Fréttir
Bláberjalyng í vætu
Bláberjalyng í vætutíð.

Óvenjumikil úrkoma það sem af er október

Úrkoma nálgast met í Reykjavík og víðar

23.10.2007

Úrkoma hefur verið óvenjumikil það sem af er október. Fram til dagsins í dag hafa 135,9 mm mælst í Reykjavík og er aðeins einu sinni sem úrkoma fyrstu 23 daga mánaðarins hefur orðið meiri. Það var 1936, en þá mældust 149,7 mm sama tímabil. Ef ekkert rignir það sem eftir er mánaðarins lendir hann í 10. sæti yfir úrkomusama októbermánuði. Mikilli úrkomu er spáð næstu daga þannig að fullvíst má telja að hann lendi ofar, það þarf 46 mm í viðbót til að hann verði úrkomusamastur (við 1936 er að eiga) og 30 mm ef hann á að verða næsthæstur.

Samanlögð úrkoma í september og það sem af er október í Reykjavík er mjög mikil eða rétt tæpir 300 mm. Ef ekki rigndi meir í þessum mánuði lentu þessir tveir mánuðir saman í þriðja sæti í úrkomumagni og ekki vantar nema um 25 mm til að fara yfir regnmagnið í september og október 1959, en þá mældust samtals 322,1 mm í mánuðunum tveimur.

Úrkoma hefur verið mikil um allt sunnan- og vestanvert landið og víða fyrir norðan er úrkoma einnig yfir meðallagi. Það sem af er október hefur mánaðarúrkoman mælst mest í Kvískerjum í Öræfum, 616 mm. Vantar enn nokkuð upp á mesta úrkomumagn þar í október og langt er í landsmet eins mánaðar. En höfum í huga að enn er rúm vika eftir af mánuðinum og næstu dagana er spáð mikilli úrkomu þannig að ekki er ljóst hvað tölurnar eiga eftir að hækka mikið.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica