júnímánaðar og síðustu 10 dagar ágústmánaðar voru mjög votviðrasamir. Þarna á milli leynist langt úrkomulítið tímabil. Á Akureyri hefur úrkoma ekki verið jafnlítil í júní til ágúst síðan 1995. Að tiltölu virðist þó hafa verið þurrast á úrkomusamasta svæði landsins, Suðausturlandi. Sú úrkoma sem þar mældist þætti þó dágóð í þurrkasveitum norðanlands. Úrkoma síðustu þrjá mánuði hefur mælst 163 mm á Fagurhólsmýri og er það tæpum 17 mm minna en áður hefur minnst mælst í þessum mánuðum. Úrkomumælingar á Fagurhólsmýri hófust 1921. Næstminnst var úrkoman 180 mm, sumarið 1958.

Trausti Jónsson

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica