Hafís í meðallagi í Grænlandssundi
Undanfarnar vikur hefur verið í fréttum að hafís á norðurhveli hafi aldrei verið minni. Þetta á ekki við um hafís í Grænlandssundi en þar er útbreiðsla í meðallagi.
Veðurstofa Íslands fylgist með hafís við landið. Myndirnar hér á síðunni voru unnar á Veðurstofunni úr gögnum frá Metop-A, gervihnetti Evrópsku veðurtunglastofnunarinnar (EUMETSAT).
Myndirnar voru teknar þann 16. október og sýna hafís út af strönd Austur-Grænlands. Sjá má flókna hvirfla í hafísnum (smellið á myndirnar til að fá þær stærri), en þeir stafa af hvirflum í hafstraumnum sem flæðir suður meðfram Austur-Grænlandi.
Ef vel er að gáð má sjá hitaskil í sjónum í Grænlandssundi.